Hoppa yfir valmynd
14.03.2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi um úrgangsmál

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á málþingi um úrgangsmál sem haldið var á Hótel KEA föstudaginn 14. mars 2014.


Góðir gestir,


Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á þessu málþingi um úrgangsmál.

Umfjöllun um úrgang og hvað verður um hann er málefni sem hefur verið í brennidepli undanfarin ár og snertir daglegt líf okkar, enda verður úrgangur til vegna neyslu einstaklinga og varðar þannig rekstur heimila og fyrirtækja. Mikilvægt er því að beita svokallaðri lífsferilshugsun í stefnumótun og ákvarðanatöku um úrgangsmál, jafnt á vettvangi ríkis og sveitarfélaga og við framleiðslu vöru.

Á undanförnum árum hefur margt áunnist í meðhöndlun úrgangs á Íslandi, endurvinnsla úrgangs hefur aukist og dregið hefur úr urðun úrgangs. Fram til ársins 1970 voru ekki gerðar sérstakar kröfur til förgunarstaða úrgangs og algengt var að úrgangi væri brennt við ófullkominn bruna. Förgunarstaðir voru margir og oft staðsettir nálægt byggð til að ekki þyrfti að flytja úrganginn langar leiðir. 

Eftir 1970 voru byggðar nokkrar brennslustöðvar og urðunarstöðum fjölgaði og flokkun úrgangs var lítil. Í kjölfar gildistöku EES-samningsins í byrjun árs 1994 urðu breytingar á lagaumhverfinu varðandi úrgang. Endurvinnsla á úrgangi hefur aukist verulega og jafnframt hefur dregið úr urðun úrgangs.Það er ánægjulegt að  finna hvað áhugi almennings, sveitarfélaga og fyrirtækja á úrgangsmálum hefur aukist mikið, sem hefur stuðlað að aukinni umhverfisvernd og ekki síst stuðlað að auknu verðmæti í nýtingu úrgangs. Þetta hefur beint sjónum að mikilvægi málaflokksins.

Það er brýnt að meðhöndlun úrgangs sé markviss og hagkvæm og að úrgangur sem til fellur fái viðeigandi meðhöndlun.  Þá þarf að leggja áherslu á að stuðla að sjálfbærri auðlindanotkun með aðgerðum og fræðslu til að draga úr myndun úrgangs og leggja aukna áherslu á nýtingu hráefna úr úrgangi. Með því móti má auka endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu, s.s. orkuvinnslu.

Ljóst er að þessi markmið nást ekki í einni svipan. Mikilvægt er að efla fræðslu til almennings um nauðsyn þess að flokka úrgang og koma honum til endurvinnslu og endurnotkunar. Leggja þarf áherslu á að einum eða fleiri úrgangsflokkum er haldið aðskildum frá öðrum úrgangi, á einhverjum tímapunkti í söfnun eða flokkun úrgangs, eftir tegund og eðli til að auðvelda tiltekna meðhöndlun. Stöðugt rekstrar- og lagaumhverfi þarf að vera til staðar á sviði úrgangsmála. Fyrir hendi þarf að vera langtímastefna með skýrum markmiðum þar sem málaflokkurinn er í mikilli þróun og kallar á, í sumum tilvikum á fjárfestingar til lengri tíma. Móta þarf framtíðarstefnu í úrgangsmálum í samstarfi við Úrvinnslusjóð, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila með sameiginlegt markmið að draga úr úrgangi og auka endurnýtingu. Verklagi þarf að breyta við stefnumótunina og að einhverju leiti þurfum við að tileinka okkur nýtt hugarfar og eyða ákveðinni óvissu sem hefur ríkt í málaflokknum. 

Grundvallarþjónusta fyrir meðhöndlun úrgangs þarf ávallt að vera til staðar og er því mikilvægt að skýra ábyrgðar- og verkaskiptingu þeirra aðila sem koma að málaflokknum til að tryggja stöðugleika til framtíðar. Til að stuðla að þessu þarf að breyta þeirri forgangsröðun sem verið hefur.  

Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs sem ég lagði fram á Alþingi í nóvember síðastliðnum er kveðið á um að við meðhöndlun úrgangs og setningu reglna um stjórnun og stefnu í úrgangsmálum skuli ákveðin forgangsröðun lögð til grundvallar.  

Í fyrsta lagi er lögð áhersla á ráðstafanir sem gerðar eru áður en efni, efniviður eða vara er orðin að úrgangi og að draga úr magni úrgangs.Þá er næst horft til undirbúnings fyrir endurnotkun, endurvinnslu, og svo aðra endurnýtingu, t.d. orkuvinnslu, og loks förgun. Gert er ráð fyrir að leitast sé við að velja þá kosti sem skila bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið. Einnig þarf að setja fram viðmið um það hvenær úrgangur hættir að vera úrgangur og telst vera hráefni sem mun stuðla að enn frekari nýtingu úrgangs. 

Jafnframt er lagt til að aukaafurðir dýra falli ekki undir gildissvið laga um meðhöndlun úrgangs nema í afmörkuðum tilvikum, t.d. þegar skylt er að brenna þær samkvæmt regluverki um aukaafurðir dýra. Líta ber á aukaafurðir dýra sem hráefni, svo sem til fóðurgerðar, áburðarframleiðslu og moltugerðar.  Þá er mikilvægt að hafa regluverkið skýrt og einfalt til að stuðla að nýtingu þessara hráefna og skapa aukin tækifæri á endurnýtingu.
 
Í ár fer Ísland með formennsku í norrænu ráðherranefndinni og í febrúar síðastliðnum var Norræna lífhagkerfið (Nordbio) formlega sett af stað. Formennskuverkefnið er þverfaglegt verkefni á sviði umhverfismála, fiskveiða, fiskeldis, landbúnaðar, matvæla og skógræktar, atvinnulífs-, orkumála- og byggðastefnu, menntunar, menningar og rannsókna. Í þessu starfi verður unnið að verkefnum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda.
 
Markmið Norræna lífhagkerfisins er m.a. að koma í veg fyrir myndun úrgangs og auka endurnýtingu og hámarka nýtingu lífrænna afurða. Má hér nefna verkefni undir forystu Matís um bætta hráefnanýtingu í matvælaframleiðslu.Framangreind verkefni geta nýst í barráttunni við sóun matvæla. Árlega er um 89 milljónum tonna af mat sóað í Evrópu. Dregið er í efa að nútíma matvælaframleiðsla og –neysla sé sjálfbær þegar til lengri tíma er litið. Ljóst er að grípa þarf til einhverra aðgerða til að draga úr þessari matarsóun. Þess má geta að Landvernd hefur fengið fjármagn frá norrænu ráðherranefndinni í verkefni um að draga úr matarsóun á Norðurlöndum. 

Þá verður einnig boðað til málþings um matarsóun á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á degi umhverfisins 25. apríl næstkomandi.

Ágætu gestir.

Mikilvægt er að horfa með heildstæðum hætti á úrgangsmál til framtíðar. Lagaumhverfið þarf að vera stöðugt til að fyrirbyggja óvissuþætti.  Með frumvarpi því sem ég hef lagt fram á Alþingi verður stigið fyrsta skrefið í átt að heildstæðari löggjöf um úrgangsmál og verður áfram unnið að því verkefni í ráðuneytinu á næstu misserum.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum góðs málþings og vona að þig eigið ánægjulegan dag framundan.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta