Hoppa yfir valmynd
08.11.2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Umhverfisþingi 2013

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra setti 8. Umhverfisþing í Hörpu þann 8. nóvember 2013 með eftirfarandi orðum.

 

Ágætu fundargestir,

Áður en ég hef mál mitt hér í dag vil ég skipa sem þingforseta þær Önnu Gunnhildi Sverrisdóttur, ferðamálaráðgjafa og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, menntunarfræðing og bið ég þær um að taka sæti hér við púltið.

Það er mér sérstakur heiður og ánægja að bjóða ykkur velkomin til Umhverfisþings, sem nú er haldið í áttunda sinn. Það er afar ánægjulegt  að sjá þennan stóra og fjölbreytta hóp gesta hér í dag, sem sýnir og sannar mikilvægi umhverfismála í samfélagi okkar og þann áhuga sem á þeim er. Sérstaklega vil ég bjóða velkominn glæsilegan hóp nemenda frá Grenivíkurskóla, sem ætla að hafa framsögu hér á eftir, en það er ekki bara fróðlegt fyrir okkur sem fullorðin eru að heyra hvað unga fólkið hefur til málana að leggja í umhverfismálum, heldur nauðsynlegt – það eru jú þau sem eiga að erfa landið.

Við getum öll hlakkað til að taka þátt í þeirri metnaðarfullu og efnismiklu dagskrá sem hér liggur fyrir. Til umfjöllunar eru ýmis mikilvæg umhverfis- og auðlindamál, sem eru í deiglunni og miklu skipta fyrir sjálfbæra þróun og aukna hagsæld og velferð í landinu.

Umhverfisþing eru haldin til skiptis um málefnin náttúruvernd og sjálfbæra þróun. Þessi þing eru mikilvægur vettvangur og stefnumót fólks úr ýmsum áttum sem lætur sig þessi mál varða, vettvangur umræðu og skoðanaskipta sem jafnframt nýtist stjórnvöldum til stefnumörkunar og ákvarðanatöku til framtíðar.

Nú í ár er sjálfbær þróun viðfangsefni Umhverfisþings – það er, hvernig er hægt að samræma umhverfislega, félagslega og efnahagslega þætti þannig að þróun og velferð í samtíma okkar dragi ekki úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta sínum eigin þörfum.

Leiðin til sjálfbærrar þróunar er ekki auðveld, auðrötuð eða fyrirhafnarlaus, hvorki fyrir okkur né önnur lönd og samfélög. Því er mikilvægt að nota tækifærið á svo fjölmennu Umhverfisþingi til að staldra við mikilvæg viðfangsefni og fara sameiginlega yfir hvað við vitum; hvar við stöndum; hvar tækifæri liggja; hvað ber að varast og treysta þannig grundvöll aukinnar hagsældar samfélags okkar á sjálfbærum grunni.

Góðir gestir;

Ég vil nýta þetta tækifæri til að kynna metnaðarfullt formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014. Það fellur afar vel að áherslum Umhverfisþingsins í ár og hverfist í raun um sjálfbæra þróun. Meginverkefni Íslands á formennskuárinu fjallar um lífhagkerfið og er það samstarfsverefni þriggja ráðuneyta, umhverfis – og auðlinda, atvinnuvega- og nýsköpunar og mennta og menningarmála.

Lífhagkerfið er stórt regnhlífarverkefni, sem mun rúma fjölda afmarkaðra verkefna sem öll eiga að stuðla að sjálfbærri þróun á Norðurlöndum. Í hnotskurn má segja að verkefnið fjalli um hvernig megi bæta nýtingu lífrænna auðlinda á Norðurlöndum, tryggja sjálfbærni nýtingarinnar og þjónustu vistkerfa, draga úr sóun og álagi, minnka og fullnýta lífrænan úrgang, stuðla að orkuskiptum og jafnframt leita leiða til að skapa ný verðmæti. Jafnframt mun mennta og nýsköpunarverkefnið Biophilia sem Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður hefur skapað, verða hluti af þessu samstarfsverkefni. Þetta er mjög spennandi upplegg sem hefur fengið góðar viðtökur í allri kynningu.

Ég hef miklar væntingar til þessa verkefnis og þess breiða samstarfs sem það byggir á milli atvinnulífs, stofnana og ráðuneyta. Þarna munu skapast fjölmörg spennandi tækifæri til að stuðla að sjálfbærri þróun, en gert er ráð fyrir að framlagt norrænu ráðherranefndarinnar til verkefnisins verði að lágmarki 10 milljónir danskra króna árlega í þrjú ár.   

Í þessu sambandi og nátengt efni verkefnisins um lífhagkerfið má einnig nefna að Selina Juul frá dönsku neytendahreyfingunni „Stop Spild Af Mad“ hlaut Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í ár. Að mati dómnefndar verðlaunanna hefur hún með sjálfboðastarfi sínu lagt baráttunni gegn sóun á matvælum ómetanlegt lið. Þar er mikið verk að vinna. 

Ágætu gestir,

Það er auðvelt að rökstyðja að náttúra landsins og auðlindir hennar sé einhver verðmætasta eign okkar og fjöregg.

Við búum við það lán að náttúra landsins býr yfir ríkulegum auðlindum, sem við verðum að nýta af skynsemi ef takast á að tryggja velferð og hagsæld í landinu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Okkur hefur tekist að nýta margar auðlindir okkar á sjálfbæran hátt og búum nú yfir mikilli þekkingu og getu á sviði umhverfisstjórnunar og auðlindanýtingar.

Við höfum í aldanna rás stundað fiskveiðar, skotveiðar og gras er hirt af engjum. Allt finnst okkur þetta eðlilegir hlutir, svo fremi að nýtingu á viðkomandi auðlindum sé stýrt á sjálfbæran hátt og ekki sé gengið á viðkomandi stofna eða vistkerfi. Við höfum líka verndað ýmislegt og nú er um fimmtungur landsins friðlýstur.  

Auðlindir og auðlindamál snúast um grundvöll velferðar okkar, enda er staðreyndin sú að um og yfir 80% útflutningstekna okkar koma frá nýtingu sjávarauðlinda, orkuauðlinda eða sérstæðrar náttúru í ferðaþjónustu.

Fyrir fámenna þjóð eins og okkur sem svo er háð innflutningi á öllum sköpuðum hlutum, skiptir öllu að eiga öflugar atvinnugreinar sem byggja á sjálfbærni og geta skilað okkur tekjum á móti. Og í því sambandi er hægt að vitna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir „fyrir okkur Íslendinga skiptir miklu máli að við nýtum náttúruauðlindir okkar á skynsamlegan og sjálfbæran hátt hvort sem það eru hinar lifandi auðlindir sjávar, endurnýjanlegar orkulindir eða sérstæð náttúrufyrirbæri sem laða að ferðamenn“.

En til að þessir atvinnuvegir geti blómstrað verður að tryggja að auðlindirnar sem þeir nýta séu í lagi, að þjónusta vistkerfanna sé í góðu ástandi og við höfum rannsóknir, vöktun og skipulag til staðar til að undirbyggja ákvarðanatöku.

Sjálfbær nýting auðlinda er eitt helsta viðfangsefni þessa Umhverfisþings, sem skipulagt er í kringum tvö viðfangsefni sem tengjast vernd og nýtingu, annars vegar hafs og stranda og hins vegar lands.

Jafnframt má segja að skipulagsmál umlyki alla þessa umræðu. Skipulag er mikilvægt stjórntæki til að samræma ólíkar kröfur og sjónarmið, meðal annars um auðlindanýtingu, atvinnuþróun og umhverfisvernd.  Í skipulagsferlum getur almenningur og þeir sem eiga hagsmuna að gæta komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Skipulagsmál eru orðin stór málaflokkur og skipta okkur enn meira máli en áður. Því er mikilvægt að vanda til verka þegar skipulagt er til framtíðar og gæta víðtæks samráðs. Skipulagsmál eru unnin í mikilvægu samstarfi ríkis og sveitarfélaga og þarf sífellt að þróa og efla.  Jafnframt er stór hluti lands í einkaeigu og sú staðreynd er grundvallaratriði í allir umræðu um skipulag landnotkunar.

Góðir gestir;

Í ljóði Jóns Magnússonar segir að Föðurland vort hálft sé hafið.

Þetta er ágæt myndlíking fyrir umfjöllunarefni okkar í dag. Því við ætlum hér að beina sjónum að báðum helmingum Föðurlandsins; að málefnum þess helmings sem Jón yrkir um þ.e. hafsins og svo því sem hlýtur þá að vera hinn helmingurinn eða fastlandið sjálft!

Því er vel við hæfi að önnur málstofan af tveimur á þessu Umhverfisþingi er helguð málefnum hafs og stranda. Hafið var önnur af tveimur uppsprettum lífsbjargar á Íslandi. Án gjöfulla fiskimiða hefðu hörðustu aldir Íslandssögunnar verið illbærilegar.

Á 20. öldinni vann íslenska þjóðin sig frá fátækt til velsældar. Það má að miklu ef ekki mestu leyti þakka sigrum í landhelgisbaráttunni og gullinu sem sótt var í greipar Ægis. Sjávarafurðir lögðu áratugum saman til yfir helming af verðmæti útflutnings okkar og stundum miklum mun meira.

Atvinnulíf okkar og efnahagur hvílir nú á fleiri stoðum, en skynsamleg nýting lifandi auðlinda hafsins er enn ein helsta undirstaða velsældar á Íslandi. Deilt er um besta fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar, en þó ríkir víðtæk sátt um nauðsyn sjálfbærrar nýtingar fiskistofnanna. Það er ekki sjálfgefið, þegar horft er yfir stöðu fiskveiða á heimsvísu.

Víða er horft til Íslendinga og annarra þjóða, sem hafa sett upp kvótakerfi byggt á vísindalegum ráðleggingum. Vísindin eru ekki óskeikul, en eru betra leiðarljós en brjóstvitið eitt eða skammtímasjónarmið.

Hafið er í huga okkar Íslendinga nátengt fiskveiðum. Stjórnsýslan tekur mið af því og það er rökrétt þegar horft er til mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag og byggð. En við þurfum að líta á hafið og vistkerfi þess frá fjölbreyttara sjónarhorni.

Fiskeldi er nú víða í sókn hér á landi eftir misjafnt gengi á liðnum áratugum. Reynsla annarra ríkja sýnir að góð stjórnsýsla og skipulag getur skipt sköpum í því sambandi. Benda má á reynslu Færeyinga, þar sem fiskeldi blómstrar nú undir ströngum reglum um sjúkdóma- og mengunarvarnir, sem settar eru í samráði við greinina.

Hvað Ísland varðar þarf að horfa til fleiri þátta, svo sem verndar okkar náttúrulegu laxastofna. Ég tel að við eigum að nálgast það mál með rannsóknum og rökum og sanngirni; reyna að samþætta sjónarmið en ekki mála tilveruna í svörtu og hvítu.

Ferðaþjónustan horfir í vaxandi mæli til hafs og stranda. Hér eru vaxtarbroddar í hvala- og selaskoðun, kajakróðri og sjóstangveiði.

Kalkþörungaset er numið af hafsbotni og þang slegið við strendur. Ræktun þörunga og beislun orku úr straumum og sjávarföllum kann að bíða handan við hornið. Kaldsjávarkórallar, hverastrýtur og önnur sérstæð fyrirbæri og búsvæði á hafsbotni þarfnast verndar.

Hvað skipulag varðar erum við kannski í svipaðri stöðu varðandi hafið nú og varðandi hálendið fyrir um 20 árum. Við þurfum að bæta skipulagið og samþætta ólíkar greinar, sjónarmið og hagsmuni; gæta í senn að vernd og sjálfbærri nýtingu gæða.

Hafið virðist okkur fábreytilegra en þurrlendið, en undir yfirborðinu leynist flókinn heimur og lífríki, sem tekur breytingum eins og annað.

Sjór hefur hlýnað hér við land. Það kann meðal annars að eiga þátt í stórfelldri gengd makríls í íslenska lögsögu. Hlýnun nyrstu svæða jarðar geymir bæði tækifæri og ógnir fyrir Íslendinga. Um þetta verður fjallað um hér á þinginu.

Hopun hafíss opnar aðgang að auðlindum og auðveldar siglingar, en losun koldíoxíðs með bruna olíu og kola veldur líka breytingum í hafinu – þar á meðal súrnun, sem kann að vera ógn við lífríkið til langs tíma.

Það er von mín að áhersla á málefni hafsins hér á þinginu verði til að efla umræðu um vernd og nýtingu auðæfa þess á næstunni.

Ágætu gestir,

Hitt umfjöllunarefni dagsins er helgað málefnum landnotkunar, undir yfirskriftinni skipulag landnotkunar og sjálfbær landnýting.

Þó við höfum lengi lifað af landsins gæðum og gróður og jarðvegur séu meðal helstu náttúruauðlinda landsins, sem mikilvægir atvinnuvegir byggja afkomu sína á, þá er það staðreynd að land er takmörkuð auðlind.

Þó við búum fá í stóru landi höfum við ekki til ráðstöfunar meira en ca. þá 103 þúsund ferkílómetra sem eyjan okkar er. Því þurfum við að gæta þess að ákvarðanir séu vel ígrundaðar til að draga úr árekstrum milli mismunandi sjónarmiða varðandi landnotkun.

Fyrr á öldum gengum við ótæpilega á auðlindir lands þannig að gróður og jarðvegseyðing eru enn alvarleg umhverfisvandamál. Ég tel mikilvægt að nefna það hér að sú ríkisstjórn sem nú situr mun leggja kapp á að takast á við þessi vandamál, þ.e. efla skógrækt og landgræðslu.

Mér er því sérstök ánægja af því  að tilkynna að stefnt er að því á næstu dögum að undirrita framlengingu á samstarfssamningi við frjálsu félagasamtökin Skógræktarfélag Íslands um uppgræðsluverkefnið Landgræðsluskóga til næstu fimm ára. Í þessu sambandi vil ég einnig nefna að ég hyggst setja af stað vinnu við að endurskoða lög um skógrækt og landgræðslu og er undirbúningur hafinn í ráðuneytinu. Þessi lög eru bæði orðin um hálfrar aldar gömul. 

En áfram um landnotkun og skipulag hennar. Vaxandi krafa er að gerð sé grein fyrir landnotkun í skipulagsgerð sveitarfélaga. Brýnt er orðið að hefjast handa við að ná á heildstæðan hátt yfir einstaka þætti landnotkunar og áforma þar að lútandi. Í því sambandi má nefna atriði eins og landgræðslu, ferðaþjónustu og afþreyingu, friðlýst svæði og náttúruvernd, orlofshúsabyggð, sauðfjár- og hrossabeit, túnrækt, kornrækt, repjurækt, skógrækt og endurheimt votlendis svo það helsta sé talið.

Erfitt getur verið fyrir einstaka sveitarstjórnir að hafa nauðsynlega yfirsýn yfir öll þessi áform um landnýtingu. Ég þekki það af eigin raun úr sveitarstjórnarmálum þar sem við vorum að fikra okkur áfram með að skilgreina og flokka betur landgæði til að forgangsraða og leiðbeina um vernd og nýtingu. Reynsla mín úr sveitarstjórnarmálum segir mér að aðalskipulag sé öflugt verkfæri sem hvert sveitarfélag hefur til að stjórna þróun innan sinnar lögsögu og koma góðu til leiðar.

Því er mikilvægt að stjórnvöld veiti leiðsögn um ráðstöfun lands, landþörf og áform einstakra geira svo og leiðbeiningar um sjálfbæra landnýtingu til ráðgjafar við aðalskipulagsgerð sveitarfélaga.  Miklar framfarir hafa orðið hvað varðar hverskonar landupplýsingar og betri og ítarlegri náttúrufarsgögn en áður  auðvelda þetta.

Ég hef því ákveðið að leggja fram tillögu um að ýtt verði úr vör vinnu við leiðbeinandi skipulag landnotkunar, sem hluta af Landsskipulagsstefnu 2015 - 2026 sem ætlunin er að leggja fram á vorþingi 2015. Það kemur til viðbótar stefnumörkun um skipulagsmál á miðhálendinu, um búsetumynstur og dreifingu byggðar og stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum sem búið er að vinna með á fyrri stigum. 

Ágætu gestir,

Ráðstöfun lands fyrir orkunýtingu er jafnframt einn þáttur þessa. Rammaáætlun er helsta stjórntækið sem nýtt verður til að fjalla um þá miklu hagsmuni sem þar eru undir. Verkefnisstjórn vinnur samkvæmt þeim ramma sem löggjöfin býður. Þetta er sá farvegur sem mótaður hefur verið til að skapa undirlag fyrir ákvarðanatöku um þá miklu hagsmuni sem felast í skynsamlegri og vel ígrundaðri nýtingu orkuauðlinda landsins - vettvangur til að fá niðurstöðu um hvað skal vernda og hvað skal nýta.  

Ferðaþjónusta er ein tegund landnýtingar og þar eru gríðarlega miklar áskoranir framundan. Atvinnugreinin vex hratt með tilheyrandi vaxtarverkjum sem bregðast þarf við og þar þarf að vanda vel til verka.

Við þurfum að huga vel að uppbyggingu á ferðamannastöðum sem margir hverjir eru orðnir  lemstraðir eftir ágang og troðning. Einnig þarf setja langtímamarkmið um dreifingu álags um landið. Framundan er mikil þörf á uppbyggingu til að ferðaþjónustan geti vaxið og dafnað og valdi sem minnstum spjöllum á náttúru landsins. Einnig þarf að líta á þetta sem tækifæri og vonandi getur ferðaþjónustan stuðlað að því að aukið fjármagn renni til náttúruverndar.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að setja af stað vinnu við að afla tekna og skipuleggja uppbyggingu innviða í þágu ferðaþjónustu. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinna sameiginlega að þessu í samráði við helstu hagsmunaðila. 

Við höfum byggt upp metnaðarfullt kerfi friðlýstra svæða. Þau þekja nú um fimmtung landsins og eru ýmis frekari áform í pípunum. Þetta eru mikilvæg verkefni.

Næsta slíka verkefni sem ég stefni að er að ganga frá friðlýsingu stækkaðs friðlands Þjórsárvera. Þetta er gríðarleg stækkun á friðlandinu og verður það eitt stærsta friðland landsins og tekur meðal annars til alls Hofsjökuls og fellur að Guðlaugstungum að norðan. Ég bind vonir við að þeir tæknilegu hnökrar sem komu upp í þessu máli leysist hið fyrsta.

Í þessu sambandi vil ég taka af allan vafa um það að virkjunarkostur er ekki í myndinni inni á hinu væntanlega friðlýsta svæði Þjórsárvera. Komi inn óskir um skoðun á nýjum virkjunarkostum fyrir utan friðlandið munu þeir að sjálfsögðu alltaf þurfa að fara í gegnum nýtt matsferli rammaáætlunar.

Þannig er ekki útilokað að virkjunarkostur fyrir utan friðlýsingarmarka verði skoðaður og metinn af verkefnastjórn rammaáætlunar síðar meir. Það ferli hefur engin áhrif á það að hægt sé að ljúka friðlýsingu Þjórsárvera nú.

Jafnframt er mikilvægt að skilja að náttúruvernd snýst ekki eingöngu um friðlýst svæði. Stærstur hluti landsins er ekki friðlýstur. Ég tel því mikilvægt að leita leiða til að efla náttúruvernd á hinum hluta landsins í samstarfi við landeigendur og stjórnvöld heima í héraði.  

Ég vil einnig nota tækifærið hér og upplýsa um stöðu vinnu við löggjöf um náttúruvernd. Eins og fram hefur komið mun verða lagt fram á Alþingi frumvarp á næstunni, sem fellir niður væntanlega gildistöku laganna, sem samþykkt voru á Alþingi á lokametrum þingsins í vor.  Samþykki Alþingi það, mun strax hefjast vinna í ráðuneytinu við að endurskoða lögin með það einlæga markmið að leita leiða til að skapa betri sátt um þennan mikilvæga málaflokk. Það tókst ekki í vinnunni í vor og er ástæða þess að til þessa ráðs er gripið nú.

Endurskoðunin verður unnin í ráðuneytinu í virku samráði meðal annars við sveitarfélög, frjáls félagasamtök og helstu stofnanir ráðuneytisins á þessu sviði. Markmiðið er að hægt verði að leggja fram endurskoðað frumvarp á næstu misserum.

Fyrir liggur þekkingargrunnur sem byggt verður á - en það er líka rými fyrir fleiri sjónarmið í þessari vinnu, til að skapa um þetta málefni betri sátt sem ég tel einboðið að verði til að styrkja allan framgang þessarar löggjafar í framtíðinni.

Það er mín einlæga ósk að um þessa vinnu geti myndast sátt og stuðningur þannig að vinnan við endurskoðunina geti gengið fljótt og vel og málið geti þannig komist sem fyrst til meðferðar Alþingis.

Góðir gestir,

Ég vil í lokin ítreka ánægju mína með svo góða þátttöku á þessu Umhverfisþingi sem nú er haldið í áttunda sinn. Ég vil hvetja ykkur til að taka virkan þátt í umræðum hér á þinginu og hlýða á þau áhugaverðu erindi sem hér verða flutt.

Ég vil jafnframt nota tækifærið og þakka kærlega öllum þeim sem hafa komið að undirbúningi þingsins fyrir þeirra framlag og segi hér með Umhverfisþing sett.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta