Hoppa yfir valmynd
22.04.2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á hátíðardagskrá Dags umhverfisins 2015

 

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á hátíðarsamkomu sem haldin var 22. apríl 2015 í tilefni Dags umhverfisins 2015.

 

 

 

„Tinda fjalla, 
áður alla 
undir snjá, 
sín til kallar sólin há;
leysir hjalla,
skín á skalla,
skýi sem að brá
og sér fleygði frá.“

 

Kæru gestir.

 

Það er vel við hæfi að efna til hátíðarhalda, vegna Dags umhverfisins sem er 25. apríl, á Degi jarðar og síðasta vetrardegi. Í ár er það kannski meira við hæfi en ella þar sem vorið og sumarið framundan vekur von um betri tíð með blóm í haga, eftir óvenju hraustlegan vetur.

 

Kannski var það slíkur vetur sem Jónas Hallgrímsson kvaddi með Vorvísu sinni sem hefst á þessu ákalli um að sólin vermi fjallatinda og leysi þá undan snjónum. Fjörleg lýsing höfuðskáldsins kallar fram mynd af toppi fjalls sem rekur beran skallann út í loftið, fegið að vera laust undan oki fannarinnar og er svo ákveðið að meira að segja skýin víkja sér undan.

 

Og smám saman breiðir vorið sig niður eftir fjallinu og á láglendið – „Snjórinn eyðist, gata greiðist, gumar þá – ef þeim leiðist – leggja á;“ og þannig færist vorgleðin yfir manneskjurnar sem nýta sér góðviðrið til útreiðartúra, útivistar og ferðalaga.

 

Ferðalög – eða öllu heldur ferðalangar – hafa einmitt verið í brennidepli með verulegri fjölgun þeirra hérlendis undanfarin misseri. Auknum fjölda ferðamanna fylgja miklar áskoranir, ekki síst á sviði umhverfis- og náttúruverndar en íslensk náttúra er efst á blaði yfir það sem laðar erlenda ferðamenn hingað til lands.

 

Vernd náttúrunnar er þó ekki aðeins mikilvæg náttúrunnar vegna.  Ferðamenn gera ráð fyrir ákveðnum náttúrugæðum og okkur ber að tryggja að ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra, bíði það sem þeir búast við að sjá og upplifa.

 

Þess vegna er mikilvægt að við látum hendur standa fram úr ermum, og byggjum upp og verndum vinsæl ferðamannasvæði með viðunandi hætti. Því miður hefur okkur ekki auðnast að fylgja eftir þessari miklu fjölgun ferðamanna eftir hvað varðar verndun náttúrunnar og er jafnvel talað um magndrifna ferðamennsku í því sambandi.

 

Má ef til vill velta því fyrir sér hvort að kominn sé tími til þess að hver og einn ferðamaður skilji meira eftir sig til uppbyggingar og verndunar náttúrunnar, s.s. í formi komugjalda. Brýnt er að kortleggja hvernig við viljum takast á við þetta aukna álag á landið okkar, við getum ekki leyft okkur að bíða lengur.

 

Ég hef því ákveðið að setja af stað vinnu í ráðuneytinu ásamt viðkomandi stofnunum um að móta stefnu og kortleggja bráðaaðgerðir til verndar náttúru og menningarminjum á vinsælum ferðamannasvæðum ásamt forgangsröðun þeirra.

 

Slík vinna tónar vel við það frumvarp sem ég hef mælt fyrir og er nú til umfjöllunar Alþingis um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar. Tilgangurinn með áætluninni er einmitt að koma í veg fyrir náttúruspjöll, tryggja nauðsynlegar lagfæringar, draga úr raski og dreifa álagi um leið og öryggi ferðamanna er tryggt.

 

Þegar grannt er skoðað snúast verndaraðgerðir og uppbygging á ferðamannastöðum í náttúru Íslands öðrum þræði um mál sem hafa verið mér hugleikin og þá sérstaklega eftir að ég settist í stól umhverfis- og auðlindaráðherra – það er að segja umgengni og nýtni.

 

Það dugar skammt að byggja upp góða palla, göngustíga og fullkomna aðstöðu ef menn ganga ekki um svæðin af virðingu, henda rusli á víðavangi eða traðka á viðkvæmum svæðum. Þar þurfum við öll, hver og eitt, að líta í eigin barm.

 

Góð umgengni snýst líka um að nýta hlutina vel – láta þá endast svo að sem minnst fari til spillis. Það endurspeglast meðal annars í auðlindum okkar sem þarf að nýta af skynsemi svo engu sé sóað. Aðeins þannig er hægt að tryggja sjálfbærni svo að þær kynslóðir sem á eftir okkur koma geti einnig nýtt sér þær til viðurværis og afkomu.

 

Nýtni þarf þannig að vera okkur leiðarljós á öllum vígstöðvum og eitt skýrasta dæmið um það er mikilvægi þess að sporna við sóun matvæla. Þar er gríðarstórt umhverfismál á ferð því áætlað er að um þriðjungur alls matar sem framleiddur er í heiminum fari til spillis – um 1,3 milljarður tonna árlega. Á sama tíma svelta milljónir manna heilu hungri.

 

Þetta ójafnvægi hefur stórfelld áhrif á umhverfið, m.a. vegna aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda, land- og vatnsnotkunar og ýmissar mengunar sem hlýst af matarframleiðslu.

 

Á Degi umhverfisins í fyrra efndi umhverfis- og auðlindaráðuneytið til málþings um matarsóun og í kjölfar þess var skipaður starfshópur sem fékk það verkefni að móta tillögur um hvernig draga mætti úr sóun matvæla hér á landi.

 

Starfshópurinn hefur nú lokið störfum og mun formaður hans hér á eftir kynna okkur helstu niðurstöður hópsins áður en ég fæ eintak af skýrslu hans í hendurnar. Það verður spennandi að kynna sér efni hennar og ber ég miklar væntingar til þess að þar sé gott og faglegt leiðarljós að finna varðandi mögulegar úrbætur varðandi þennan vanda hérlendis.

 

Í þessu ljósi er ekki síst ánægjulegt að þeir sem hljóta umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn hér á eftir hafa meðal annars gripið til markvissra aðgerða í sínu starfi í því skyni að draga úr matarsóun, með undraverðum árangri. En eins og flestir kannski vita er Kuðungurinn veittur fyrirtæki eða stofnun sem hefur skarað fram úr í umhverfisstarfi sínu á síðastliðnu ári. Það verður spennandi að sjá hver hlýtur gripinn að þessu sinni.

 

Góðir gestir.

 

Við vorum að tala um vorið hér í upphafi og Vorvísu Jónasar sem kunni öðrum mönnum fremur að lýsa samspili náttúru og manna með eftirminnilegum hætti:

 

„Grænkar stekkur,
glöð í brekku
ganga kná
börnin þekku bóli frá;“

 

Jónas vissi sem er að vorið er ekki síst árstíð barna og unglinga, sem í gegn um tíðina hafa notið þess að hlaupa um haga eða veltast í góðri brekku þegar sumarið fer á stjá. Það er ekki ólíklegt að sú hafi einmitt verið raunin hér rétt fyrir ofan, í Öskjuhlíðinni – að á fallegum degi hafi unga fólkið haldið á vit ævintýranna sem þar leyndust – og leynast enn.

 

Öskjuhlíðin hefur nefnilega verið í gegn um tíðina vettvangur fyrir alls kyns fyrirbæri, sem eru okkur Íslendingum dálítið framandi. Á þeim stað þar sem margir hér hafa eflaust skemmt sér við að kasta kúlum í átt að keilum voru áður stórfelldar sprengingar. Þar var gríðarmikil grjótnáma og var grjótið sprengt þar úr klettum og flutt í burt í stórum stíl til að nýta í hafnargarða við Reykjavíkurhöfn. Þannig nýttu forfeður þessa náttúruauðlind sem grjótið var til uppbyggingar til framtíðar. Og hvernig var það flutt? Jú, með járnbrautalest, annarri af tveimur sem starfræktar hafa verið hér á landi.

 

Og þótt við Íslendingar séum blessunarlega herlaus þjóð átti heimstyrjöldin síðari sitt aðsetur hér á landi, meðal annars í Öskjuhlíðinni. Hér byggðu breskir og amerískir hermenn margvísleg mannvirki, sem enn má finna leifar af: steypt skotbyrgi, víggrafir, loftvarnabyrgi, geymslur, og braggabústaði. Könnunarleiðangur um hlíðina á góðum degi er því upplagt tækifæri til að njóta náttúrunnar um leið og allar líkur eru á því að  maður rekist á spennandi minjar.

 

Svo má ekki gleyma því að í vestanverðri Öskjuhlíðinni má finna samansafn klettastalla sem skólapiltar í Lærða skólanum notuðu á 19. öld sem samkomustað – eins konar leynistað – þangað sem þeir fóru til að ráða fram úr mikilsverðum málum. Og kannski hafa þeir fengið innblástur eða orku úr náttúrunni þar í kring, hlíðinni og klettunum.

 

Leynifundir við klettavegg eru þó ekkert skilyrði fyrir því að fá innblástur frá Móður jörð. Um allt land er náttúran og umhverfið uppspretta endalausra uppgötvana grunnskólakrakka, sem endurspeglast í fjölbreytni þeirra umhverfisverkefna sem nemendur í 5. – 10. bekk senda árlega inn í verkefnasamkeppnina Varðliða umhverfisins. Hér á eftir fáum við að heyra hvaða skóli og hvaða nemendur hljóta þá útnefningu í ár.

 

Góðir gestir.

 

Þótt vissulega sé það gaman og heiður að fá að ávarpa ykkur hér úr pontu er nauðsynlegt að gera eins og veturinn og sleppa takinu – enda spennandi dagskrá framundan. Að lokum er tilhlýðilegt að láta Jónas vísa okkur leiðina á enda þessa spjalls með því að grípa niður þar sem fer að líða að lokum Vorvísunnar góðu:

 

Ekkert betra
eg í letri
inna má –
svo er vetri vikið frá; 

GLEÐILEGT SUMAR  

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta