Hoppa yfir valmynd
15.05.2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein umhverfisráðherra í Morgunblaðinu - Ábyrgar veiðar og vernd

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um ábyrgar veiðar og vernd birtist í Morgunblaðinu 15. maí 2012.

Ábyrgar veiðar og vernd

Ilmandi rjúpa á aðfangadag, reyktur lundi á þjóðhátíð, hreindýrasteik til hátíðarbrigða. Fyrr á öldum voru nytjar á villtum dýrastofnum landsins eitt af því sem gerði fólki kleift að draga fram lífið í harðbýlu landi. Nú eru þessar veiðar mikilvægur hluti af matarmenningu Íslands. Forsenda þess að svo megi vera áfram er að við berum gæfu til að skipuleggja veiðar og aðra nýtingu villtra dýra þannig að viðgangur stofnanna sé tryggður. Þetta er markmið svokallaðra villidýralaga.

Samkvæmt lögum er almenna reglan sú að villt dýr eru friðuð, en umhverfisráðherra getur með reglugerð leyft veiðar á vissum tegundum. Þar er jafnframt kveðið á um að allar fuglaveiðar til nytja skuli vera sjálfbærar. Ljóst er að veiðar úr stofnum þar sem langvarandi fækkun á sér stað geta aukið á vandann og ber að draga úr eða hætta veiðum á meðan það ástand varir, svo veiðarnar geti talist sjálfbærar. Á undanförnum árum hefur verið gripið til aðgerða vegna fækkunar rjúpu með mikilli fækkun veiðidaga, sölubanni og ákalli til veiðimanna um að gæta hófsemi. Veiðar á blesgæs voru bannaðar 2003 vegna mikillar fækkunar í stofninum.

Þegar gripið er til aðgerða til verndunar dýrastofna skiptir samvinna og samstarf við veiðimenn miklu máli. Þar ber m.a. að þakka forystuhlutverk Skotveiðifélags Íslands í þágu ábyrgra veiða og siðbótar meðal skotveiðimanna. Undanfarin misseri hafa talsmenn Skotvís hins vegar æ oftar séð sig knúna til að gagnrýna ákvarðanir umhverfisyfirvalda.

Þessi gagnrýni er að sumu leyti skiljanleg; löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er að ýmsu leyti úrelt og brýn þörf á að endurskoða hana. Sú vinna er í gangi í nefnd á vegum ráðuneytisins. Þá eru upplýsingar um stöðu fugla- og dýrastofna oft af skornum skammti, víða skortir þekkingu á áhrifavöldum í afkomu þeirra.

Sérstök staða svartfugla

Vísindamenn hafa um nokkurt skeið haft áhyggjur af fækkun í tilteknum stofnum sjófugla og viðkomubresti hjá þeim.  Mælingar sýna viðvarandi fækkun undanfarin ár og vísbendingar eru um hraða niðursveiflu nú um stundir . Sl. haust skipaði ég starfshóp í því skyni að leita leiða til að snúa þessari neikvæðu þróun við og stuðla þannig að verndun og endurreisn þeirra.

Orsakir fækkunar og viðkomubrests sjófugla virðast að mestu leyti vera fæðuskortur, en fuglarnir lifa einkum á sandsíli og loðnu. Hrun varð í sandsílastofninum árið 2000 og hefur hann ekki náð sér á strik síðan. Loðnustofninn hefur verið í lægð sl. áratug og breytingar hafa verið á göngumynstri loðnunnar. Breytingar í umhverfi sjávar, m.a. vegna hnattrænnar hlýnunar, hafa haft líka áhrif á stofna og göngur þessara fisktegunda. Þá getur samkeppni um fæðu spilað inn í, en fiskar og önnur sjódýr sækja í margar sömu tegundir og svartfuglarnir.

Vernd

Flest bendir til þess að við núverandi ástand sé nýliðun í svartfuglastofnum ekki nægjanleg til að vega upp á móti afföllum vegna veiða. Slíkt er skv. villidýralögum forsenda þess að ráðherra geti leyft veiðar. Flestum virðist ljóst að til einhverra aðgerða þarf að grípa  og þótt veiðar á sjófuglum séu ekki taldar hafa megináhrif á fækkun í stofnum þeirra,  eru veiðar sá þáttur sem stjórnvöld geta mest haft áhrif á til að milda áfallið.

Í skýrslu fyrrnefnds starfshóps er lagt til að efla vöktun og rannsóknir, svo upplýsingar um stöðu stofnanna verði betri og að auka samstarf við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið til að meta betur heildarmyndina. Þá eru lagðar til ýmsar verndaraðgerðir – ýmist tímabundnar eða til langframa.

Á grundvelli skýrslunnar hefur umhverfisráðuneytið gripið til tveggja aðgerða til að bregðast við bágri stöðu svartfuglastofnanna. Annars vegar liggur fyrir Alþingi frumvarp um breytingar á ákvæðum villidýralaga um nýtingu hlunninda, svo stjórnvöld geti gripið til aðgerða til að tryggja viðkomu tiltekinna stofna, ef ástand þeirra krefst þess. Hins vegar var veiðitímabil svartfugls stytt um 15 daga nú í vor, til að tryggja varpfugli betra næði til að koma sér fyrir á varpstað.

Næstu skref

Umræðan sem hefur skapast í í kjölfar skýrslunnar er af hinu góða. Fjölmargir hafa komið að henni - vísindamenn, hagsmunaaðilar, bændur og veiðimenn. Margþættar skoðanir hafa verið á lofti og best væri auðvitað ef niðurstaðan  sætti sem flest sjónarmið, þótt sennilega verði ekki á allt kosið í þeim efnum.

Vegna þess hversu mörg erindi og athugasemdir bárust við frumvarpið óskaði ég sérstaklega eftir umsögn utanaðkomandi aðila á þeim. Þær athugasemdir voru einkum frá hlunnindabændum víða um land sem töldu vanda einstakra tegunda fremur staðbundinn en almennan.

Frumvarpið sem lagt var fram snýst um heimild umhverfisráðherra til að banna veiðar en í því felst ekki ákvörðun um bann. Engin slík ákvörðun liggur fyrir. Vöktun verður hinsvegar sett í forgang og ef af banni verður yrðu veiðar leyfðar að nýju þegar stofnar taka að braggast á ný.

Aukin vöktun og rannsóknir  eru forsenda skynsamlegra ákvarðana í þessu efni. Þar þarf einnig að sækja í brunn veiðimanna og hlunnindaréttarhafa, t.d. með því að vinna úr veiðidagbókum og gögnum um hlunnindanytjar í samvinnu við þá sem þau hafa.

Heildstæð stefnumótun í þessum málaflokki er brýn en hún þarf m.a. að taka mið af tillögum nefndar um endurskoðun villidýralaganna og athugasemdum og umræðum um svartfuglafrumvarp. Mikilvægt er að sem víðtækust sátt náist til að tryggja samstarfsvilja allra sem að málinu koma. Loks kemur til greina að skipa nýjan starfshóp til að meta frekari gögn með  fulltrúum allra sem hagmuna eiga að gæta, þannig að til viðbótar þeim fulltrúum sem voru í fyrri starfshópi komi t.d. fulltrúi bjargveiðimanna.

Sátt og saga

Um aldir hefur þjóðin haft sitt lifibrauð af náttúrunni og þeim gæðum sem hún hefur upp á að bjóða. Þekking á lögmálum hennar og samspili við manninn er hluti af sögu og menningu sem ber að varðveita og halda til haga. Þegar ráðum er ráðið og ákvarðanir teknar þarf meðal annars að gæta að þessari sögu.

Samráð við hagsmunaaðila er mikilvægt í þessu efni sem öðrum, en almannavaldinu ber síðan að hafa heildarhagsmuni í huga og láta náttúruna njóta vafans.  Þannig er grunnur góðrar niðurstöðu.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta