Hoppa yfir valmynd
01.02.2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í Fréttablaðinu - Betra skipulag

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfis og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 1. febrúar 2013.

Betra skipulag

Skipulagsmál eru mikilvægur málaflokkur sem hefur mikla þýðingu fyrir lífsgæði almennings. Ákvarðanir um skipulag fela í sér ákvarðanir um framtíðarnotkun lands, hvernig byggð og landnotkun eigi að þróast til langs tíma, hvernig umhverfi íbúanna eigi að vera og hvernig það samfélag sem á að byggja upp muni líta út.

Haustið 2010 samþykkti Alþingi ný skipulagslög og nú í vikunni tók gildi skipulagsreglugerð á grundvelli nýrra laga. Framsetning á reglugerðinni er einfaldari og skýrari en þeirri sem hún leysir af hólmi, auk þess sem nokkur nýmæli eru í reglugerðinni. Hér nefni ég fjögur slík dæmi, sem sýna ágætlega hvernig skipulag getur mótað samfélag til hins betra.

Í fyrsta lagi er aukin áhersla á að sjónarmið almennings komi fram við gerð skipulagsáætlana og eins snemma í ferlinu og unnt er. Þetta er í samræmi við aukna aðkomu almennings að stefnmótun og endurspeglar hversu miklu ákvarðanir um skipulagsmál varða almenning.
Í öðru lagi eru skilgreindir fleiri landnotkunarflokkar en áður. Þannig er nú hægt að skilgreina varúðarsvæði umhverfis starfsemi sem getur haft skaðleg áhrif á heilsu og öryggi manna. Þá hafa strandsvæði verið sérstaklega skilgreind m.a. til að gera sveitarfélögum hægara um vik að vernda strandlengjuna og bæta aðgengi almennings að henni.

Í þriðja lagi eru felldar út lágmarkskröfur um fjölda bílastæða. Sveitarfélög geta komið bílastæðakröfum þannig fyrir í aðalskipulagi að svigrúm sé veitt til þéttingar byggðar, sem leiðir hvort tveggja í senn til sjálfbærari landnotkunar og eflingar almenningssamgangna.

Í fjórða lagi er hverfisskipulag skilgreint í reglugerðinni, sem tegund deiliskipulags fyrir hverfi sem þegar hafa verið byggð. Með því má greina hver séu helstu gæði viðkomandi hverfis, hvað helst eigi að varðveita af yfirbragði þess og hverju megi breyta. Slík skipulagsvinna á eflaust erindi í fjölda hverfa, enda stór hluti þéttbýlis kominn á þann aldur að þar sé ástæða til að varðveita byggingarsöguna.

Fleira mætti telja til, en meginefnið er það, að með nýrri reglugerð er lögð áhersla á betra vinnulag við skipulagsgerð. Miklu skiptir að takist vel við skipulag, enda er þar lagður grunnur að umhverfi komandi kynslóða.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta