Hoppa yfir valmynd
29.04.2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á hátíðarathöfn á Degi umhverfisins 25. apríl 2014

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á hátíðardagskrá umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem haldin var í Víkinni, Sjóminjasafni Íslands, á Degi umhverfisins 25. apríl 2014.


Góðir gestir – gleðilega hátíð!

Og gleðilegt sumar! Vorið sem nú er í lofti fyllir mann óneitanlega bjartsýni – enda bjartasti og frjósamasti tími ársins framundan. Þá skartar umhverfið sínu fegursta – fuglar fylla loftin, gróðurinn blómstrar og skepnur og menn njóta hlýinda og útivistar í faðmi íslenskrar náttúru. Það er einstaklega vel viðeigandi í upphafi þessarar birtutíðar að leiða hugann að umhverfi okkar og fagna því á sérstökum degi umhverfisins.

En umhverfismál eru ekki bara til að hugsa um á tyllidögum heldur þurfa þau að vera samtvinnuð öllum athöfnum hversdagslífsins, hvort sem það er í leik og starfi. Í því felst heilmikil áskorun því það getur verið meira en að segja það að takast á við og breyta hversdagslegum venjum sem hafa orðið til yfir langan tíma.

Hins vegar gæti komið á óvart hversu mikill ávinningurinn er af því að hafa umhverfisvernd í fyrirrúmi – ekki bara fyrir umhverfið sjálft heldur fáum við ótalmargt annað „í kaupbæti“. Þannig er ekki ólíklegt að fjárhagslegur, heilsufarslegur, samfélagslegur og/eða siðferðislegur ávinningur sé af umhverfisvænni lífsháttum.

Gott dæmi um þetta er matarsóun, sem var meginumræðuefnið á fróðlegum morgunverðarfundi sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið stóð fyrir í morgun. Þar var meðal annars rætt um orsakir og afleiðingar matarsóunar, hvað stýrir okkur sem neytendum og ýmsar aðgerðir sem ólíkir aðilar hafa ráðist í með það að markmiði að draga úr sóun matvæla. Í þeim efnum getum við öll lagt okkar lóð á vogarskálarnar.

Einstaklingar geta lagt sitt að mörkum með því að skipuleggja matarinnkaup betur, athuga dagsetningar og nýta matarafganga í stað þess að fleygja þeim.

Framleiðendur geta lagt sitt af mörkum með því að nýta hráefni til hins ítrasta og veitingahús og mötuneyti geta lagt sitt af mörkum með því að breyta matseðlum og skammtastærðum svo fátt eitt sé nefnt.

Samlegðaráhrifin af því að hætta að henda mat eru mikil. Það, að gæta betur að því hvað við kaupum og hverju við hendum leiðir af sér mikilvægan ávinning fyrir umhverfið og auðlindirnar því matvælaframleiðsla og flutningar valda verulegu umhverfisálagi á jörðina sem við byggjum.

Þar fyrir utan er fjárhagslegur ávinningur fyrir einstaklinga og samfélagið af því að hætta að sóa mat augljós en um leið er siðferðislega og samfélagslega rétt að henda ekki matvælum á sama tíma og fjöldi manna í heiminum sveltur.

Hjólreiðar eru annað dæmi um hvernig umhverfisvernd, heilsuefling og fjárhagslegur sparnaður fara saman – þegar umhverfisvænn samgöngumáti er notaður til að komast ókeypis á milli staða og rækta líkamann í leiðinni.

Þriðja atriðið sem vert er að nefna hér er dæmi um það hvernig hægt er að ráðast í aðgerðir sem hafa jákvæð og víðtæk áhrif á ólíkum stigum samfélagsins.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er rík áhersla lögð á aukna skógrækt, landgræðslu og  aðra eflingu gróðurlenda landsins og er í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þegar hafinn undirbúningur að því að hrinda þeim áformum í framkvæmd. Þótt meginmarkmið þessara áforma sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda kolefni er ávinningurinn mun margþættari.

Þannig stuðlar skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis ekki einungis að því að draga úr gróðurhúsaáhrifum heldur einnig að endurheimt vistkerfa, bindingu jarðvegs og líffræðilegrar fjölbreytni. Þá eru ótalin ýmis önnur mikilvæg áhrif, allt frá atvinnusköpun í heimahéraði til bættrar ímyndar landsins á alþjóðavettvangi.

Góðir gestir

Eins og ég nefndi hér á undan geta allir lagt sitt af mörkum og breytt háttum sínum í því skyni að lífshættir okkar verði betri og umhverfisvænni.

Þar eru fjölskyldurnar mikilvægir þátttakendur en á þeim vettvangi hefur reynslan sýnt að bestu verkstjórarnir eru ekki endilega þeir sem þar eiga að halda um stjórnartaumana heldur þvert á móti yngstu fjölskyldumeðlimirnir  – „litlu harðstjórarnir“ – börnin, sem gera æ ríkari kröfur á foreldra sína og annað heimilisfólk um að bæta ráð sitt í umhverfismálum .

Kannski ekki svo undarlegt í ljósi þess að þau munu erfa þessa jörð sem við reiðum okkur öll á til afkomu.  

Eftir að leik- og grunnskólar hafa aukið til muna umhverfisstarf sitt berast fregnir af því að þessir ungu varðliðar umhverfisins haldi foreldrum sínum stöðugt við efnið að flokka mjólkurfernur, skrúfa fyrir vatn þar sem það rennur að óþörfu og slökkva ljós þegar þess er ekki þörf.

Hvað ungur nemur gamall temur segir máltækið, og þannig veita krakkarnir foreldrum sínum ákveðna umhverfismenntun sem kannski var ekki eins ríkur þáttur í skólastarfi á árum áður.  Og smám saman verða umhverfisvænni lífshættir vonandi okkur eðlislægir og samtvinnaðir hversdagslegum athöfnum.

Á eftir veitum við einmitt grunnskólabörnum viðurkenninguna Varðliða umhverfisins, fyrir verkefni sem þau hafa unnið í skóla sínum um umhverfismál  og verður spennandi að heyra um viðfangsefni þeirra krakka sem hljóta viðurkenninguna í ár. Að auki mun fyrirtæki hljóta Kuðunginn fyrir framúrskarandi umhverfisstarf á síðasta ári, en þetta verður í 19. sinn sem viðurkenningin er afhent.

Það er mikilvægt að hampa því sem vel er gert á þeim vettvangi því fyrirtæki gegna lykilhlutverki í að stuðla að vistvænni framtíð okkar allra.

Hvort heldur er í framleiðsluháttum, orkusparnaði, framboði á vistvænum vörum eða með því að hafa áhrif á hugarfar og skoðanir fólks þá geta fyrirtæki lyft Grettistaki því umhverfisáhrif þeirra eru margföld á við umhverfisáhrif venjulegrar fjölskyldu.

Og jafn sjálfsagt og það á að vera fyrir einstaklinga að taka sínar hversdagslegu ákvarðanir með hagsmuni umhverfisins í huga þurfa vistvænir starfshættir sömuleiðis að verða hið eðlilega viðmið hjá fyrirtækjum.

Góðir gestir.

Það er skylda okkar allra – einstaklinga, fyrirtækja sem og stjórnvalda – að gera það sem í okkar valdi stendur til að draga úr neikvæðum áhrifum mannsins á umhverfið. Við eigum bara eina jörð og hún þarf að duga, ekki bara okkur sem byggjum hana þessa stundina heldur komandi kynslóðum um ókomna framtíð.

Dagurinn í dag – Dagur umhverfisins – minnir okkur á um hvaða verðmæti er að tefla og að það er í okkar höndum að varðveita þau. Til þess þarf bæði þor og vilja en með hvorutveggja í farteskinu er okkur ekkert að vanbúnaði.

Til hamingju með daginn. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta