Hoppa yfir valmynd
25.04.2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á morgunverðarfundi um matarsóun - Hættum að henda mat

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á morgunverðarfundi um matarsóun sem haldinn var á Degi umhverfisins 25. apríl 2014.


Góðir gestir.

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur á Degi umhverfisins á morgunverðarfundi þar sem fjalla á um matarsóun undir yfirskriftinni „Hættum að henda mat“.

Matarsóun er siðferðislegt vandamál, ekki síst í hinum vestræna heimi. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlar að árlega fari 1,3 milljarðar tonna matvæla til spillis. Þetta er álíka mikill matur og framleiddur er árlega í Afríku sunnan Sahara eyðimerkurinnar.  Á sama tíma fer ein af hverjum sjö manneskjum í heiminum svöng að sofa og yfir 20 þúsund börn deyja daglega úr næringarskorti.

Þessar staðreyndir endurspegla verulegt ójafnvægi þegar kemur að lífsstíl fólks sem ennfremur hefur stórfelld áhrif á umhverfi og efnahag, m.a. vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, land- og vatnsnotkunar og ýmissar mengunar sem hlýst af matarframleiðslu og förgun matar. 

Sú vitundarvakning sem er að verða um sóun matar er því bæði jákvæð og nauðsynleg. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með því hversu virkan þátt almenningur hefur tekið í umræðu um nauðsyn þess að stemma stigu við sóun matvæla.

Þannig virðast flestir sammála um að matarsóun sé vandamál sem bregðast þurfi við. Við skiljum öll mikilvægi þess að maturinn sé nýttur í stað þess að honum sé hent og þannig að dregið sé úr úrgangssöfnun. Skoða þarf myndun úrgangs í víðu samhengi, enda hlýst hún – þar með talin matarsóun – af neyslu einstaklinga, heimila og fyrirtækja.

Þetta kallar á að beitt sé lífsferilshugsun í allri stefnumótun og ákvarðanatöku um úrgangsmál, jafnt á vettvangi stjórnvalda sem og við framleiðslu vara. Matarúrgangur fellur nefnilega til á öllum stigum matarkeðjunnar og ástæðurnar eru af margvíslegum toga. Má áætla að í þróunarlöndunum sé sóunin meiri á framleiðslustiginu á meðan því er öfugt farið í hinum vestrænum ríkjum þar sem sóunin á sér stað frekar á neyslustigi vörunnar.

Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs sem ég lagði fram á Alþingi í nóvember síðastliðnum er kveðið á um ákveðna forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs og setningu reglna um stjórnun og stefnu í úrgangsmálum. 

Felst hún í fyrsta lagi í forvörnum í því skyni að koma í veg fyrir myndun úrgangs og má segja að umræða á borð við þá sem við munum eiga hér í dag um matarsóun sé einmitt liður í slíkum forvörnum.

Þá er næst í forgangsröðinni undirbúningur fyrir endurnotkun, þá endurvinnsla, síðan önnur endurnýting, eins og  orkuvinnsla, og loks förgun.

Í frumvarpi því sem ég hef vísað til eru sett fram viðmið sem útfærð verða í reglugerðum um það hvenær úrgangur hættir að vera úrgangur og telst vera hráefni sem mun stuðla að enn frekari nýtingu.

Eitt erindana hér á eftir fjallar einmitt um aukna nýtingu hráefna í matvælaframleiðslu, sem dregur úr sóun.

Matarúrgangur verður til af ýmsum ástæðum, svo sem offramleiðslu, ófullnægjandi geymsluaðferðum, óhentugum skammtastærðum og skorti á aðgæslu neytenda, t.d. þegar matur dagar uppi í ísskápnum.

Einstaklingar geta lagt sitt að mörkum til að berjast gegn matarsóun, svo sem með því að skipuleggja matarinnkaup betur, athuga dagsetningar og nýta matarafganga í stað þess að fleygja þeim.

Í því felst heilmikil áskorun því það getur verið meira en að segja það að takast á við og breyta hversdagslegum venjum sem hafa orðið til yfir langan tíma. Hins vegar er þetta gott dæmi um ávinninginn og samlegðaráhrifin af því að huga að umhverfinu í okkar daglega hversdagslífi.

Því það,  að gæta betur að hvað við kaupum og hverju við hendum leiðir ekki aðeins af sér betri nýtingu matvæla heldur er það mjög mikilvægt fyrir umhverfið – í ljósi þess hversu matvælaframleiðsla og flutningar valda miklu umhverfisálagi á jörðina sem við byggjum.

Auk þess að nýta matinn okkar betur stuðlum við jafnframt að betri nýtingu auðlinda og drögum úr neikvæðum áhrifum á náttúruna. Þá er verulega fjárhagslegur ávinningur af því fyrir einstaklinga og samfélagið að hætta að sóa mat um leið og það er siðferðislega og samfélagslega rétt að henda ekki matvælum á sama tíma og fjöldi manna í heiminum sveltur.

Síðastliðið haust hlaut Selina Juul Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2013 fyrir baráttu sína gegn matarsóun. Hún hefur af miklum áhuga og eldmóð vakið athygli manna á málefninu og sett málið á dagskrá bæði á Norðurlöndum og á vettvangi Evrópusambandsins og Sameinuðu Þjóðanna.

Norðurlöndin hafa staðið fyrir auglýsingaherferðum gegn matarsóun og á vegum norrænu ráðherranefndarinnar eru verkefni í gangi til að stuðla að minni matarsóun. Má þar nefna formennskuverkefni Svía á síðasta ári um minnkun matarúrgangs á veitingastöðum, hótelum, mötuneytum og veisluþjónustum.

Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár.  Eitt af formennskuverkefnum Íslands í ár er þverfaglegt verkefni á sviði umhverfismála, fiskveiða, fiskeldis, landbúnaðar, matvæla og skógræktar, atvinnulífs-, orkumála- og byggðastefnu, menntunar, menningar og rannsókna.

Þar undir má nefna verkefni undir forystu Matís um bætta hráefnanýtinu í matvælaframleiðslu, sem við heyrum meira af hér á eftir. Þá má geta þess að Landvernd hefur fengið fjármagn frá Norrænu ráðherranefndinni í verkefni til að draga úr matarsóun á Norðurlöndunum.

Einnig mun þetta mikilvæga málefni verða sett á dagskrá í Umhverfisráðuneytinu og vera liður í því að skapa undirlag til að vekja okkur betur til umhugsunar um að hætta að henda mat.

Hér á eftir verður fjallað nánar um umfang, ástæður og afleiðingar matarsóunar, hvað stýrir okkur sem neytendum þegar kemur að kaupum á mat, hvernig nýta má betur hráefni við matvælaframleiðslu, hvernig draga má úr matarsóun í mötuneytum og þá vitundarvakningu sem hefur orðið meðal almennings og stjórnvalda varðandi þetta málefni.

Mörg okkar telja að við sóum ekki mat.  Staðreyndin er hins vegar önnur.  

Matarsóun felst í því að kaupa meira inn en maður hefur í raun þörf fyrir. 

Matarsóun felst í því að henda slöppum eða blettóttum ávexti í stað þess að skera skemmdina af og borða ávöxtinn beint eða mauka t.d. í drykk.

Matarsóun felst í því að henda mat bara af því að það var búið að setja hann á borðið og hann kláraðist ekki.

Matarsóun felst í því að ýta matvörum aftar í skápinn þegar komið er með nýrri vörur úr búðinni og nota þannig yngri vörurnar fyrst og henda hinum. 

Matarsóun er að henda restinni úr túpunni, dósinni eða flöskunni í stað þess að skera á túpuna eða þynna það sem er í flöskunni og nota.

Matarsóun felst í því að taka ekki heim með sér afganginn frá veitingastaðnum og matarsóun felst einnig í því að borða yfir sig…  Já, matarsóun er víðtæk.

Ágætu gestir.

Tökum höndum saman og hættum að henda mat eins og kostur er. Með aukinni þekkingu og skapandi hugsun við nýtingu matvæla stígum við lítil skref sem munu breyta miklu og á endanum leiða til verulegs sparnaðar.

Ég óska ykkur öllum góðs fundar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta