Hoppa yfir valmynd
23.12.2013 Matvælaráðuneytið

Ræða á félagsfundi Iceland Geothermal, 17. des. 2013

ATH: Talað orð gildir

Ágæta samkoIceland Geothermalma,
Ég þakka fyrir að fá að koma og ávarpa ykkur í lokin á þessum ágæta félagsfundi hins íslenska jarðvarmaklasa (eða Iceland Geothermal). Ég sé á dagskránni að þið hafið fengið gott yfirlit yfir þau fjölbreyttu samstarfsverkefni sem unnin hafa verið á vettvangi klasans á undanförnum árum og hvað framtíðin ber í skauti sér í þeim efnum.

Virðisauki í jarðvarma er leiðarljós samstarfs þeirra aðila er standa að íslenska jarðvarmaklasanum og byggir klasasamstarfið á vinnu tíu skilgreindra samstarfsverkefna sem hafa þann lykiltilgang að efla samkeppnishæfni samstarfsaðila klasans til frekari vaxtar og þróunar.

Jarðhitasvæði landsins eru gríðarlega verðmæt náttúruauðlind – en það eru líka mikil verðmæti fólgin í áratuga reynslu og  mikilli þekkingu sem byggst hefur upp hér á landi á sviði jarðhitamála. Tækifærin til að afla enn meiri þekkingar blasa við okkur – en það er gömul saga og ný að það gerist ekkert af sjálfu sér.

Í samstarfi af þeim toga sem birtist í hinum íslenska jarðvarmaklasa er brýnt að frumkvæðið sé hjá atvinnulífinu og að stjórnvöld og stofnanir styðji við það ferli sem miðar að markvissu samstarfi og framkvæmd sameiginlegra verkefna.

Sem dæmi um gott samstarf má nefna ferð sem ég fór í á dögunum ásamt fjölda fyrirtækja og undir forystu Orkustofnunar til Búkarest í Rúmeníu. Þar var haldin ráðstefna  í tilefni af því að Þróunarsjóður EFTA hleypti af stokkunum verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku þar í landi, m.a. verkefnum til að stuðla að aukinni hitaveituvæðingu. Á ráðstefnunni ræddi ég um hitaveituvæðingu Íslands og þann árangur sem hér náðist á skömmum tíma og hvernig hægt væri að nýta reynslu og  þekkingu  íslenskra fyrirtækja við uppbyggingu hitaveitna m.a. í Rúmeníu.

Eftir töluverðu er að slægjast því heildarfjármagn til orkuverkefna í Rúmeníu nema um 14 milljónum evra eða um 2,2 milljörðum íslenskra króna á núvirði. EFTA-sjóðurinn er fjármagnaður af Íslandi, Noregi og Lichtenstein og styrkir hann ýmis verkefni í þeim aðildarríkjum ESB sem lakar standa í efnahagslegu tilliti. Styrkþegaríki sjóðsins eru því öll í Suður- og Austur-Evrópu. Í Rúmeníu verða styrkt verkefni bæði á sviði jarðhita og vatnsafls.

Orkustofnun fer með umsjón verkefna EFTA sjóðsins á sviði jarðhita en þar er mest áhersla lögð á hitaveitur og sérstaklega að koma á jarðhitanýtingu í starfandi fjarvarmaveitum sem nú nota jarðgas sem orkugjafa. Með verkefninu er því bæði stuðlað að aukinni nýtingu innlendrar hreinnar orku og jafnframt dregið úr notkun innflutts jarðefnaeldsneytis.

Þarna liggja frekari tækifæri og ég lýsi mig reiðubúna til frekara samstarfs um verkefni sem þessi. Ég sé að á þessu sviði getum við lagt töluvert af mörkum, enda stöndum við flestum öðrum framar á þessu sviði. Norðmenn hafa verið iðnir við að nýta sér þá möguleika sem EFTA sjóðurinn veitir norskum fyrirtækjum m.a. á orkusviðinu. Við þurfum á sama hátt að vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem hann veitir okkur og sérstaklega ber að fagna því að búið sé að setja upp sérstaka jarðhitaáætlun í Rúmeníu og Ungverjalandi en þetta er eitthvað sem við höfum lengi barist fyrir. Ég vil hvetja íslenska aðila til að kynna sér Þróunarsjóðinn og þau tækifæri sem þar bjóðast.

Ég get einnig greint frá því að í undirbúningi er að í byrjun mars á næsta ári fari fram í Brussel, hringborðsumræður um möguleika jarðhitanýtingar í Evrópu og fjármögnun jarðhitaverkefna. Viðburðurinn er skipulagður að frumkvæði Günther Öttinger, framkvæmdastjóra orkumála hjá Evrópusambandinu, í samráði og samstarfi við íslensk stjórnvöld, en Öttinger hefur mikinn áhuga á því að auka hlut jarðhitanýtingar í Evrópu og vill í því skyni að læra af reynslu okkar Íslendinga í þeim efnum. Unnið er að uppsetningu á dagskrá fundarins og verður hann nánar kynntur íslenskum fyrirtækjum á þessu sviði á næstunni.

Á hringborðsfundinum verður farið yfir möguleika á aukningu jarðhitanýtingar í Evrópu, reynslu okkar á þessu sviði sem og hvernig unnt er að standa að fjármögnun jarðhitaverkefna. Eitt af markmiðum með þessu hringborði er að koma inn viðhorfsbreytingu hjá bæði framkvæmdastjórn ESB, og ekki síst embættismönnum í Brussel, sem virðast hafa bæði lítinn áhuga sem og þekkingu á jarðhita.

Góðir fundarmenn.
Stjórnvöld hafa frá upphafi staðið með hinum íslenska jarðvarmaklasa og fylgst náið með þeim verkefnum sem unnin eru á vettvangi hans. Í apríl 2012 var gert sérstakt samkomulag um aðkomu íslenskra stjórnvalda að klasanum og hún skilgreind nánar. Fyrr á þessu ári var síðan gengið frá samkomulagi á milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Iceland Geothermal um fjárstuðning (6,8 m.kr.) vegna 7 skilgreindra verkefna sem klasinn hefur unnið að á þessu ári. Markmið þessara verkefna var að:

  • Auka fjölnýtingu jarðvarma,
  • Efla samstarf innan greinarinnar,
  • Auka nýliðun og menntun með markvissu átaki,
  • Efla gagnaöflun og stuðla að aukinni þekkingu á jarðvarmageiranum á Íslandi,
  • Gera tillögur að úrbótum á starfsumhverfi jarðvarmafyrirtækja.
Framgangur þessara 7 verkefna hefur verið góður á þessu ári og er nú svo komið að 6 þeirra er lokið.

Eitt þessara verkefna sem við höfum haft mikinn áhuga á snýr beint að starfsskilyrðum fyrirtækja í þessum iðnaði. Svokallaður „starfsskilyrðahópur“ Iceland Geothermal hefur gert  tillögur um þá þætti sem betur mega fara í leyfis- og afgreiðsluferlum jarðvarmaverkefna.

Mér skilst að þessi vinna sé langt komin og ég bind miklar vonir við niðurstöðu hennar, þar sem hún fellur vel að áherslum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum um að  einfalda regluverk.

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að ríkisstjórn Íslands leggur áherslu á einföldun og skilvirkni regluverks og að hún muni beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni þess að leiðarljósi. Markmið er að minnka skrifræði og bæta og einfalda samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði er haldið niðri án þess að slegið sé af eðlilegum kröfum. Víða erlendis er nú frekar talað um „bætta reglusetningu“ eða „snjallari reglusetningu“ og er keppikeflið að reglur nýtist sem best sem tæki til að ná fram samfélagslegum markmiðum.

Innan míns ráðuneytis er fyrir nokkru hafin vinna við að greina hvað það er í regluumhverfi atvinnulífsins sem er óþarflega flókið og íþyngjandi og meta kostnaðinn sem af hlýst. Höfum við kallað til samráðs við stofnanir ráðuneytisins og hagsmunaaðila í þessu skyni. Markmiðið er að sjálfsögðu að draga úr óþarfa reglubyrði, bæta stjórnsýsluna og almennt bæta viðskiptahætti. Jarðhitageirinn er ágætt dæmi að þessu leyti. Framkvæmdaraðilar í jarðhitageiranum hafa rekið sig á að ýmislegt í regluverkinu mætti vera skýrara eða einfaldara. Nefnt hefur verið að vinna við mat á umhverfisáhrifum og skipulag hefur tekið lengri tíma en áætlað var í upphafi, þrátt fyrir að málsmeðferð og tímafrestir sem snúa að stjórnsýslunni séu tilgreindir í lögum og reglugerðum.

Brýnt er að tímarammar verði fyrirsjáanlegir og raunhæfir, þannig að unnt sé að gera áætlanir um framgang nýtingarkosta og gera bindandi samninga um afhendingu orku. Það er algerlega óásættanlegt að tímafrestir séu virtir að vettugi eins og allt of mörg dæmi eru um.

Kæru gestir.
Hann er vandrataður hinn gullni meðalvegur milli hinnar tæru og einföldu stjórnsýslu og þeirra fjölmörgu og ólíku krafna og skilyrða sem talið er, út frá almannahagsmunum, eðlilegt að setja þegar kemur að jarðvarmaverkefnum. En að finna þennan gullna meðalveg, og að betrumbæta og einfalda núverandi leyfisferla og regluverk, er hins vegar áskorun sem við eigum ekki að víkja okkur undan.

Nú sem fyrr treystum við á breiða samvinnu og köllum eftir góðum hugmyndum og tillögum frá atvinnulífinu. Íslenski jarðvarmaklasinn gegnir mikilvægu hlutverki.

Ég óska ykkur velfarnaðar i störfum ykkar og horfi til áframhaldandi góðs samstarfs við jarðvarmaklasann á komandi mánuðum og misserum.     

Iceland Geothermal




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum