Hoppa yfir valmynd
17.12.2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í Fréttablaðinu - Varnarsigur í Doha

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 13. desember 2012.

Varnarsigur í Doha

Árleg þing loftslagssamnings SÞ eru viðamiklar samkomur, enda er verkefnið tröllaukið. Ríki heims taka þar ákvarðanir um bókhald yfir losun, loftslagsvæna tækni og hvernig hægt sé að aðstoða ríki sem verst standa vegna breytinga á loftslagi og lífsskilyrðum. Umfram allt er rætt um leiðir til að ráðast að rót vandans og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Kýótó-bókunin, sem setur töluleg markmið fyrir nær 40 auðug ríki, átti að vera fyrsta skrefið til að koma á bindandi losunarskuldbindingum á heimsvísu. Nú stefnir hins vegar í öfuga átt. Ríkjum með skuldbindingar fer fækkandi, en fjölgar ekki eins og að var stefnt.

Á nýloknum fundi í Doha í Katar var samþykkt að Kýótó-bókunin yrði framlengd um annað tímabil, frá 2013 til 2020, en því fyrsta lýkur nú á gamlársdag. Eingöngu Evrópuríki taka á sig skuldbindingar á nýju tímabili, ásamt Ástralíu, en ríki með 85% heimslosunar verða án alþjóðlega bindandi losunarmarkmiða. Vonir eru bundnar við nýjar samningaviðræður um losunarmarkmið fyrir öll ríki, sem til stendur að ljúka árið 2015, þótt markmiðin sjálf eigi ekki að taka gildi fyrr en 2020.

Þótt viðræður gangi hægt er mikilvægt að ríki heims haldi áfram að vinna saman undir regnhlíf loftslagssamningsins. Í Kýótó-bókuninni hefur bókhaldið verið þróað lengst. Þar eru gefnar út losunarheimildir og settar reglur sem eiga að gera ríkjum kleift að ná árangri á hagkvæman hátt. Þótt kvarnast hafi úr Kýótó-hópnum í Doha var líf hans framlengt. Það er mikilvægt að einhver ríki standi vaktina og þrói og efli kerfi til að draga úr losun, sem getur gagnast í víðtækara samkomulagi síðar. Ísland má vera stolt af því að vera í þeim hópi ríkja sem mest leggja af mörkum varðandi skuldbindingar og leiðir að lausnum.

Þótt horfurnar í loftslagsmálum séu fjarri því að vera bjartar, þá vannst mikilvægur varnarsigur í Doha. Nú þarf að snúa vörn í sókn og takast af krafti á við þessa stærstu áskorun samtímans svo að unnt sé að hlúa að forsendum lífs og velsældar á jörðinni fyrir núlifandi og komandi kynslóðir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta