Hoppa yfir valmynd
11.04.2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein umhverfisráðherra Norðurlandanna í Fréttablaðinu - Norðurskautið þarf á skyndihjálp að halda

 

Norrænu umhverfisráðherrarnir skrifuðu eftirfarandi grein í kjölfar fundar þeirra á Svalbarða í lok mars 2012. Greinin fjallar um bráðnun íssins á Norðurskautinu og aðgerðir til að sporna við henni og birtist í Fréttablaðinu 4. apríl 2012.

 

Norðurskautið þarf á skyndihjálp að halda til að draga úr losun sóts og metans

 

Ísinn á Norðurskautinu bráðnar hratt. Meginástæðan er aukin losun gróðurhúsalofttegunda, fyrst og fremst koldíoxíðs, sem veldur hlýnun lofts og hafs. Áhrif sóts á bráðnun íssins eru ekki eins þekkt. Þó líftími sóts í andrúmsloftinu sé stuttur hefur það engu að síður áhrif á loftslagið.

Hafísinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir vistkerfi á Norðurskauti. Hann er undirstaða lífsafkomu fjölda lífvera, þar á meðal sela og hvítabjarna. Kælandi áhrif íssins eru einnig mikilvæg fyrir loftslagið. Bráðnun íss á Norðurskautinu magnar því hlýnun jarðar. Hlýnuninni fylgir óstöðugt loftslag, ekki bara á Norðurskautinu, heldur víðsvegar á norðurhveli jarðar.

Ef sporna á gegn hlýnun jarðar og bráðnun jökla er mikilvægt að draga verulega úr losun  gróðurhúsalofttegunda á borð við koldíoxíð. En óháð því hve mikið við drögum úr losun þessara lofttegunda mun áhrifanna ekki gæta að fullu fyrr en eftir u.þ.b. 100 ár vegna tregðu í sjálfu loftslagskerfinu. Sú tregða stafar af því hve langur líftími þessara lofttegunda er í andrúmsloftinu.

Ef tefja á hraða bráðnun íss á Norðurskautinu er þörf á skyndihjálp þannig að áhrifa gæti fljótt. Á fundi okkar, norrænu umhverfisráðherranna,  á Svalbarða í síðustu viku sem og við ýmis önnur tækifæri, á alþjóðavettvangi, í svæðisbundnu samstarfi og heima fyrir, höfum við tekið ákvarðanir um aðgerðir  í því skyni að draga úr losun svifryks og lofttegunda eins og t.d. sóts, metans og ósons við yfirborð jarðar. Þrátt fyrir stuttan líftíma þessara efna í andrúmsloftinu hafa þau áhrif á hlýnun loftslags. Þessar aðgerðir koma til viðbótar við aðgerðir gegn losun koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda sem hafa lengri líftíma.

Þess er vænst að settar verði alþjóðlegar reglur um losun skammlífra loftslagsspilla eins og sóts, metans og ósons. Meðan beðið er eftir slíkum reglum er mikilvægt að hraða vinnu við að draga úr losun þeirra. Leggja þarf áherslu á aðgerðir bæði í iðnríkjum og þróunarríkjum því áhrifa þessara efna gætir nú þegar á loftslag og heilsufar fólks. Á grundvelli náins samstarfs okkar og sameiginlegs gildismats náðum við á fundinum á Svalbarða samstöðu um að efla aðgerðir til að draga úr losun skammvinnra loftslagsspilla á heimaslóð.

Við ákváðum einnig að hvetja til nánara samstarfs á alþjóðavettvangi um metnaðarfyllri reglur um losun skammvinnra loftslagsspilla. Með samstarfi um betri reglur og frekari aðgerðir á svæðinu geta Norðurlönd beitt sér til áhrifa varðandi þetta mál á alþjóðavettvangi.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra Íslands, Ida Auken, umhverfisráðherra Danmerkur, Martin Lidegaard, loftslagsráðherra Danmerkur, Ville Niinistö, umhverfisráðherra Finnlands, Kári Páll Højgaard, innanríkisráðherra Færeyja, Bård Vegar Solhjell, umhverfisverndarráðherra Noregs, Lena Ek, umhverfisráðherra Svíþjóðar og Carina Aaltonen, umhverfisráðherra Álandseyja.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta