Hoppa yfir valmynd
24.03.2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra - opnun Árs jarðvegs

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp við opnun dagskrár árs jarðvegs hér á landi þann 24. mars 2015. 

 

Ágætu skipuleggjendur, góðir gestir;

Ég þakka þann heiður að fá að ávarpa ykkur í dag við upphaf dagskrár vegna Alþjóðlegs árs jarðvegs. Það er mér sérstakt ánægjuefni að finna frumkvæði og gott skipulag þeirra sem standa að þessari dagskrá og það af þessu tilefni. Vil ég óska ykkur öllum til hamingju með það.

Að sumu leyti vildi ég fremur kalla þetta ár moldarinnar. Það hugtak skírskotar kannski til fleiri Íslendinga en jarðvegur. En kannski hljómar jarðvegsvernd betur en moldarvernd!

Það vel við hæfi að Sameinuðu þjóðirnar tileinki árið 2015 moldinni, en með því hvetja samtökin aðildarþjóðir sínar til að stuðla að vitundarvakningu á mikilvægi jarðvegsverndar.  Leggja þau áherslu á mikilvæg þess hvað varðar fæðuöryggi og leiðir til að draga úr loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Þessi áhersla Sameinuðu þjóðanna á jarðveg og margþætt hlutverk hans í heiminum þarf að vera okkur hvatning og því ber sérstaklega að fagna ykkar frumkvæði.

Góðir gestir;

Moldin var og er okkur Íslendingum mikilvæg líkt og öðrum. Um aldir snerist líf og velsæld þjóðarinnar um frjósemi moldarinnar og afrakstur hennar, hvort sem var til beitar eða ræktunar. Það er ekki tilviljun að yfir okkur flestum er sagt að leik loknum: af jörðu ertu komin, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu muntu aftur rísa. Málefni jarðvegs og moldarinnar er meira samofin okkar samfélagi og menningu en við kannski gerum okkur grein fyrir.    

Upphaf „Íslands minni“ sem Bjarni Thorarensen yrkir fyrir um 200 árum er jú ákall um mikilvægi moldarinar:

Eldgamla Ísafold,
ástkæra fósturmold,
Fjallkonan fríð!

Hér á landi hefur verið unnið að jarðvegsvernd í yfir 100 ár, enda ekki vanþörf á. Og á þessum árum hefur margt áunnist. Það er ekki langt síðan að heilu sveitirnar, bæði á Suðurlandi og í Þingeyjarsýslum stóðu frammi fyrir því að sandstormar og jarðvegseyðing ógnaði þeirra tilvist og allri búsetu. Það er hins vegar fyrir frumkvæði, þrautseigju og útsjónarsemi frumkvöðla í jarðvegsvernd hér á landi sem náðist að bjarga þessum sveitum. Það gekk ekki átakalaust en víst er að þar væri öðruvísi umhorfs í dag. Þessu tekst okkur samt oft að gleyma.

Það er ekkert mjög langt síðan Íslendingar töldu gróður- og jarðvegseyðingu stærsta umhverfisvandamál þjóðarinnar. Ég veit ekki hvort svo er enn í dag en dægurumræðan og þrasið bendir ekki til að svo sé. Hins vegar má ekki gleyma því að nánast öll umræða um umhverfismál snertir jarðvegsvernd. Framkvæmdir eins og virkjanir, vegagerð og verksmiðjur hefur áhrif á jarðveg, þó á afmörkuðu svæði sé. Umræða um náttúruvernd er oft nátengd jarðvegsvernd. Skógrækt getur verið mjög góð jarðvegsvernd. Og síðast en ekki síst er matarsóun nátengd jarðvegsvernd því eftir því sem við nýtum mat betur þá minnkum við álag á akra og beitilönd heimsins.

Ég held það sé rík ástæða til að vekja athygli íslensku þjóðarinnar á mikilvægi moldarinnar og að mold er ekki endurnýjanleg auðlind. Hún er það nefnilega ekki á mælikvarða mannsævinnar. Við þurfum að koma þeim viðhorfum inn hjá þjóðinni að við eigum að varðveita þann jarðveg sem við eigum og nýta hann af skynsemi. Þar er enginn undanskilinn.

Ennfremur þurfum við að auka meðvitund þjóðarinnar um mikilvægi þess að byggja upp þau svæði landsins þar sem jarðvegurinn er farinn. Við megum nefnilega aldrei gleyma því að stór hluti af gróðursnauðum auðnum okkar er ekki í sínu eðlilega ástandi. Þar var gróður. Við horfum t.d. á auðnirnar upp með Þjórsá í nágrenni Heklu þar sem vart var að finna stingandi strá fyrir fáum árum. Nú er verið að endurheimta birkiskóga svipaða þeim sem þar voru fyrir ekki svo löngu síðan. Þetta þurfum við að gera víðar. En til þess þurfum við að hafa skilning samfélagsins og með viðburðum eins og ári jarðvegs getum við aukið þann skilning. Í moldinni leynast líka ýmis mikilvæg tækifæri og má þar til dæmis nefna tækifæri í aukinni akuryrkjun sem við erum betur og betur að gera okkur grein fyrir.

Góðir gestir;

Við Íslendingar erum að gera marga góða hluti þegar kemur að því að breiða út þekkingu á mikilvægi jarðvegsverndar.

Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna hefur sýnt og sannað að þar er unnið gott starf við þjálfun fólks víða að úr heiminum á þessu sviði. Kennd eru landgræðslufræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Landgræðsla ríkisins vinnur að landgræðslu um allt land með sveitarfélögum, bændum og áhugafólki um allt land. Skógrækt víða um land stuðlar að því að jarðvegur byggist upp og nýtur verndar í skjóli trjánna. Fjölmargt áhugafólk tekur þátt í þeirri vinnu.

Við getum þó alltaf gert betur í þessu eins og öðru - og þurfum að gera betur - og eigum og nota ár jarðvegs 2015 til að minna okkur á það.

Ýmislegt er í gangi. Ég vil hér nefna að það stendur yfir vinna við endurskoðun laga um landgræðslu og laga um skógrækt. Við erum að kynna endurskoðuð lög um náttúruvernd. Þetta hefur allt mjög mikil tengsl við málefni jarðvegs, aukinnar jarðvegsverndar og bættrar umgjörðar hverskonar endurheimtar vistkerfa.Einnig er verið að leita leiða til að efla aðgerðir á þessu sviði.

Það verður áhugavert að fylgjast með þeim viðburðum sem efna á til á ári jarðvegs. 

Vonandi fer jörðin og moldin að þiðna og vorið og sumarið að koma. Ég held að eftir þennan um margt leiðinlega vetur geti margi hugsað svipað og skáldkonan Hulda orti í ljóðinu ágæta „Mold“.

Þú dökka, raka, mjúka mold,
sem mildi sólar hefur þítt.
Hve ann ég þér, hve óska ég mér,
að um þig streymi sumar nýtt.

Ég óska ykkur velfarnaðar í ykkar störfum og endurtek þakkir  til ykkar vegna þessa frumkvæðis. Megi þessi dagskrá öll takast sem best og verða okkur til leiðsagnar um aukna áherslu og betri skilning á málefnum moldarinar.    

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta