Hoppa yfir valmynd
21.05.2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í Fréttablaðinu - Vistheimt gegn náttúruvá

Eftirfarandi grein Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 21. maí 2014.


Vistheimt gegn náttúruvá

 Í ár gegnir Ísland formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Formennskuáætlun Íslands ber  yfirskriftina „Gróska og lífskraftur“ og eru þessi hugtök grunngildin í stærstu formennskuverkefnum okkar.

Norræna lífhagkerfið er eitt þessara verkefna en það gengur út á að leita leiða til að nýta betur lífrænar auðlindir okkar og þannig draga úr sóun þeirra hráefna sem þær gefa af sér. Lífrænar auðlindir eru einfaldlega allar lifandi auðlindir sem gefa af sér hráefni á borð við fiskafla, beitilönd, landbúnaðarafurðir og skóga sem nýtt eru til verðmætasköpunar.

Tryggja þarf heilbrigði vistkerfanna til að þau geti staðið af sér það álag sem fylgir athöfnum jarðarbúa og náttúruhamförum af ýmsu tagi. Eitt þeirra verkefna sem ráðist hefur verið í undir yfirskrift Norræna lífhagkerfisins kallast „Vistheimt gegn náttúruvá“ (ERMOND) en það er leitt af Landgræðslu ríkisins og Veðurstofunni. Markmið þess er að greina á hvern hátt sé hægt að auka þanþol vistkerfa gegn náttúruvá. Þátttakendur í verkefninu eru stofnanir frá öllum Norðurlöndunum sem sinna náttúruvá og endurheimt vistkerfa.

Þetta verkefni er afar mikilvægt ekki síst í ljósi þess að árlega hafa náttúruhamfarir áhrif á líf og lífsafkomu um 200 milljóna jarðarbúa, tugþúsundir farast og eignatjón er gríðarlegt. Manntjón er mest í fátækari ríkjum heims, en í vestrænum ríkjum er tjón einnig tilfinnanlegt, s.s. vegna snjóflóða, storma, eldgosa og vatnsflóða.

Vaxandi áhugi er á að nýta betur getu vistkerfa til að draga úr náttúruvá. Vitað er að votlendi og óshólmasvæði draga mjög úr flóðahættu og skóglendi binda eldfjallaösku og hindra þannig að hún valdi spjöllum.

Skynsamleg nýting og uppbygging á lífauðlindum getur þannig stuðlað að því að draga úr náttúruvá, ef hún er skipulögð með það í huga.  Verkefninu „Vistheimt gegn náttúruvá“ er ætlað að stuðla að því að nýta þau tækifæri sem búa í norrænum vistkerfum til að draga úr náttúruvá.

Á Norðurlöndum er að finna mikið hugvit og skapandi hugsun og með norrænu samstarfi hafa Norðurlöndin sýnt svo ekki verður um villst að þau hafa allar forsendur til að vera í fararbroddi á mörgum sviðum. Markmiðið með formennskuáætlun Íslands og þeim verkefnum sem unnið er að innan ramma hennar er að styrkja stöðu Norðurlandanna enn frekar á þessu sviði.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta