Hoppa yfir valmynd
14.03.2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu um Kvískerjasjóð

 

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ráðstefnu um Kvískerjasjóð sem haldin var að Smyrlabjörgum í Suðursveit 14. mars 2012.

 

afmælisbarnið Hálfdán Björnsson, kæru ráðstefnugestir,

Það eru mikil forréttindi okkar Íslendinga að eiga þessa sveit andstæðnanna, sem Öræfin eru. Þessi mjóa landræma á milli stærsta jökuls Evrópu og beljandi úthafsins, þessi litla sveit sem lúrir undir hlíðum hæsta fjalls landsins, sem jafnframt er ein öflugasta eldstöð landsins. Ofan af jöklinum síga ótal skriðjöklar niður á sandana og senda frá sér jökulvötn sem byltast niður að sjó. Landið sunnan Vatnajökuls er eins og sýningarsalur fyrir flest það sérstæðasta í íslenskri náttúru.

Þetta verður seint kölluð venjuleg sveit og Kvísker ekki venjulegur bær. Þar settust að búi fyrir rúmri öld hjónin Björn og Þrúður og ólu upp systkinin sem urðu kveikjan að því að við erum hér samankomin í dag. Kvísker voru lengi eins og sæluhús á mikilli sandauðn, eða eins og Jónas frá Hriflu skrifaði árið 1937, „í skjóli við lítið fell við jökulinn er ofurlítill bær, sem öllum ferðamönnum, er um sandinn fara, þykir vænt um.“

Kvísker voru óvanalegur en að því er virðist frjór og góður jarðvegur, því hér ólust upp systkini með einstakan áhuga á náttúrunni og hæfileika til að sækja sér fróðleik um hana. Áhugann skilja allir sem fara hér um sveitina – þegar náttúran er jafn stórbrotin og í Öræfunum, þá jafnast hún á við bestu háskóla. Áhugi þeirra systkina var einnig bráðsmitandi öllum þeim sem voru þeirrar gæfu aðnjótandi að umgangast þau. Þeirra á meðal er Ragnar Axelsson ljósmyndari sem dvaldi langdvölum á Kvískerjum sem barn og unglingur. Hann hefur lýst því hvernig dvölin þar varð kveikjan að óþrjótandi áhuga hans á náttúrunni og því að fanga hana á mynd. Það þarf ekki að orðlengja að Raxi er í dag meðal bestu og þekktustu náttúruljósmyndara Íslands og sem slíkur varð hann fyrstur til að hljóta fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytisins sem afhent voru á degi íslenskrar náttúru síðastliðið haust. Þannig hefur áhugi og elska Kvískerjasystkina alið af sér áhuga og virðingu annarra fyrir náttúrunni sem aftur hefur ekki bara opnað augu fjölmargra Íslendinga fyrir þeim auðæfum sem í henni búa heldur vakið athygli á henni langt út fyrir landsteinana.

Það var af virðingu við þennan áhuga sem umhverfisráðuneytið stofnaði Kvískerjasjóð fyrir níu árum, fyrir framlag systkinanna til þekkingar og rannsókna á náttúru og sögu Austur-Skaftafellssýslu. Sjóðnum var ætlað að taka við kyndlinum af systkinunum og afhenda næstu kynslóðum, með því að stuðla að og styrkja rannsóknir á náttúru- og menningarminjum hér á svæðinu. Störf og áhugasvið Kvískerjasystkinanna eru meðal þess sem haft er til hliðsjónar við úthlutun úr sjóðnum, en fræða- og rannsóknarstarfsemi þeirra er jafnframt mikilvægur grundvöllur að áframhaldandi rannsóknum.

Við erum hér saman komin í dag til að hlusta á fræðandi erindi á sviði náttúruvísinda og menningarminja, sem öll eiga það sameiginlegt að hafa notið styrks úr Kvískerjasjóði. Þar vantar ekki fjölbreytileikann – og er það í samræmi við fjölbreytilegt áhugasvið systkinanna á Kvískerjum.

Eins og nærri má geta tengjast mörg verkefnanna Vatnajökli, vísindamenn hafa fjallað um eldgos í Öræfajökli, landslag og landmótun framan við jökulinn – eins og til dæmis rannsóknir á jökulgörðum, þ.e. setgerð, bygging og myndun, kelfing íss, jökulhlaup, útbreiðsla jökulsins og áhrif jökulsins á veður og veðurfar.

Verkefni á sviði vistfræði og gróðurfars eru t.d. rannsóknir á gróðurframvindu við hörfun jökla, þróun gróðurs og jarðvegs, en einnig á sviði erfðafræði eins og úttekt á erfðabreytileika hrafnaklukku.

Rannsóknir í dýrafræði hafa einnig hlotið styrki úr Kvískerjasjóði og eru þar á meðal fuglarannsóknir eins og búsvæðaval og afkoma óðinshana og þórshana, svo og farleiðir og vetrarstöðvar skúms. Rannsóknir á landnámi smádýra í jökulskerjum, rannsóknir á sjóbirtingi og útbreiðsla tófu eru einnig þar á meðal.

Kvískerjasystkinin hafa alla tíð haft mikinn áhuga á samfélaginu og sögu svæðisins. Í samræmi við það hafa einnig verið styrkt verkefni á sviði menningarminja eins og fornleifarannsóknir á eyðibýlum, munnlega hefð, söfnun á gömlum myndum, skráningu menningarminja og fuglanytja og hefð á sviði veiða, matreiðslu og aðferða við geymslu.

Á síðari árum hefur Kvískerjasjóður loks styrkt verkefni sem lúta að ferðamennsku og útivist. Má þar m.a. nefna þá framkvæmd að koma upp kláf yfir Breiðá, en kláfinn, sem einn Kvískerjabræðra reisti þar árið 1973 í tengslum við jarðfræðirannsóknir, tók af í vatnavöxtum árið 2002.

Eins og þessi stutta yfirferð gefur til kynna er fjölbreytni verkefna og rannsókna mikil, en alls hafa verið veittir um 40 styrkir fram til þessa.

Í dag skipa stjórn Kvískerjasjóðs þau Sigurlaug Gissurardóttir bóndi sem jafnframt er formaður stjórnarinnar, Erling Ólafsson skordýrafræðingur á NÍ og Helen M. Gunnarsdóttir deildarstjóri í mennta og menningarmálaráðuneytinu og er Þórunn Elfa Sæmundsdóttir starfsmaður umhverfisráðuneytisins ritari sjóðsins. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim fyrir óeigingjarnt starf í þágu Kvískerjasjóðs.

Kæru ráðstefnugestir,

Eins og ég nefndi hér í byrjun, þá á eitt Kvískerjasystkinanna stórafmæli í dag. Hálfdán Björnsson er 85 ára í dag – en fáir menn hafa jafn víðtæka og staðgóða þekkingu á lifandi náttúru landsins, hvort sem eru fuglar, skordýr eða plöntur. Mér skilst að hann vilji sem minnst veður úr þessum stóráfanga gera, en í tilefni dagsins vil ég færa Hálfdáni fuglabók Benedikts Gröndal, með bestu kveðjum frá okkur í umhverfisráðuneytinu.

Ég óska ykkur ánægjulegrar dvalar hér á Smyrlabjörgum í dag og trúi því að við eigum eftir að njóta fjölbreyttrar dagskrár.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta