Ávarp ráðherra við vígslu ofanflóðavarna í Ólafsfirði
Ágætu íbúar Fjallabyggðar og aðrir gestir,
það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur á þessum tímamótum þegar frágangi á ofanflóðavörnum er lokið hér í Ólafsfirði.
Ofanflóð og þá einkum snjóflóð hafa valdið meira manntjóni á Íslandi en nokkrar aðrar náttúruhamfarir. Frá upphafi 20. aldar hafa 196 manns látist í snjóflóðum og skriðuföllum á Íslandi. Eftir hin hörmulegu snjóflóð í Súðavík og á Flateyri árið 1995 þar sem 34 létust ákváðu stjórnvöld að grípa til markvissra aðgerða til að draga úr líkum á að slíkir atburðir mundu endurtaka sig hér á landi. Löggjöfinni var breytt og sveitarfélög sem bjuggu við snjóflóðahættu gert skylt að láta fara fram skipulegt áhættumat á byggðum hættusvæðum og á þeim grunni hefja uppbyggingu snjóflóðavarna.
Markmiðið með byggingu varnarmannvirkja er að tryggja svo sem kostur er öryggi íbúa á hættusvæðum gagnvart snjóflóðum sem og öðrum ofanflóðum. Til þessara aðgerða myndu sveitarfélögin njóta fjárhagsaðstoðar Ofanflóðasjóðs í samræmi við reglur sjóðsins og viðurkennt verklag. Var umhverfisráðuneytinu falið að annast umsjón með framkvæmdinni af hálfu ríkisvaldsins og tók það formlega við verkefninu í ársbyrjun árið 1996. Jafnframt var starf Veðurstofu Íslands að snjóflóðavörnum aukið umtalsvert til að aðstoða við hættumat og vöktun vegna snjóflóða.
Við Íslendingar þekkjum flestum betur hvernig er að búa við náttúruvá. Hér verða reglulega stórir jarðskjálftar, eldsumbrot verða með nokkurra ára millibili og aftakaveður koma hér af og til. Landsmenn hafa aðlagað sig þessum aðstæðum og umfangsmikið rannsóknar- og vöktunarstarf er unnið í því skyni að tryggja hér lífvænleg skilyrði til búsetu. Strax á árinu 1996 ákvað ráðuneytið að efla verulega rannsóknir á eðli snjóflóða og kom á öflugu eftirliti með snjóflóðahættu og gerð rýmingaráætlana, sem styðjast skyldi við. Jafnframt er hægt nú að kortleggja strax aðstæður á hamfara- og vásvæðum eins og á snjóflóðasvæðum til að meta útbreiðslu snjóflóðs.
Þá var unnin yfirgripsmikil úttekt á öllum helstu snjóflóðahættusvæðum í byggð og metnir líklegir varnarkostir á hverjum stað. Í framhaldi af þeirri úttekt var ákveðið í samráði við viðkomandi sveitarfélög að ráðast í byggingu varanlegra snjóflóðavarna og tryggja þannig öryggi fólks í byggð. Um er að ræða stórt verkefni sem mun enn taka nokkur ár að ljúka að fullu, þó nú hafi verulega miðað í mjög auknu öryggi á flestum þeim þéttbýlisstöðum sem talið var að byggju við snjóflóðahættu. Mörg varnarvirki hafa þegar sannað gildi sitt.
Hættusvæði vegna ofanflóða ná til nokkuð stórs hluta byggðarinnar hér í Ólafsfirði en aðeins eitt hús með varanlega búsetu var á hættusvæði C og nú hefur það verið varið. Ítarlegar upplýsingar um ofanflóðasögu Ólafsfjarðar, og þá bæði vegna snjóflóða og skriðufalla, voru lagðar til grundvallar hættumatinu þegar það var unnið. Þessi saga nær allt frá 17. öld og fram til okkar daga og eru atburðirnir misalvarlegir.
Nefna má að árið 2004 féllu smærri flóð úr Tindaöxl ofan Hornbrekku. Í mars 2009 féll 150 metra breitt snjóflóð úr Tindaöxl í miðri hlíð rétt innan við þéttbýlið og í lok apríl á þessu ári féllu mjög stór snjóflóð í Skeggjabrekkudal.
Í dag fögnum við verklokum við varnargarð við Hornbrekku. Þar með lítum við svo á að lokið sé gerð og frágangi ofanflóðavarna hér í Ólafsfirði. Þessar framkvæmdir eru eins og vel sést, hluti af bæjarlandslaginu og því var strax í undirbúningi verksins lögð áhersla á útlit varnanna, uppgræðslu og gerð göngustíga þannig að framkvæmdirnar féllu sem best að umhverfinu og stuðluðu um leið að bættri aðstöðu til útivistar. Það er því von mín að íbúar Ólafsfjarðar og aðrir sem sækja bæinn heim muni njóta vel útivistar á svæðinu.
Aðkoma ráðuneytisins að þessum framkvæmdum hér í Ólafsfirði hefur fyrst og fremst verið í gegnum Ofanflóðasjóð sem styrkir sveitarfélög til framkvæmda á þessu sviði samkvæmt áætlun um uppbyggingu varnarvirkja. Það er mitt mat að framkvæmd þessi hafi tekist afar vel og er hún öllum þeim sem að henni koma til mikils sóma. Vil ég sérstaklega þakka ráðgjöfum, verktökum og eftirlitsaðilum þeirra störf.
Ágætu íbúar Fjallabyggðar, við erum hér í dag saman komin til þess að fagna því að gerð þessara varnarvirkja sé lokið og mannvirkin tilbúin til þess að takast á við það hlutverk sitt að tryggja íbúum Ólafsfjarðar aukið öryggi gagnvart ofanflóðum.
Ég vil því að lokum óska ykkur öllum til hamingju með þessi mannvirki og vona að þau verði Fjallabyggð og íbúum Ólafsfjarðar til farsældar um ókomna tíð.