Hoppa yfir valmynd
11.10.2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ráðstefnu um Grænfánaverkefni Landverndar

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfrandi ávarp á ráðstefnu þátttakenda í skólum á greinni grein - Grænfánaverkefni Landverndar í Hörpu 11. október 2013.

Góðir ráðstefnugestir. 


Í gegn um tíðina hefur þótt nokkuð eftirsóknarvert að vera á grænni grein. Þegar þetta orðtæki ber á góma er vísað til hagsældar viðkomandi, iðulega í formi veraldlegs auðs og gæða, en oft einnig þegar um andlega hamingju eða velgengni er að ræða. Hvað sem líður beinhörðum fjármálum skólanna sem hér eiga fulltrúa þá vitum við að með því að taka þátt í Grænfánaverkefni Landverndar eru þeir á grænni grein því þeir vinna markvisst að því að auðga vitund nemenda sinna um umhverfismál og náttúruna. Það er aftur líklegt til að skila sér í aukinni hagsæld og velgengni samfélagsins í heild.  

En hvers vegna er umhverfisuppeldi svona mikilvægt? Jú – af því að þannig höfum við áhrif á framtíðina, á viðhorf og lífsstíl þeirra sem eiga að erfa landið. Með umhverfisfræðslu og auknum skilningi á því hvernig samspili manns og náttúru er háttað aukast líkurnar á að umgengni okkar um náttúruauðlindir okkar séu með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Þótt fræðslunni sé beint að börnum og ungmennum þá eru áhrifin mun víðtækari; foreldrar grænfánaskólabarna upplifa þannig gjarnan að skyndilega er hafið virkt umhverfisaðhald á heimilið – lágvaxinn eftirlitsaðili sem fylgist grannt með því hvort pappírinn sem flokkaður frá öðru heimilisrusli, hvort ljósin eru látin loga þar sem enginn er að nota þau eða hvort bíllinn sé látinn standa í hægagangi að óþörfu. 

Og þeir eru ófáir umhverfiseftirlitsmennirnir sem runnið hafa undan rifjum skóla á grænni grein. Allt frá því verkefninu var hleypt af stokkunum árið 2001 og fyrstu tólf skólarnir skráðu sig til leiks hefur skólum á grænni grein fjölgað hratt og örugglega. Nú er svo komið að 230 skólar eru þátttakendur í verkefninu. Af þeim flagga tæp 80% Grænfánanum, til vitnis um að skólarnir hafi stigið skrefin sjö til bættrar umhverfisstjórnunar sem eru forsenda viðurkenningarinnar. 

Það væri vissulega fróðlegt að sjá tölfræði yfir fjölda þeirra nemenda sem hafa notið kennslu og uppeldis í skóla á grænni grein en víst er að þeir skipta þúsundum. Það segir sitt um verkefnið að það nær nú til allra skólastiga auk skóla utan hins hefðbundna skólakerfis – skóla á borð við Náttúruskóla Reykjavíkur og Vinnuskólann. Fyrir utan leikskóla og grunnskóla eru tíu framhaldsskólar og þrír skólar á háskólastigi sem taka þátt í verkefninu en eins má nefna að þrír skólar á háskólastigi eru á grænni grein. Grunnskólar og leikskólar sem taka þátt í verkefninu er hins vegar hátt í 200 talsins.  Verkefnið nær því í dag til um helmings leikskóla- og grunnskólanema á landinu auk u.þ.b. þriðjungs framhaldsskólanema. 

Landvernd hefur óskað eftir áframhaldandi fjárhagslegum stuðningi við verkefnið. Í því ljósi er ánægjulegt að geta greint frá því að stefnt er að óbreyttu framlagi á næstu árum til að endurnýja samning umhverfis- og auðlindaráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis við Landvernd um áframhaldandi rekstur verkefnisins. Verður á næstu vikum gengið frá nýjum samningi til þriggja ára um verkefnið.

Góðir gestir. 

Það er gaman að segja frá því að mitt fyrsta opinbera embættisverk, eftir að ég tók við sem umhverfis- og auðlindaráðherra í vor, var að fara í minn gamla skóla, Menntaskólann að Laugarvatni, og afhenda honum Grænfána en nemendur og starfsfólk þar tóku þá við viðurkenningunni í annað sinn. Mér er það því sérstakur heiður að vera beðinn um að koma hingað og ávarpa ráðstefnu Landverndar um Skóla á grænni grein sem hefur yfirskriftina Byggjum á grænum grunni. Það á auðvitað ekki aðeins við um skólana sjálfa heldur verkefnið sjálft. Vil ég hér með nota tækifærið og óska ykkur öllum velfarnaðar í verkefnunum framundan. 

Ég og starfsfólk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hlökkum til að halda áfram því góða samstarfi sem hefur verið um Grænfánaverkefnið. 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta