Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í Morgunblaðinu - Jafnrétti í raun
Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Morgunblaðinu í dag 30. nóvember 2012.
Sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur hafa mótmælt skipun fulltrúa í Breiðafjarðarnefnd, en frá þessu var greint í Morgunblaðinu í gær. Nefndin er skipuð fjórum körlum og þremur konum, en kvörtun sveitarfélaganna tveggja snýr að því að ég hafi ekki skipað karla á þeirra vegum í nefndina.
Samkvæmt jafnréttislögum ber að hafa tvennt í heiðri þegar kallað er eftir tilnefningum í nefndir á vegum ríkis og sveitarfélaga. Annars vegar að tilnefningaraðili leggi fram nöfn tveggja hæfra aðila fyrir hvert það sæti sem óskað er tilnefningar í, eins karls og einnar konu. Hins vegar að skipunaraðili - í þessu tilviki ráðherra - velji úr tilnefningum þannig að kynjaskipting sé sem jöfnust.
Þessar leikreglur eru nokkuð einfaldar, en engu að síður reynist oft erfitt að fylgja þeim eftir. Það er miður, því þetta eru gríðarlega mikilvægar leikreglur. Þeim er ætlað að rétta af kynjahalla sem gegnsýrir samfélagið, þá aldagömlu hefð að samfélagið er mótað og því stýrt á forsendum karla.
Sveitarfélögin tvö uppfylltu skyldur sínar þegar þau tilnefndu eina konu og einn karl hvort. Ákvæði jafnréttislaga eru þar með þó ekki uppfyllt. Tryggja ber að kynjahlutfall sé sem jafnast við endanlega skipun viðkomandi nefndar. Þar tók ég ákvörðun sem byggðist meðal annars á þeim skilningi að tilnefningaraðilar litu á báða tilnefnda aðila sem verðuga fulltrúa í nefndinni og óhætt væri að fylgja jafnréttislögum og tryggja sem jafnast kynjahlutfall.
Ég vænti þess að eiga gott samstarf við sveitarfélögin við Breiðafjörð hér eftir sem hingað til og óska nýskipaðri nefnd gæfu í sínum störfum í þágu einstakrar náttúru Breiðafjarðar.