Hoppa yfir valmynd
02.02.2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í Morgunblaðinu - Vernd og vegir

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar 2013.

 

Vernd og vegir

Tilgangur náttúruverndarlaga er í grófum dráttum tvíþættur; að vernda náttúruna og að auðvelda umgengni almennings um hana. Stundum togast þessi sjónarmið á, en til lengri tíma litið þá eru sameiginlegir hagsmunir að viðhalda þeirri miklu náttúrufegurð sem Ísland býr yfir og gera sem flestum kleift að njóta hennar án þess að á hana sé gengið.

Langur aðdragandi og dýrmætt samtal

Frumvarp til laga um náttúruvernd er afrakstur vinnu sem hefur staðið stóran hluta þessa kjörtímabils. Í nóvember 2009 skipaði ég nefnd um endurskoðunina sem skilaði tveimur árum síðar af sér hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Slíkar bækur eru gjarnan undanfari lagasetningar í nágrannaríkjunum, en teljast nýmæli hér á landi. Á grundvelli hvítbókar var boðið til umræðu á umhverfisþingi haustið 2011, á kynningarfundum víða um land og kallað eftir athugasemdum á vef ráðuneytisins.

Með allt þetta dýrmæta efni í farteskinu vann ráðuneytið drög að frumvarpi til náttúruverndarlaga sem síðan fóru aftur í opið umsagnarferli síðastliðið sumar. Farið var yfir ábendingar og athugasemdir sem bárust sem margar urðu til þess að skerpa á ákveðnum atriðum frumvarpsins og bæta það.

Að þessu þriggja ára ferli loknu mælti ég loks fyrir frumvarpi til laga um náttúruvernd nú í janúar. Ég vænti þess að frumvarpið styrkist enn frekar í þinglegri meðferð, um það verði breið sátt og ný náttúruverndarlög öðlist gildi fyrir þinglok.

Hljóð úr horni

Undanfarna daga hefur borið á háværri gagnrýni á afmarkaðan hluta náttúruverndarfrumvarpsins, gagnrýni sem snýr að rétti fólks til að ferðast um hálendi landsins. Gagnrýnin snýr að því að skýrt þurfi að vera hvar megi og megi ekki aka um óbyggðir landsins, svo náttúran beri ekki skaða af. Þar ber sérstaklega að nefna ákvæði um kortagrunn yfir vegslóða á hálendinu og almannarétt.

Hér er mikilvægt að taka fram að náttúruunnendur þurfa ekki að óttast lög um náttúruvernd, þvert á móti eru náttúruverndarlög til að styrkja þeirra málstað. Má þar til dæmis benda á að eitt af markmiðum frumvarpsins er að „tryggja rétt almennings til að fara um landið og njóta náttúrunnar og stuðla þannig að almennri útivist í sátt við náttúruna“.

Skýr rammi gegn utanvegaakstri

Akstur utan vega hefur lengi verið vandamál á Íslandi, enda er náttúran víða viðkvæm fyrir slíkum ágangi. Undanfarin ár hefur markvisst starf farið fram gegn utanvegaakstri og nokkuð áunnist. Munar þar verulega um fræðslu- og samráðsvettvang um utanvegaakstursmál þar sem saman koma fulltrúar hagsmunaaðila, samtaka ferðafólks og opinberir aðilar til að vinna að því að upplýsa og fræða ferðamenn um málið.

Samkvæmt gildandi lögum er akstur utan vega bannaður. Þetta er mikilvægt bann, sem hefur ekki gengið nógu vel að framfylgja. Til að skýrt sé hvar megi aka á hálendinu er lagt til að kortleggja slóða sem forsvaranlegt er að aka, en slíkan grunn mætti þá nýta í leiðsögukerfi bíla sem um hálendið fara. Mikilvægt er að hafa skýrar upplýsingar í höndunum til að geta gengið vel um náttúruna. Þennan kortagrunn hafa samtök ferðfólks stutt dyggilega, meðal annars með mikilli vinnu einstaklinga við að leggja gögn í hann. Náttúran nýtur vafans um leið og ferðamenn þurfa ekki lengur að velkjast í vafa um hvaða leið er óhætt að fara.

Fjölmargar úrbætur fyrir ferðamenn

Rétt er að halda til haga að þrátt fyrir gagnrýni á frumvarp til náttúruverndarlaga virðast flestir sammála því að í frumvarpinu horfi margt til bóta fyrir náttúruvernd og að miklir hagsmunir felist í því að ljúka afgreiðslu þess. Sumar þeirra úrbóta snúa raunar beint að rétti almennings til farar um landið.

Í hvítbók um náttúruvernd var bent á að styrkja þurfi almannarétt í lögum. Almannaréttur á sér langa hefð í íslenskum rétti og vísar til frjálsrar farar almennings um land og vötn, þó ekki á vélknúnum ökutækjum, en um akstur er fjallað í sérstökum kafla frumvarpsins. Í seinni tíð hefur oft borið á því að almannaréttur sé skertur og því er í frumvarpinu m.a. lagt til að opna almenningi leið til að krefjast úrlausnar um hvort hindranir við för um landið séu lögmætar.

Loks er sérstaklega ánægjulegt að nefna ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun geti veitt undanþágur frá banni við akstri vélknúinna ökutækja utan vega sem taki til ákveðins hóps einstaklinga. Þessu er ætlað að mæta þörfum fatlaðs fólks og hreyfihamlaðra og er gert að tillögu starfshóps sem hafði það verkefni að finna leiðir til að hreyfihamlaðir geti notið náttúrunnar í sama mæli og aðrir. Aðgengi fatlaðra að náttúrunni verður með þessu beinlínis aukið, verði frumvarpið að lögum.

Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og þeirra sem um landið fara að tryggja að landgæði erfist til komandi kynslóða. Það er mikilvægt að ná jafnvægi á milli þess að vernda náttúruna og að ferðast um hana sér til yndisauka. Ég treysti því að þorri þeirra sem ferðast um hálendi Íslands geti verið samstiga stjórnvöldum í þeirri viðleitni að vernda og viðhalda náttúru þessa einstaka svæðis. Ný lög um náttúruvernd eru mikilvægt skref í þá átt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta