Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í Bændablaðinu - Refaveiðar í sátt
Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Bændablaðinu 10. janúar 2013.
Refaveiðar í sátt
Stjórnvöld hafa ákveðið að árið 2013 verði lagðar 30 milljónir króna til refaveiða. Í kjölfar efnahagshrunsins voru slíkar greiðslur úr ríkissjóði felldar niður, en nú liggur fyrir ákvörðun Alþingis um að fjármunir verði lagðir til málefnisins að nýju. Ráðstöfun fjárins er í höndum Umhverfisstofnunar sem gerir samninga við sveitarfélög til þriggja ára í senn um endurgreiðslur vegna refaveiða. Þessir samningar byggja á áætlun sveitarfélaganna um framkvæmd veiðanna.
Um er að ræða verulega opinbera fjármuni sem mikilvægt er að ráðstafað verði á markvissan hátt.
Refurinn er eina upprunalega landspendýrið í Íslandi. Hann er talinn hafa numið hér land á síðustu ísöld, löngu áður en menn settust að í landinu. Önnur landspendýr hafa borist hingað síðar af mannavöldum, viljandi eða óviljandi. Refurinn er því einstakur og órjúfanlega tengdur íslenskri náttúru. Í stærra samhengi er íslenski refurinn jafnframt sérstakur vegna langvarandi einangrunar frá öðrum refastofnum.
Talið er að refir hafi verið veiddir frá upphafi byggðar í landinu og eru sérstök ákvæði um veiðar á þeim bæði í Grágás og Jónsbók. Þar kemur fram að refurinn var veiddur vegna skaða sem hann olli í landbúnaði en einnig til að ná í feldinn. Allt fram á síðustu öld voru refir fyrst og fremst veiddir vegna hagsmuna sauðfjárræktar, en með breyttum búskaparháttum hefur dregið mikið úr tjóni á búfé af völdum refa. Refir hafa einnig mikil áhrif á æðarfugl og geta valdið tjóni í æðarvörpum. Áhrifin geta þó bæði verið til góðs og ills á nýtingu æðardúns því æðarfugl bregst jafnan við refum með því að þétta varp sitt á stöðum þar sem hann kemst síður að sem getur auðveldað söfnun dúns. Refir geta þó vissulega einnig valdið fjárhagslegum skaða ef þeir komast í æðarvörp.
Refir hafa verið hér um þúsundir ára og fuglalífið því þróast og aðlagast sambýlinu við hann og hann því. Refir hafa því að öllum líkindum haft mótandi áhrif á fuglalíf í landinu. Þau áhrif þurfa ekki að hafa verið slæm, enda eru rándýr víða mikilvæg fyrir viðhald vistkerfa og líffræðilega fjölbreytni. Við ákveðnar manngerðar aðstæður getur stofn rándýrs þó orðið stærri en þau mörk sem náttúran myndi setja honum og getur þá verið nauðsynlegt að grípa til aðgerða til verndunar lífríkisins.
Allnokkur sjónarmið þarf að yfirvega við ákvarðanir um veiðar á ref og ráðstöfun fjár til þess, þ.e. hagsmunir sauðfjárræktar, æðarræktar og náttúruverndar. Skipulag veiðanna þarf að hafa þessi sjónarmið að leiðarljósi, vega þau og meta, og beina aðgerðum til þeirra svæða sem við á.
Einstakar og mikilvægar rannsóknir Páls Hersteinssonar prófessors á íslenska refnum eru vonandi komnar í farsælan framtíðarfarveg eftir sviplegt fráfall hans. Stefnt er að því að fjármunir til að halda áfram refarannsóknum hans og gagnasöfnun færist til Náttúrufræðistofnunar Íslands og Melrakkasetursins á Súðavík. Nauðsynlegt er að halda áfram rannsóknum og uppbyggingu þekkingar á vistfræði refastofnsins í landinu til að skilja sem best bæði ástand hans og áhrif. Traustar rannsóknir eru undirstaða markvissrar stjórnunar veiða.
Mikilvægt er að þetta tækifæri verði notað til að bæta fyrirkomulag og samræma markmið refaveiða. Samningar sem verða gerðir við sveitarfélög um veiðarnar verða ágætur vettvangur til að ná þeirri samræmingu. Þar á að leggja fram skýra áætlun sveitarfélagsins um hvernig veiðunum er ætlað að lágmarka tjónið sem refurinn veldur í umdæmi sveitarfélagsins.
Ég vænti þess að fyrirkomulag refaveiða verði með þessu móti sett í skynsamlegan farveg í góðu samstarfi bænda, sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar.