Hoppa yfir valmynd
02.03.2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á málþingi um ábyrga stjórnendur og hagsmuni almennings

 Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á málþingi Háskálans á Birföst sem haldið var í Iðnó 2. mars 2012 og fjallaði um ábyrga stjórnendur og hagsmuni almennings.

Góðir gestir,

Oft vill brenna við að litið er á almannahagsmuni og viðskiptasjónarmið sem illsamrýmanlegar andstæður, en ég vænti þess að hér í dag og á málþingum sem fylgja inn í vorið muni sá andi svífa yfir vötnum að svo sé ekki. Ég má til með að fagna þessu framtaki Háskólans á Bifröst og félags Sameinuðu þjóðanna.

Vissulega hvílir ákveðin frumskylda hjá fyrirtæki að þjóna viðskiptahagsmunum, á meðan frumskylda hins opinbera snýr að heildarhagsmunum, hagsmunum almennings. Þó starfsemi fyrirtækis snúist í fyrsta lagi um að tryggja áframhaldandi viðgang fyrirtækisins eru þeir hagsmunir ekki einangraðir og öllu óháðir. Á milli almennings og fyrirtækja er flókið samband – nokkuð sem þarf að vera gagnrýnið samspil neytenda og markaðar.

...

Í kynningu fyrir þetta málþing var minnst á fréttir af díoxínmengun frá sorpbrennslum, sem mig langar aðeins að ræða nánar, því þær varpa áhugaverðu ljósi á hugmyndir okkar um ábyrgð. Þarna var um að ræða undanþágu sem íslensk stjórnvöld sóttust sérstaklega eftir á sínum tíma, sérstaka undanþágu frá mengunarreglum sorpbrennslustöðva sem voru innleiddar í gegnum EES-samninginn.

Það má velta fyrir sér hvar ábyrgð í slíkum málum liggur, en mér er hjarta næst að kalla þetta einhvers konar landlæga tilhneigingu til að telja Ísland undanþegið ýmsum boðum og bönnum sem teljast sjálfsögð úti í hinum stóra heimi – allt á þeim forsendum að hér ríki einhverjar séríslenskar aðstæður.

Í díoxínmálinu kom auðvitað í ljós að við það að brenna sorp á Íslandi myndast öll sömu mengandi efnasamböndin og við sorpbrennslu í öðrum löndum. Því var ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar að auka kröfur til eldri sorpbrennslustöðva, sem féllu undir undanþáguákvæði, þannig að þær fengju afmarkaðan tíma til að uppfylla ströngustu skilyrði fyrir sorpbrennslur en hættu ella starfsemi.

Í þessu litla máli kristallast togstreitan sem getur komið upp. Sem umhverfisráðherra þurfti ég að þrengja stöðu þeirra sem reka sorpbrennslustöðvar til að styrkja stöðu fólksins sem býr í nágrenni þeirra. Það hefur gengið misvel að snúa rekstri þessara stöðva til betri vegar, enda oft nauðsynlegt að ráðast í kostnaðarsamar úrbætur, en réttur almennings til heilnæms umhverfis hlýtur að vega þyngra í þessu tilviki.

...

Ég ætla hér á eftir að ræða stuttlega ólík hlutverk fjögurra aðila að því er varðar hagsmuni almennings; ríkis, sveitarfélga, fyrirtækja og fræðasamfélagsins.

Fyrst varðandi hlut sveitarstjórnarstigsins, sem gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki, sérstaklega í nærsamfélaginu. Það er t.d. á ábyrgð sveitarfélaga að safna sorpi og farga því og sveitarfélög sinna stórum hluta heilbrigðiseftirlits í landinu. Þá er veitustarfsemi verkefni sveitarfélaga hér á landi – hvort sem er að tryggja hreint neysluvatn eða að sjá til þess að skikkur sé á fráveitumálum.

Í hugum margra er oft samasemmerki á milli mengunar og reykspúandi iðjuvera, en þessir þættir sem eru á hendi sveitarfélaganna eru sennilega nærtækari dæmi um þætti sem skipta sköpum í að tryggja flestum okkur heilnæmt umhverfi.

Svo má ekki gleyma því að sveitarfélögin bera mikla ábyrgð á því dýrmætasta sem við eigum. Þau sjá börnunum okkar fyrir aðstöðu í leik- og grunnskóla til sextán ára aldurs, og þar er í mörg horn að líta.

...

Þá að hlutverki ríkisins, sem ásamt sveitarfélögum ber ábyrgð á að standa vörð um grunnstoðir samfélagsins og þar með mestu hagsmuni almennings. Ríkið ber mjög djúpstæðar skyldur gagnvart almenningi í landinu sem ég held að sé hollt fyrir okkur kjörnu fulltrúana að rifja reglulega upp.

Alþingi er stöðugt að samþykkja lög og ráðherrar að setja reglugerðir sem snúa beint að hagsmunum almennings – svo ég nefni skólana aftur sem dæmi, þá er kveðið á um öryggi þeirra bygginga í byggingarreglugerð sem á sér stoð í mannvirkjalögum, og starfsandinn byggir m.a. á reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins, sem sett er með heimild í lögum um grunnskóla. Um skólamötuneytin gilda síðan enn aðrar reglur, en eftirlit með þeim er síðan á hendi sveitarfélagsins. Svona mætti lengi telja og sama mætti segja um ótrúlegustu svið mannlífsins.

Það skiptir máli að regluverk sé sanngjarnt og gagnsætt, svo fyrirtæki sjái sér hag í að starfa innan þess. En það má ekki heldur gleymast af hverju ríkið setur staðla, reglur og eftirlit – það er eitt öflugasta verkfærið sem við höfum yfir að ráða til að standa vörð um heildarhagsmuni fólksins í landinu, sem eins og ég nefndi áðan er mikilvægasta verkefni hins opinbera.

En ríkið er meira en bara reglumaskína. Leyfi mér að nefna nokkur atriði.

Undanfarin ár hefur ríkið unnið eftir stefnu um vistvæn innkaup, sem felur í sér að ef vörur eða þjónusta eru sambærileg að öðru leyti ber að velja þann kost sem telst síður skaðlegur umhverfinu. Með þessu hefur ríkið áhrif til hins betra sem neytandi – sem einn stærsti innkaupaaðili landsins – og hvetur þannig fyrirtæki til að bjóða upp á betri og öruggari vörur og þjónustu.

Nátengt vistvænum innkaupum er Svansverkefnið, sem Umhverfisstofnun sér um og hefur lagt mikið í að efla síðustu ár. Umhverfismerkið Svanurinn auðveldar fólki að velja vöru og þjónustu sem stenst ströngustu umhverfis-, heilsu- og gæðakröfur. Þar er grunnhugsunin hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem neytendur að geta stýrt neyslunni í átt að þeim valkostum sem eru betri fyrir umhverfi og lýðheilsu. Hér sést vel það mikilvæga hlutverk sem ríkið ber, að tryggja aðgang að upplýsingum og fræða almenning.

Þá er rétt að nefna menntun til sjálfbærni, sem er hluti af nýjum aðalnámskrám. Með því tekur ríkið ábyrgð á því að komandi kynslóðir alist upp við það að sjálfbær þróun sé nauðsynlegur hluti samfélagsins. Þetta er atriði sem ég get ekki lagt of mikla áherslu á: Sjálfbær þróun er ein mesta og mikilvægasta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag.

...

Og vind ég mér þá að fyrirtækjunum.

Það er fagnaðarefni hversu mikil gróska hefur verið í kenningum um stjórnun og stjórnendafræði á síðustu árum og áratugum. Síaukin krafa um lýðræði og þátttöku hefur síast inn í menningu fyrirtækja – núorðið skiptir ekki bara máli að stjórnendur séu bólgnir af prófgráðum, heldur þurfa þeir að hafa til að bera ábyrgðartilfinningu og geta liðkað fyrir samvinnu á milli fólks.

Hugmyndafræði sjálfbærni styrkist í framkvæmd sífellt víða, enda er hún óumflýjanleg eins og horfir með heiminn. Þeir aðilar sem fyrstir tileinka sér þá áherslu eru því líklegir til að ná forystu í sínum geira, með því einfaldlega að taka skrefið á undan hinum. Verkfærin eru ótalmörg – við erum þegar farin að sjá fyrirtæki hér á landi innleiða grænt bókhald og móta sér stefnu um samfélagslega ábyrgð – allt er þetta hluti af heildrænni stjórnun, sem þegar upp er staðið hlýtur að snúast um að gera lýðræði að órjúfanlegum þætti við stjórnun fyrirtækja, vöruþróun og kynningarstarf þeirra.

Hér getur ríkið stutt við bakið á fyrirtækjunum, eins og ég kom inn á hér að framan. Innkaup hins opinbera eru svo umfangsmikil, að í þeim felst bæði markaðsstýring og hvatakerfi. Þá erum við daglega að vinna í því að auka meðvitund neytenda og rauninni stýra samfélagshegðun í gegnum ýmis verkefni, líkt og Svaninn – svo ekki sé minnst á þau áhrif sem menntun til sjálfbærni kemur til með að hafa á jákvæða þróun samfélagsins á næstu áratugum.

...

Ég hóf mál mitt á því að nefna díoxínmálið og má til með að segja ykkur stutta sögu af eftirlitsstofnuninni sem kom að því – Umhverfisstofnun. Þegar díoxínmálið komst í hámæli voru eftirlitsmál Umhverfisstofnunar í miðjum umbótaferli, en það starf er að klárast um þessar mundir. Hluti af þeim endurbótum sem ráðist var í snérist um að birta upplýsingar um eftirlit með mengandi starfsemi alltaf á heimasíðu stofnunarinnar. Þetta er mikilvægt skref, að því leyti sem snýr að almenningi og rétti hans til bestu fáanlegu upplýsinga, og leið til að byggja upp traust gagnvart eftirlitinu.

Umhverfisstofnun óttaðist að sjálfvirk birting upplýsinganna myndi mæta andstöðu atvinnulífsins, en því fór fjarri. Þegar upplýsingarnar voru opinberar og öllum aðgengilegar var eins og fyrirtækin fengju mikinn viðbótarmetnað til að gera betur – þau brugðust hratt og vel við ábendingum um það sem betur mætti fara.

Þetta þykir mér mjög jákvæð þróun, sem sýnir vel hvernig opinberir eftirlitsaðilar og atvinnulífið geta unnið saman – í þágu öruggara og heilnæmara umhverfis fyrir almenning.

...

Rétt að lokum varðandi hlutverk háskólasamfélagsins, þá tel ég þetta málþing vera gott dæmi um það hvað háskólarnir geta gert. Ég fagna sérstaklega því frumkvæði sem Háskólinn á Bifröst tekur með Principles for Responsible Management Education og hvet skólann til að hafa frumkvæði að því að fá hina háskólana í lið með sér. Hér eru mörg sóknarfæri. Ekki bara að búa til nýja stjórnunarmenningu, heldur hreinlega að þróa nýja tegund viðskiptamódels, þar sem vernd umhverfis, félagslegt réttlæti og samfélagsleg ábyrgð eru grunnstoðir. Og áminning um að hagvöxtur og þjóðarframleiðsla eru ekki alltaf þeir mælikvarðar sem sýna best raunverulega líðan fólks í samfélaginu – þar þurfum við kannski að þróa nýja mælikvarða til framtíðar, líkt og framfarastuðulinn Genuine Progress Indicator.

Ágætu gestir,

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag og fylgjast með umræðum sem snúast ekki bara um einhverjar dægurflugur, heldur umræður þar sem horft er til langrar framtíðar – og vonandi bjartrar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta