Hoppa yfir valmynd
10.07.2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein umhverfisráðherra í Morgunblaðinu - Rangfærslur um bjartan dag

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra birtist í Morgunblaðinu 10. júlí 2012

Rangfærslur um bjartan dag


Í leiðara Morgunblaðsins í gær segir að nú á vordögum hafi Alþingi gerst brotlegt við stjórnarskrá. Þessi fullyrðing leiðarahöfundar er röng.

Leiðarahöfundurinn vísar til álitsgerðar sem Björg Thorarensen og Stefán Már Stefánsson, lagaprófessorar við Háskóla Íslands, unnu fyrir þrjú ráðuneyti. Fjallar lögfræðiálitið um það hvort upptaka í EES-samninginn á reglugerð ESB um skráningarkerfi fyrir losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda væri annmörkum háð með tilliti til ákvæða stjórnarskrárinnar. Segir í leiðaranum að með nýsamþykktum lögum um loftslagsmál hafi þessi reglugerð ESB verið innleidd hér á landi, sem standist að mati prófessorana ekki stjórnarskrá. Eins og fram kemur í aðsendri grein Birgis Ármannssonar á sömu leiðaraopnu er þetta ekki rétt: „Efnisatriði þeirrar reglugerðar eru ekki hluti frumvarpsins […] en munu engu að síður hafa veruleg áhrif á viðskiptakerfið þegar og ef þau verða hluti EES-réttarins.“

Það sem býr að baki orðum Birgis Ármannsonar kom raunar fram í Morgunblaðinu 7. júlí. Lögfræðiálitið snýr að reglugerð ESB sem ekki hefur verið tekin upp í EES-samninginn og í því er lýst hugsanlegri lausn á slíkri upptöku og innleiðingu í íslenskan landsrétt þannig að ákvæða stjórnarskrárinnar sé gætt. Álitið hefur verið afhent Alþingi, en það má einnig nálgast á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Vart þarf að taka fram að stjórnvöld hafa ekki hugsað sér að leggja til nokkrar þær lagabreytingar sem fara í bága við stjórnarskrá Íslands.

Það er býsna vel í lagt að saka Alþingi um að samþykkja lög sem brjóti stjórnarskrá. Þegar litið er til þess að leiðarahöfundur Morgunblaðsins virðist grípa þá fullyrðingu úr lausu lofti – m.a. þar sem staðhæfingin stangast bæði á við fréttir sem Morgunblaðið hefur sjálft flutt og aðsenda grein á sömu opnu og viðkomandi leiðari – þá liggur við að þurfi að spyrja: Les leiðarahöfundur Morgunblaðsins ekki eigið blað?

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta