Hoppa yfir valmynd
23.03.2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands 2012

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á aðalfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands sem haldinn var 23. mars 2012.

 

Forstjóri og starfsmenn Náttúrufræðistofnunar og aðrir fundargestir,

Máninn skein á marinn blá,
mundi skemmta höldum,
vindur svalur vestri frá
velti löngum öldum.

Stjarnan yfir lagar leið
langan þreytti boga;
fögur ljósa fimbulreið
flaug í bylgjuloga.

Stóð ég fram á stafnajó,
stundi þungan alda -
örn og svanur ásamt fló
yfir djúpið kalda.

Afl og fegurð ásamt fer
yfir lífið manna,
feykir burtu feigum her
fölsku spámannanna.

Náttúran og öll hennar undur eru í forgrunni í þessum vísum Benedikts Gröndal. Í þeim kallast á listamaðurinn annars vegar og vísindamaðurinn hins vegar – listamaðurinn þar sem hann dregur upp stórbrotna mynd af fagurri fimbulreið norðurljósanna og þungri stunu hafsins – vísindamaðurinn þar sem hann beinir athyglinni að einföldum eðlisfræðilegum lögmálum: að vindurinn valdi ölduganginum. Niðurstaðan hverfist um þetta tvennt og er allri falsspámennsku yfirsterkari.

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ársfund Náttúrufræðistofnunar Íslands og er ekki úr vegi að bregða fyrir sig orðum Benedikts af því tilefni – manns sem átti sameiginlega með þeim sem hér starfa annars vegar virðinguna fyrir náttúrunni og hins vegar skilninginn á mikilvægi vísindanna til að auka þekkingu okkar á henni. Benedikt er auðvitað sérstaklega ofarlega í hugum margra okkar um þessar mundir eftir langþráða útgáfu Íslenskra fugla á síðasta ári – og viðhafnarútgáfu sömu bókar nú fyrr í vikunni – bókar sem var búin að liggja óhreyfð í handriti í meira en öld, þar af yfir í hálfa í varðveislu Náttúrufræðistofnunar. Betra er seint en aldrei og Náttúrufræðistofnun Íslands á hrós skilið fyrir sína aðkomu að útgáfu þessa mikla listaverks og sögulegu heimildar um náttúrufræðina á þarsíðustu öld.

En frá því Benedikt sat og nostraði við að draga upp myndir af fuglum landsins hefur mikið vatn runnið til sjávar í rannsóknum á íslenskri náttúru. Þótt forveri stofnunarinnar, Hið íslenska náttúrufræðifélag, hafi komið til sögunnar á hans tíma – og fyrir hans tilstuðlan – leit stofnunin sem slík ekki dagsins ljós fyrr en um hálfri öld eftir að hann lést eða um miðbik síðustu aldar. Tuttugu ár eru svo í ár frá því að núgildandi lög um Náttúrufræðistofnun Íslands tóku gildi og grunnur var lagður að núverandi skipulagi og starfsemi stofnunarinnar. Þá var forstjóranum m.a. uppálagt að halda árlega fundi með starfsmönnum stofnunarinnar og forstöðumönnum náttúrustofa, meðal annars til „að greina frá niðurstöðum rannsókna í fræðslu- og vísindaritum og lýsa meginþáttum í starfsemi stofnunarinnar í árlegri skýrslu“.

Frá því að fyrsta ársskýrsla Náttúrufræðistofnunar kom út fyrir árið 1994 hefur stofnuninni enn vaxið fiskur um hrygg– þá voru 26 starfsmenn í fullu starfi og 21 í tímabundnum störfum - í dag eru starfsmennirnir rúmlega fimmtíu. Þetta er harðsnúinn hópur okkar færustu vísindamanna og -kvenna, sem daglega færir okkur ómetanlega innsýn í það undraverk sem náttúran okkar er. Fyrir það ber að þakka sérstaklega.

Í fyrsta sinn sem ég ávarpaði ársfund Náttúrufræðistofnunar hafði ég aðeins verið tíu daga í embætti umhverfisráðherra. Þetta var vorið 2009 og notaði ég þá tækifærið til að gera grein fyrir áherslum ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum. Meðal annars benti ég á að ætlunin væri að hefja náttúruvernd til vegs og styrkja stöðu hennar innan stjórnarráðsins til muna. Nú þremur árum síðar, þegar rúmt ár er eftir af kjörtímabilinu og ég ávarpa þessa samkomu í fjórða sinn, er tímabært að líta til baka og skoða hvað hefur áunnist og hvar nauðsynlegt er að taka til hendinni.

Nú er unnið að lagafrumvarpi um náttúruvernd á grunni Hvítbókar um löggjöf til verndar náttúru Íslands og er stefnt að því að leggja það fram á haustþingi að undangengnu kynningarferli. Litla náttúruverndarfrumvarpið svokallaða, er komið úr umhverfis- og samgöngunefnd þingsins og næst vonandi að ljúka því í vor þannig að ákvæði um sérstaka vernd í 37. grein sem og ákvæði gegn utanvegaakstri í 17. grein verði treyst betur. Með breytingunum fær Náttúrufræðistofnun aukin verkefni á sviði verndunar sérstakra náttúrufyrirbæra. Stofnunin verður umsagnaraðili þegar sótt er um leyfi til framkvæmda sem geta haft í för með sér röskun á fjölda náttúrufyrirbæra – allt frá eldhraunum til hallamýra, frá fossum til hvera – í stuttu máli þeirra hluta íslenskrar náttúru sem eru sérstæðir og fágætir. Þessu verkefni fylgja rannsóknir og aukið hlutverk við að halda skrá yfir náttúrufyrirbærin.

Ég greindi einnig frá því á mínum fyrsta ársfundi hér að sérstaklega ætti að huga að náttúruvernd strandsvæða og verndunar svæða í sjó. Bætt hefur verið við fimm kóralsvæðum fyrir sunnan landið, þannig að nú eru í gildi veiðitakmarkanir með botnvörpu á 10 kóralsvæðum þar sem kaldsjávarkórallar njóta verndar hér við land. Hins vegar hafa engin strand- eða hafsvæði verið friðuð á tímabilinu. Þótt samkomulag hafi náðst um ákvæði friðlýsingar fyrir Vestmannaeyjar er ekki komin niðurstaða um hvernig eftirliti, vöktun og rannsóknum á lífríki svæðisins verður hagað. Ég tel afar mikilvægt að ljúka þeirri vinnu sem fyrst í samvinnu við bæjarstjórn Vestmannaeyja, Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun. Á þessu sviði er mikið verk óunnið – í raun er ótrúlegt hversu fá svæði Ísland hefur friðað í sjó – og vonandi að við náum að gera enn betur á næstu missirum.

Kortlagning gróðurs og vistgerða á láglendi er eitt af áherslumálum í ríkisstjórnarsáttmálanum sem er að komast á skrið, einkum eftir að ljóst varð að Náttúrufræðistofnun fær IPA styrk til þess að vinna að þessu mikilvæga verkefni á næstu 5 árum. Þetta er einn mikilvægasti áfanginn í að afla þekkingar og öðlast heildaryfirsýn á lífríki landsins þannig að auðveldara verði að meta líkleg áhrif sem ákvarðanir um landnýtingu og framkvæmdir komi til með að hafa á náttúru landsins. Þetta er einkar mikilvægt í ljósi þess að á næstu dögum verður rammaáætlun lögð fyrir Alþingi til umræðu og afgreiðslu og hætt er við að í kjölfarið verði ásókn í heimildir til framkvæmda á svæðum sem verða í nýtingarflokki.

Fyrir þremur árum greindi ég einnig frá fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um að koma á nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti, sem fengi lykilhlutverk varðandi rannsóknir, nýtingarstefnu, ráðgjöf og verndun á sviði auðlindamála. Skemmst er frá því að segja að ríkisstjórnin samþykkti síðastliðinn þriðjudag tillögu til þingsályktunar þar sem m.a. er gerð tillaga um stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Þetta gæti orðið eitt stærsta skref ríkisstjórnarinnar til að efla stöðu umhverfis- og náttúruverndarmála á kjörtímabilinu, að lyfta umhverfissjónarmiðum upp á þann stall að til þeirra sé litið miklu víðar.

Samstarf nýs umhverfis- og auðlindaráðuneytis og nýs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis kemur til með að vera náið, en enn á eftir að útfæra í þaula hvernig því verður háttað. Ég vil þó sérstaklega nefna Hafrannsóknarstofnun. Þar munu ráðherrarnir báðir hafa jafna aðkomu, þannig að tryggt sé að allir þættir sjálfbærrar þróunar verði við borðið þar sem ráðgjöf um nýtingu sjávarauðlindarinnar verður til.

Hafrannsóknarstofnun er um margt lík Náttúrufræðistofnun – sumir ganga svo langt að segja að þið séuð að gera sömu hlutina, önnur stofnunin á landi en hin í sjó – þannig að við hljótum að sjá fyrir okkur aukið og gott samstarf stofnananna tveggja. Ég legg þessa hugmynd inn hjá ykkur, bið ykkur að melta þetta og sjá hvernig ný skipan ráðuneyta geti eflt málaflokkinn og tryggt að ákvarðanir í umhverfismálum og um nýtingu náttúrunnar séu teknar á styrkari grunni. Góðir gestir,

Starfsemi Náttúrufræðistofnunar, rannsóknir og vöktun á náttúrunni ásamt gagnasöfnum stofnunarinnar um náttúru landsins, sem og annarra rannsóknarstofnana, er nauðsynlegur grunnur þess að við getum tekið upplýstar ákvarðanir um verndun og sjálfbær nýtingu á náttúru landsins. Nauðsyn þess að hafa nægar og góðar rannsóknir og reglubundna vöktun á þáttum náttúrunnar komu bersýnilega í ljós í vetur þegar starfshópur um svartfugla skilaði tillögum sínum um aðgerðir til þess að styrkja verndun og endurreisn stofnanna. Burtséð frá því hvaða skoðun menn höfðu á tillögum um aðgerðir til verndar stofnunum var bent á nauðsyn þess að afla ítarlegri og betri þekkingar á þróun stofnanna, ferðum þeirra og dvalarstöðum, fæðu og ástandi fæðutegunda og fæðuframboði, flakki milli landshluta og varpstöðva og hvort um einn stofn væri að ræða við landið. Jafnframt var bent á að kanna þyrfti samspil við afræningja eins og ref og mink.

Það er því augljóst að við þurfum að auka rannsóknir og vöktun þessara stofna og hið sama má í raun segja almennt um flesta þætti náttúrunnar. Þar gegnir Náttúrufræðistofnun Íslands lykilhlutverki. Vöktunaráætlun sem stofnunin hefur unnið að í samvinnu við náttúrustofurnar og fleiri sem að vöktun fugla koma er nauðsynlegur grunnur að því að skipuleggja og tímasetja vöktun fuglastofna. Augljóst er að gera þarf sambærilegar áætlanirfyrir fleiri tegundir dýra og plantna og jafnvel jarðfræðilegra fyrirbæra. Þá er ekki síður nauðsynlegt að setja upp vöktunaráætlanir fyrir friðlýst svæði þannig að við höfum skýra mynd af því hvaða þættir náttúrunnar njóta verndar innan friðlýstra svæða.

Á vegum ráðuneytisins hefur undanfarið ár verið unnið að friðlýsingu plantna og fléttna í samvinnu við Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnum. Þetta er í samræmi við Náttúruverndaráætlun og samþykktir samningsins um líffræðilega fjölbreytni um plötufriðun. Í tengslum við þá vinnu voru settar fram tillögur í litla náttúruverndarfrumvarpinu um breytingu á náttúruverndarlögum til þess að styrkja friðun tegunda plantna og dýra. Í kjölfar friðlýsingar fær Náttúrufræðistofnun það hlutverk að vakta tegundirnar og vaxtarstaði þeirra og „skal upplýsa Umhverfisstofnun verði vart við aðsteðjandi hættu og hugsanlega röskun friðlýstra tegunda eða vaxtarstaða þeirra“. Þannig getur Umhverfisstofnun brugðist við til þess að koma í veg fyrir röskun þeirra.

Jafnframt verður kveðið á um að gerðar verði verndaráætlanir fyrir friðlýstar tegundir sem stofnunin mun koma að ásamt Umhverfisstofnun.

Það er eðlileg krafa að við getum sagt til um það hvaða árangri friðlýst svæði skila í verndun líffræðilegrar fjölbreytni og náttúru landsins. Það er því mikilvægt að rannsóknir og vöktun á ástandi og þróun náttúru firðlýstra svæða verði sinnt af krafti á næstu árum. Þetta er liður í því að meta þörf á nýjum friðlýsingum og hvaða svæði eru mikilvægust til að alla nauðsynlega þætti náttúrunnar sé að finna í neti friðlýstra svæða. Það má ekki skilja þetta svo að náttúra utan friðlýstra svæða verði undanskilin í rannsóknum og vöktun - vissulega skiptir öll náttúra landsins máli og þjónar viðhaldi á líffræðilegri fjölbreytni landsins.

Náttúruverndaráætlun er okkar stefnumótun fyrir verndun náttúrunnar og eitt af mikilvægustu tækjunum í framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni og verndun náttúrunnar. Búið er að friðlýsa Hálsa í Berufriði, hluta af Skerjafjarðarsvæðinu og svæðin umhverfis Langasjó og Lakagíga sem hluta af Vatnajökulsþjóðgarði.

Vinna við nokkur svæði er hafin og komin áleiðis meðan vinna við önnur svæði hefur verið í biðstöðu. Á sama tíma hefur náðst samstaða og samkomulag við nokkra landeigendur í Mývatnssveit um nýjar friðlýsingar á svæðinu sem friðun var létt af með nýjum lögum um Mývatns og Laxársvæði árið 2004 auk þess sem nokkur svæði, s.s. Kalmannshellir, hafa verið friðlýst sem ekki hafa verið á friðlýsingaráætlunum. Við viljum gjarnan gera betur og það, að ekki miði hraðar, leiðir óneitanlega hugann að því hvort núverandi friðlýsingaferli sé gengið sér til húðar og hvort ekki sé þörf sé á breytingum. Í hvítbókinni um náttúruverndarlögin er ítarlega fjallað um undirbúning og framkvæmd friðlýsinga og gerðar tillögur um breytt fyrirkomulag.

Nú, þegar unnið er að tillögum um breytingar á lögum um náttúruvernd er mikils virði að hafa fagstofnanir á borð við Náttúrufræðistofnun Íslands og fleiri sem tengjast náttúruvernd, sem geta vegið og metið kosti og tillögur um nýjar leiðir í friðlýsingum og verndun náttúrunnar.

Þá er rétt að nefna rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða, sem ætti að líta dagsins ljós á næstu dögum. Við vinnu áætlunarinnar var mikið sótt í brunn Náttúrufræðistofnunar, enda býr hún yfir staðgóðri þekkingu á náttúru landsins. Rammaáætlun er stórmerkilegt tæki, mikilvæg tilraun til að vega saman ólík sjónarmið til náttúrunnar, svo sátt skapist um endanlega ákvörðun um nýtingu og vernd svæða. Með henni erum við að stíga stórt skref í þá átt að skapa náttúru Íslands þann sess sem henni ber – skref sem hefði raunar mátt stíga fyrir mörgum áratugum.

Góðir gestir,

Á tímum Benedikts Gröndal var mikil þróun í því hvernig maðurinn leit á náttúruna, heilu hugmyndakerfin á fleygiferð. Upplýsingastefnan hafði látið mönnum í té áður óþekkt vísindi til að flokka og greina – og alveg eins og „Landslag yrði lítils virði ef það héti ekki neitt,“ þá óx náttúrunni strax fiskur um hrygg með því eignast nöfn og komast í kerfi. Eitthvað vantaði í þessa vísindahyggju, þannig að þurfti að jafna aðeins út með rómantíkinni, þannig að rými væri fyrir andakt náttúrunnar – aflið og fegurðina sem við þekkjum svo ósköp vel. Þessa tvo þræði fléttaði Benedikt vel saman – og af því sem ég hef kynnst starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar, þá eru virðingin fyrir vísindunum og náttúrunni alltaf tengd órofaböndum. Mættu margir taka sér það til fyrirmyndar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta