Hoppa yfir valmynd
20.04.2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á vorrástefnu FENÚR 2015

 

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi á varp á vorráðstefnu FENÚR sem haldin var 20. apríl 2015.

 

 

 

Ágætu ráðstefnugestir,

 

það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í dag á vorráðstefnu Fenúr.  Vorið er kærkomið.

 

Það léttir alltaf göngu á vetrarvegi
er vorið boðar komu sína á ný.
Og sólargangur lengist dag frá degi
dimman flýr og golan verður hlý.
(úr ljóðinu Vor við Seyðisfjörð eftir Þórunnu Sigurðardóttur)

 

Já vorið vekur kraft í huga okkar og vilja til góðra verka.  Við viljum sjá hlutinga gerast.  Já „vorið er komið víst á ný“, eins og segir í vísunni um spóann og lóuna.

 

Vorverkin eru merkileg, þau eru oft hvetjandi og fylla okkur von.

 

Á heimilium landsins er þessi tími oftar en ekki nýttur til að taka til hendinni innan dyra sem utan, laga til og bæta og um leið losa okkur við ýmislegt sem hefur lokið hlutverki sínu hjá okkur en nýtist öðrum. Við förum með þessa hluti og það sem fellur til við vorverkin í garðinum hjá okkur á endurvinnslustöðvar eða í grenndargám í hverfinu. Á þessum stöðum fær hinn almenni borgari smá innsýn í það gríðalega starf sem fylgir meðhöndlun úrgangs. Á gámastöðum eru merkingar og upplýsingar um hvernig eigi að aðgreina sorp og flokka. Það er þarft og gott starf sem FENÚR hefur sinnt á þessu sviði.

 

Hið almenna hlutverk FENÚR er ekki síðar, sem er að standa fyrir faglegri umræðu og miðlun upplýsinga um sorphirðu, endurvinnslu og málefnum tengdum þeim málaflokki. Vinna FENÚR hefur verið styrkur fyrir stjórnvöld og ber að þakka það starf sem FENÚR hefur innt af hendi. Kærar þakkir.

 

Þegar ég kom í ráðuneytið ákvað ég að góð umgengni mannsins við náttúruna og nýtni yrði mér leiðarljós í starfi.

 

Þetta á einnig vel við stjórn málaflokksins sem eiga að snúast um að bæta umgengni, sóa minna ásamt því að ganga betur um auðlindirnar. Lög um meðhöndlun úrgangs var breytt í þessa veru síðastliðið vor, þar sem ýmsar afurðir sem áður voru skilgreindar sem úrgangur teljast nú hráefni og því er hægt að endurvinna sláturúrgang, fiskúrgang, húsdýraskít, seyru, timbur, pappír og pappa.

 

Með lagabreytingunum voru sett ákvæði um að ráðherra gefi út almenna stefnu í málaflokknum þar sem fram komi stefna til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun sem og aðgerðir til að sporna við sóun. Þá er það þannig nú að ráðherra gefur ekki út sérstaka landsáætlun um meðhöndlun úrgangs heldur hafa svæðisáætlanir sveitarfélaga tekið við hlutverki hennar.

 

Ég tel það afar mikilvægt að sporna við almennri sóun, þar á meðal matarsóun. Ein albesta sparnaðaraðferðin er að henda sem minnstu af mat. Ef afgangar eru borðaðir fljótt eða frystir til síðari nota, fer buddan innan skamms að finna fyrir muninum. Mín kynslóð ólst upp við það að henda ekki neinu, ekki einu sinni brauðskorpu. Hugsið ykkur.

 

Við höfum verkefni að vinna að innræta komandi kynslóðum þessa miklu samfélagslegu ábyrgð. Þar þurfum við að koma inn nýrri og skapandi hugsun, sem um leið byggir á fortíðinni og reynslu fyrri kynslóða.

 

Núna á miðvikudaginn mun starfshópur sem er að fjalla um matarsóun skila skýrslu um sína vinnu. Hlutverk hópsins er leggja fram tillögur um hvernig auka megi fræðslu um matarsóun og benda á hvetjandi leiðir til að nýta hráefni betur.

 

Í skýrslunni er að finna tillögur um rannsóknir á matarsóun á Íslandi, fræðslu til neytenda og vitundarvakningu, geymslu og merkingu matvæla, framleiðslu, dreifingu og sölu matvæla og matarsóun í stóreldhúsum, veitingahúsum og mötuneytum.

 

Ávinningurinn af því að draga úr matarsóun er margvíslegur. Má þar nefna minni orkunotkun, minni losun gróðurhúsalofttegunda og minni notkun efna sem eru skaðleg heilsu og umhverfi. Ég mun leggja mitt af mörkum til að vinna markvisst áfram að þessu máli og stuðla að því að dregið verði úr sóun matvæla á öllum stigum, enda er um mjög mikilvægt mál að ræða.

 

Stöðugt rekstrar- og lagaumhverfi þarf að vera til staðar á sviði úrgangsmála. Fyrir hendi þarf að vera langtímastefna með skýrum markmiðum þar sem málaflokkurinn er í mikilli þróun og kallar á, í sumum tilvikum, fjárfestingar til lengri tíma.

 

Nefnd á vegum ráðuneytisinsvinnur nú að hugmyndum um heildarendurskoðun laga um meðhöndlun úrgangs. Sorpmál er grundvallarþjónusta sem þarf ávallt að vera til staðar. Áhersla er því lögð á að skýra ábyrgð innan málaflokksins, ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs, til að koma í veg fyrir ágreiningsmál og tryggja starfsfrið og stöðugleika til framtíðar.

 

Ágætu ráðstefnugestir.

 

Bjartar vonir vakna í vorsins ljúfa blæ segir í ljóðinu.

 

Ég vona að ráðstefnan verði fræðandi og uppbyggileg og hvatning til okkar allra til góðra verka á þessu sviði með björtum vonum um að eftir nokkur ár verðum við hætt að vinna að úrgangsmálum og að málaflokkurinn sem FENÚR vinni að verði alfarið á sviði auðlindanýtingar.

Góðar stundir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta