Hoppa yfir valmynd
30.05.2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á málþingi um upplýsingagjöf og samráð í umhverfismálum

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á málþingi um upplýsingagjöf og samráð í umhverfismálum sem haldið var 30. maí 2012.

 

Ágætu fundargestir

Stjórnvöld starfa í umboði almennings. Þetta er einföld staðreynd og hornsteinn lýðræðisfyrirkomulagsins – en nokkuð sem vill allt of oft gleymast. Hvort sem við erum þingmenn eða ráðherrar, starfsmenn í ráðuneytum eða stjórnsýslustofnunum – þá er grundvöllur þess starfs sem við sinnum það lýðræðislega umboð sem er endurnýjað í hvert sinn sem þjóðin gengur til Alþingiskosninga.

Það er hins vegar öllum ljóst að þetta samtal á milli stjórnvalda og almennings má ekki liggja niðri þau fjögur ár sem líða á milli kosninga. Til ýmissa aðgerða hefur verið gripið til að efla samtalið – með því til dæmis að setja upplýsingalög og stjórnsýslulög. Árið 1998 komu fulltrúar 40 ríkja saman til fundar í Árósum í Danmörku, þar sem var fjallað um leiðir til að efla samstarf stjórnvalda og almennings í þágu umhverfismála. Afraksturinn var alþjóðasamningur um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sem ber nafn fundarstaðarins og kallast því Árósasamningur.

Til þessa málþings er boðað í framhaldi af því að þann 20. október sl. fullgiltu íslensk stjórnvöld Árósasamninginn – og lauk þar með 13 ára meðgöngu.

Tvo meginþætti Árósasamningsins var búið að lögfesta hér á landi fyrir nokkru, þ.e. réttinn til aðgangs að upplýsingum og rétt almennings til þátttöku í töku ákvarðana. Síðastliðið haust gerðist svo það, að Alþingi samþykkti frumvarp um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og meðfylgjandi breytingar á kæruákvæðum ýmissa laga er snerta umhverfið. Þar með voru allar þrjár stoðir Árósasamningsins í lög leiddar hér á landi og hægt að fullgilda hann í framhaldinu.

Árósasamningurinn er fyrir margar sakir merkilegur. Með honum er í fyrsta sinn viðurkennt í alþjóðasamningi að milli mannréttinda og umhverfis eru órjúfanleg tengsl. Án umhverfis af vissum gæðum getur maðurinn ekki notið grundvallarmannréttinda, þar með talið réttarins til sjálfs lífsins.

Árósasamningurinn byggir meðal annars á 10. meginreglu Ríóyfirlýsingarinnar frá árinu 1992, þar sem viðurkennt er að best fari á því að ákvarðanir er varða umhverfið séu teknar með þátttöku borgaranna. Samningurinn tryggir almenningi rétt til aðgangs að upplýsingum, þátttöku í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

En samningurinn tryggir ekki bara réttindi. Hann leggur einnig áherslu á skyldur okkar allra til að vernda umhverfið. Þetta kemur m.a. skýrt fram í aðfararorðunum þar sem aðilar „viðurkenna rétt sérhvers einstaklings til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hans og að honum beri skylda til, bæði sem einstaklingi og í samvinnu við aðra, að vernda og bæta umhverfið til hagsbóta fyrir núverandi og kom andi kynslóðir“.

Þá viðurkennir Árósasamningurinn mikilvægi frjálsra félagasamtaka. Umhverfisverndarsamtök hafa lengi gegnt mikilvægu hlutverki í umræðu um umhverfismál. Öflug frjáls félagasamtök veita stjórnvöldum mikilvægt aðhald og búa yfir sérþekkingu sem oft er nauðsynleg þegar umhverfismál og ákvarðanir um þau eru annars vegar. Árósasamningurinn undirstrikar þetta og kveður á um að frjáls umhverfisverndar- eða útivistarsamtök skuli ætíð teljast hafa lögvarða hagsmuni - þ.e. að í gegnum slík samtök hafi almenningur opna kæruleið til að skipta sér af ákvörðunum um umhverfi sitt.

Nú þegar Ísland hefur fullgilt Árósasamninginn er tímabært að skoða hvaða áhrif hann hefur á stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Hvað felst í samningnum, hver eru áhrif hans á stjórnsýsluna og ekki síst hvaða skyldur leggur hann á stjórnvöld? Hver eru sjónarmið okkar stofnana varðandi samráð og upplýsingagjöf? Hvernig snýr samningurinn við atvinnulífinu og hverjar eru væntingar umhverfis- og útivistarsamtaka? Um allt þetta verður fjallað á málþinginu hér í dag.

Með Árósasamningnum er viðurkennt hversu mikil áhrif ákvarðanir stjórnvalda í umhverfismálum geta haft á almenning. Því er sérstaklega mikilvægt að halda þessari samræðu lifandi á umhverfissviðinu – og ég vonast til að þetta málþing verði hluti af því. Ég er viss um að umræðan hér í dag verður áhugaverð og að málþingið verði okkur sem vinnum að stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum innblástur. Þá muni það ekki síst nýtast til að efla enn og bæta aðkomu almennings og þar með gæði ákvarðana er varða umhverfið. Árósasamningurinn er tæki almennings til áhrifa og ég er ekki í vafa um að hann muni einnig reynast stjórnsýslunni notadrjúgt tæki í aukinni og bættri umræðu um umhverfismál.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta