Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á fagráðstefnu skógræktar
Kæra skógræktarfólk, skipuleggjendur, ágætu ráðstefnugestir,
Það er mér sönn ánægja að fá að vera með ykkur hér við setningu þessarar árlegu fagráðstefnu skógargeirans. Hér er vettvangur hinna fjölmörgu sem leggja stund á skógrækt í landinu: rannsóknarmannsins, ráðgjafans, skógarbóndans og áhugamannsins.
Þema ráðstefnu þessa árs er skógur og skipulag og á það svo sannarlega vel við þessi misserin. Á þessum tímapunkti er ýmislegt sem gefur tilefni til að horfa yfir farinn veg og leggja mat á hvernig okkur hefur tekist til. Síðustu ár hefur ríkið staðið með beinum hætti að þremur verkefnum um nýræktun skóga sem öll hafa sannað sig, hvert með sínum hætti.
Fyrst má nefna landshlutaverkefni í skógrækt. Bændaskógrækt hefur verið stunduð með einhverju sniði í rúma fjóra áratugi allt frá s.k. Fljótsdalsáætlun á Héraði. Þessi stefna, að fjárfesta í skógi með því að styðja bændur og aðra landeigendur í skógrækt á sínu landi, hefur skilað því að nú er að verða hér til skógarauðlind með fjölbreyttum tækifærum . Þar liggja mjög mörg spennandi tækifæri sem ég sé að eru umfjöllunarefni ykkar á þessari ráðstefnu.
Landgræðsluskógar skógræktarfélaganna eru annað mikilvægt verkefni. Þar hefur samstarf ríkisins við Skógræktarfélag Íslands og aðildarfélög þess um Landgræðsluskóga slitið barnsskónum og hefur nú verið starfrækt síðan árið 1990. Með landgræðsluskógaverkefninu hafa skógræktarfélögin unnið mikið og gott starf í að bæta rýrt land og í mörgum tilvikum gjörbreytt umhverfi þéttbýlisstaða. Þannig hafa ekki eingöngu náðst umhverfistengd markmið í þágu jarðvegsverndar heldur einnig félagsleg og hagræn markmið í formi skjóls og bættri aðstöðu til útivistar. Nú fyrir jólin framlengdu stjórnvöld samninginn um Landgræðsluskóga til næstu 5 ára þannig að það verkefni siglir áfram í fullum gangi.
Hekluskógar eru barnið eða unglingurinn í þessum verkefnahópi. Fyrir eldfjallaeyju eins og Ísland er verkefni eins og Hekluskógar ekki síður mikilvægt í samfélagslegu tilliti en umhverfislegu. Og reynslan af því getur gagnast víðar en bara kringum Heklu. Íbúar í nágrenni Eyjafjallajökuls og Grímsvatna og reyndar miklu víðar hafa síðustu ár upplifað á eigin skinni hvernig askan úr þessum eldgosum er til viðvarandi óþæginda og getur hæglega valdið heilsutjóni. Dæmi úr t.d. Þórsmörk, þar sem birkið hefur dafnað á síðustu tveimur áratugum, sýnir hins vegar mátt gróðursins til að binda ösku. Það er eitthvað sem við getum nýtt okkur sem lærdóm og unnið með í verkefnum næstu ára og áratuga, að byggja upp þol vistkerfa landsins gegn áföllum eins og eldgosum. Til ef efla Hekluskógaverkefnið með aukinni gróðursetningu fékk verkefnið sérstakan 3 milljóna styrk nú fyrir skömmu.
Hvert þessara verkefna hefur sína sérstöðu en öll eiga þau sameiginlegt að breyta landi. Þannig tengjast þau skipulagi. Skógrækt hefur óneitanlega áhrif á land, landslag, vistkerfi og aðra landnotkun. Skógrækt er líka þess eðlis að eðlilegt er að fjallað sé um hana í skipulagsáætlunum sem eru til langs tíma. Það er hins vegar líka mikilvægt að umfjöllun sveitarfélaga um skógrækt byggi á þekkingu og reynslu. Þess vegna er samtal ykkar skógræktarfólks og sveitarstjórnarmanna mikilvægt.
Þjóðskógarnir okkar, í vörslu Skógræktar ríkisins, eru mikilvægar fyrirmyndir enda margir áratugum eldri en nýræktarsvæðin. Þeir eru fyrirmyndir þar sem við sjáum tækifærin sem skógrækt felur í sér, til útivistar, til viðarframleiðslu og hvernig land breytist við skógrækt. Við erum t.d. að upplifa að úrvinnsla úr þjóðskógum landsins er farin að skila talsverðum tekjum. Þessi þáttur skógræktar er okkur tækifæri til að læra og við skulum nýta tímann vel því þessi þáttur skógræktarinnar mun bara aukast á næstu árum og áratugum.
Það hefur auðvitað orðið breyting á viðhorfum til skógræktar og það þarf ekki lengur að sannfæra fólk um að hægt sé að rækta skóg á Íslandi. Skógar eru mjög víða farnir að vera sýnilegir og áberandi í landinu. Nú snýst umræðan um hvar á að stunda skógrækt, hvernig og hversvegna. Það er líka skipulagsmál. Það er ekki sama hvernig staðið er að skógrækt, það er ekki sama hvar hún er stunduð og það er skynsamlegt að sett séu markmið í upphafi. Að hverju er stefnt.
Góðir gestir,
Vinna er nú hafin við gerð landsskipulagsstefnu 2015-2025. Eitt viðfangsefni landsskipulagsstefnunnar er landnotkun í dreifbýli. Með landsskipulagsstefnu eru formgerð leiðarljós fyrir sveitarfélög sem þau geta fylgt í sinni skipulagsvinnu. Ég lít á vinnu við landsskipulagsstefnu sem tækifæri fyrir sveitarfélögin, hagsmunaaðila og fagfólk til að eiga samræðu. Opna samræðu um málefni sem brenna á samfélaginu í dag og tækifæri til að horfa sameiginlega fram á veginn. Hverjar verða áskoranir okkar í framtíðinni? Hvar liggja tækifærin og hvernig eru þau best nýtt? Hvernig getur skipulag hjálpað okkur til þess? Þetta eru viðfangsefnin.
Land okkar er fjölbreytt auðlind sem við lifum á. Það er jafnframt takmörkuð auðlind. Það er því mikilvæg áskorun að ráðstafa og nýta það á sjálfbæran og skynsamlegan hátt. Mikilvægir atvinnuvegir byggja á nýtingu lands, m.a. landbúnaður og ferðaþjónusta. Íslendingar eiga að þekkja hvernig ósjálfbær landnýting á fyrri árum hefur hins vegar stuðlað að mikilli gróður-og jarðvegseyðingu. Ástand og starfsemi vistkerfa landsins eru víða lakari en þau gætu verið og mótuð af þessari aldalöngu ósjálfbæru nýtingu í okkar norðlæga landi, með erfiðri veðráttu og eldvirkni.
Mikil þróun hefur orðið á landnotkun á undanförnum áratugum og eins eru uppi áform um ýmsar nýjungar s.s. kornrækt, olíurepja, skógrækt, endurheimt votlendis, frístundabyggð, náttúruvernd, ferðaþjónusta og landgræðsla svo margt það helsta sé talið.
Það er mikilvægt að stjórnvöld marki stefnu og veiti leiðsögn um ráðstöfun lands, og veiti leiðbeiningar um sjálfbæra landnýtingu ekki síst til að gera sér betur grein fyrir landþörf einstakra kosta og jafnframt til ráðgjafar við aðalskipulagsgerð sveitarfélaga.
Ég hef áður varpað því fram að áhugavert sé að skoða það sérstaklega, í samstarfi við helstu hagsmunaðila, hvernig hægt væri að standa að gerð leiðbeinandi rammaáætlunar um landnotkun og sjálfbæra landnýtingu, sem væri stórt langtímaverkefni með það að markmiði að efla hverskonar sjálfbæra landnýtingu til verðmætasköpunar og framfara í okkar samfélagi. Í vetur hefur verið að störfum vinnuhópur undir stjórn ráðuneytisins til að undirbúna þetta, sem ég veit að verður umfjöllunarefni hér á ráðstefnunni.
Góðir gestir,
Ríkisstjórnin vill vinna markvisst að eflingu skógræktar og hverskonar landbótum á Íslandi. Ég hef metnað til að vinna að eflingu skógræktarstarfsins í landinu á vettvangi ráðuneytisins og hef þegar hafið skoðun á því. Það er á ýmsum sviðum - bæði hvað varðar lagalega og skipulagslega umgjörð skógræktarstarfsins - þróun þeirra tækifæra sem liggja í aukinni atvinnu og verðmætasköpun.
Ráðstefna eins og þessi er vettvangur margra aðila til að eiga skoðanaskipti. Ég trúi því að opin og fagleg umræða um skógrækt og skipulag sé til þess fallin að styrkja grundvöll skógræktar sem landnotkunar.
Ég vil óska ykkur - skipuleggjendum ráðstefnunnar - til hamingju með þessa metnaðarfullu og áhugaverðu dagskrá sem hér liggur fyrir. Ég óska þess að þessi fjölmenna fagráðstefna skógræktar verði árangursrík og óska ykkur farsældar í störfum hér næstu tvo daga.
Takk fyrir