Hoppa yfir valmynd
23.08.2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á landgræðsludegi í Öræfum

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á landgræðsludegi í Öræfum sem haldinn var 23. ágúst 2012.

Góðir gestir,

Það er ánægja að fá að vera með ykkur hér á þessum landgræðsludegi í hér í Öræfum, þar sem meðal annars er fagnað tuttugu ára afmæli Landgræðslufélags Öræfinga. Hér í sveit eru margar helstu náttúruperlur Íslands og landslag og náttúra óvíða stórbrotnari og fjölbreyttari. Bæjarstaðaskógur er kannski sá staður á landinu sem gefur okkur besta mynd af því hvernig Ísland heilsaði landnámsmönnum, þótt vissulega hafi skógurinn breyst í tímans rás eins og annað.

Maðurinn ruddi skóga og kjarr á hinni nýnumdu eyju, en gerði sér ekki grein fyrir að hér var náttúrufar um margt annars eðlis en í þeim löndum sem menn komu frá. Lausbundinn og viðkvæmur eldfjallajarðvegur varð vindum og vatni víða auðveld bráð þegar skógarþekjan hvarf. Við höfum tapað stærstum hluta þeirra auðlinda sem felast í gróðri og jarðvegi landsins á 1100 ára búsetusögu. Vanþekking og fátækt voru liðsmenn eyðingaraflanna, en um leið og fór að rofa til með upplýsingu og uppbyggingu á Íslandi var vörn snúið í sókn. Saga skipulagðrar landgræðslu á Íslandi er yfir aldarlöng og sýnir hverju þekking og vilji getur áorkað. Byggðum hefur verið bjargað frá framrás sandsins og auðnum breytt í gróið land.

Landeyðing er auðvitað ekki öll af mannavöldum, hér búa voldug náttúruöfl sem veita okkur stundum þung högg. Saga þessa svæðis er skýrt dæmi um það. Hér hét áður Hérað milli sanda, sem virðist hafa verið sérlega blómleg byggð á fyrstu öldum byggðar, með einum 17 guðshúsum að sögn. Svo dundi ógæfan yfir með skelfilegu gosi í hæsta fjalli Íslands árið 1362. Það eyddi nær allri byggðinni tímabundið og síðan hefur sveitin borið hið svipmikla en fremur nöturlega nafn Öræfi. Náttúruöflin minna hér reglulega á sig, með eldgosum, jökulflóðum og sandbyljum, en í dag virðist nafnið Öræfasveit þó nánast vera öfugmæli. Þótt náttúran sé hér stórbrotin og hrikaleg með jökultindum og sandflæmum eru alls staðar merki um gróanda og líf. Gróður er í mikilli framsókn á Skeiðarársandi og þar kann að vaxa upp einn víðáttumesti birkiskógur landsins síðar á öldinni ef svo fer fram sem horfir. Landgræðslufélag Öræfinga hefur unnið að verkefnum sem flýta fyrir þessari þróun og er rétt að þakka fyrir það starf, sem er í þágu bæði náttúrunnar og byggðarinnar og er mannbætandi vinna að auki.

Fyrir nokkrum árum fluttist Landgræðsla ríkisins frá landbúnaðarráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins og kannski voru einhverjir uggandi varðandi þau vistaskipti, þegar svo gróin og gömul stofnun var færð í hendur nýjasta ráðuneytisins í Stjórnarráðinu, sem var rétt komið af unglingsaldri. Ég tel að þetta fyrirkomulag sé eðlilegt og að vel hafi tekist til. Vernd náttúrunnar felst bæði í því að standa vörð um það sem er sérstætt og verðmætt og eins í því að bæta skemmdir sem hafa orðið. Þessi verkefni – vernd og endurheimt – eru til dæmis bæði tilgreind sem mikilvæg verkefni í Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, sem Ísland og flest ríki heims eru aðilar að. Landgræðslan er mikilvæg endurheimtarstofnun og vinnur því að hagsmunum náttúruverndar jafnt sem bænda og annarra sem nytja landið og gróður þess. Landgræðslustarfið er og á að vera náttúruverndarstarf. Vigdís Finnbogadóttir ritaði eitt sinn að þótt við hefðum „lært að meta fegurð nakinna fjalla og úfins hrauns þá er eitthvað í okkur sem andmælir því að kalla þær auðnir fagrar sem mannfólkið skapar sjálft með umstangi sínu.“ Ég vitna hér í þessi orð okkar ástsæla fyrrum forseta, því það er stundum eins og landgræðslu og náttúruvernd sé stillt upp sem andstæðum pólum í umræðunni. Það er rangt, þetta eru tvær hliðar á sama peningi. Vissulega geta komið upp álitamál. Tegundaval og aðferðafræði við uppgræðslu þarf að vanda á hverjum stað eftir aðstæðum. Taka þarf tillit til alþjóðlegra samþykkta og skuldbindinga Íslands. Umræða um lúpínu er til dæmis ein lífseigasta og vinsælasta þrætubók á Íslandi, en ég tel að Landgræðslan hafi staðið sig vel í að koma þeirri umræðu í skynsamlegan farveg. Lúpínan á við á sumum stöðum en öðrum ekki, hún er öflugt tæki til uppgræðslu sem á að nýta með skynsemi og varúð, eins og öll mannanna verk sem hafa áhrif á náttúruna.

Þótt Landgræðslan sé með elstu starfandi stofnunum landsins er hún órög að tileinka sér nýja hugsun og skoða ný verkefni. Endurheimt votlendis er dæmi um slíkt og Hekluskógar annað, en það er samstarfsverkefni Landgræðslunnar og Skógræktar ríkisins, sem miðar að því að efla viðnám gróðurs gegn eyðingu og öskufalli við rætur eins virkasta eldfjalls landsins. Reynslan þar mun áreiðanlega koma að gagni hér í Öræfasveit og víðar, sem búa við viðlíka vá af völdum elds og öskufalls.

Að lokum er rétt að geta þeirrar góðu samvinnu sem á sér stað á milli Landgræðslu ríkisins og vörslumanna lands, meðal annars undir merkjum verkefnisins Bændur græða landið. Það er einlægur vilji bænda og heimamanna á hverjum stað að hlúa að náttúrunni, vernda og græða, þótt auðvitað séu kannski ýmsar skoðanir um aðferðir og forgangsmál hverju sinni. Það er mikilvægt að nýta þann mannauð til að standa vörð um gæði náttúrunnar. Ég þekki vel þann mikla og góða hug sem hér ríkir í garð Vatnajökulsþjóðgarðs og mun gera okkur fært að byggja hann upp sem griðland náttúrunnar og eftirsóttan áfangastað fyrir ferðamenn á heimsvísu.

Félög áhugamanna um landgræðslu og skógrækt eru ekki síður mikilvæg en opinberar stofnanir á sviði uppgræðslu, sem gegna lögbundnum hlutverkum. Ég vil enn og aftur þakka Landgræðslunni og Landgræðslufélagi Öræfinga fyrir að halda þennan viðburð og fyrir að bjóða mér í þetta blómlega Hérað milli sanda og sjá gróandann hér í náttúru og mannlífi.

Takk fyrir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta