Hoppa yfir valmynd
08.05.2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi VAFRÍ um fráveitulausnir á viðkvæmum svæðum

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á málþingi Vatns- og fráveitufélags Íslands um fráveitulausnir á viðkævmum svæðum, verndun Þingvallavatns sem haldið var 8. maí 2015.


Góðir gestir,

Ég vil byrja á að þakka Vatns- og fráveitufélagi Íslands fyrir að standa fyrir þessu málþingi. Málið er mér skylt, sem umhverfis- og auðlindaráðherra, en jafnframt sem formaður Þingvallanefndar. Málþingið kemur líka á góðum tíma, því nú stendur yfir heildstæð endurskoðun á fráveitureglugerð á vegum nefndar sem starfar á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Þar er reynt að einfalda og samræma reglur, en jafnframt að gæta þess að vel sé gengið um þá auðlind okkar sem felst í ferskvatninu og margir geta öfundað okkur af.

Þingvellir eru eitt helsta djásn okkar Íslendinga, hvort sem horft er til sögunnar eða náttúrufars. Þar var fyrsti þjóðgarður okkar stofnaður árið 1930, á þúsund ára afmæli Alþingis. Stofnun þjóðgarðsins miðaði ekki síst að því að varðveita sögusvið Alþingis, sem þar var stofnað 930 og er elsta þjóðþing sem enn er starfandi. Fegurð og sérstaða náttúrunnar var þó strax í upphafi nefnt til sögunnar sem ástæða til stofnunar þjóðgarðs og síðan hefur æ betur komið í ljós hversu merkileg náttúran er á Þingvallasvæðinu.

Þar er auðvitað ekki sísta perlan vatnið sjálft, stærsta stöðuvatn landsins, sem hefur að geyma merkilegt lífríki. Bleikjuafbrigðin fjögur eru nú skólabókardæmi í þróunarfræðum, svo maður tali ekki um ísaldarurriðann, sem betur fer hefur tekist að varðveita. Hið tæra lindarvatn sem streymir í vatnið telst undur í sjálfu sér. Gjáin Silfra er eftirsóttur áfangastaður kafara, en þar er vatnið svo tært og skyggnið svo gott að sumum finnst þeir fljúga frekar en synda þar og finna til lofthræðslu að sögn.

Gæta þarf að vatnsvernd við Þingvallavatn, vegna náttúrufræðilegrar sérstöðu þess og vegna þess að hluti þess er friðlýstur, sem þjóðgarður og heimsminjar.  Vatnasvið Þingvallavatns nýtur einnig verndar samkvæmt lögum. Hins vegar sækja Íslendingar jafnt sem útlendingar að vatninu og við viljum tryggja að svo megi verða áfram án þess að vatnið og lífríki þess bíði skaða af. Segja má að Þingvellir hafi þegar orðið fjölsóttur ferðamannastaður árið 930 á þeirra tíma vísu, eftir góða markaðssetningu hjá Grími geitskó.

Á goðaveldisöld (930 – 1262) þyrptust menn hvaðanæva á Þingvöll, oft þúsundum saman og á helmingi fleiri þúsundum hrossa. þá tóku Íslendingar sér orlof, fóru í sumarfrí fyrstir þjóða og áttu sér sumarbústaði á Þingvelli, og nefndust þeir búðir*. Þar var miðstöð þjóðlífsins, því að menn sátu þar ekki einungis með sveittan skalla yfir málaflækjum, heldur var þar einnig skemmti- og kaupstefnustaður.  Þangað komu iðnaðarmenn og kaupmenn, innlendir og erlendir, fulltrúar erlendra þjóðhöfðingja til þess að reka erindi þeirra við Íslendinga, einhleypingar í atvinnuleit og beiningamenn í leit að ölmusu.

    Vikurnar tvær á Þingvelli voru Íslendingar ekki sveitamenn, heldur borgarar á völlunum við Öxará. Þar kepptu þeir ekki einungis í lögvísi og málsóknum, heldur einnig í íþróttum, sagnaþulir skemmtu með sögum og kvæðum, ferðalangar sögðu tíðindi allt austan úr Palestínu og Miklagarði og vestur til Marklands á strönd hins tilvonandi Nýja heims, en yngismær og ungur sveinn komu til þess að sýna sig og sjá aðra. (Björn Þorsteinsson, Þingvallabókin, 1986, bls. 19)

Síðar varð Snorrabúð stekkur, en nú er aftur þröng á þingi, þegar yfir hálf milljón manna kemur að vatninu á ári hverju. Ljóst má vera að vakta þarf ástand vatnsins og setja þær reglur sem þarf til að tryggja að vatnið spillist ekki af sambúðinni við þjóðina og ferðamenn.

Góðir gestir,

Ég vil tryggja að reglur séu almennt skynsamlegar, byggi á þekkingu og rökum og gæti meðalhófs. Það gildir um vernd Þingvallavatns eins og annað. Margt er nefnt til sögunnar sem veldur álagi á vatnið og vistkerfi þess. Mengun getur borist í það með aðrennsli og úr lofti – frá fráveitum, frá áburðargjöf í landbúnaði og frá umferð nær og fjær. Fyrsta skrefið í reglusetningu hlýtur að vera að fá góða mynd af vandamálinu, greina álag og ógnir og meta ástand - og grípa svo til ráðstafana í ljósi þess mats, út frá því hvað gagnast best og er hagkvæmast hverju sinni.

 

Þingvallavatn hefur verið vaktað um nokkurt skeið, þannig að við höfum þokkalega mynd af ástandi þess og þróun mála. Þar hefur komið til samvinna Umhverfisstofnunar, Þjóðgarðsins á Þingvöllum, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar, sem hafa leitað til sérfróðra manna og stofnana til að mæla og vakta. og nýlega hafa nokkur sveitarfélög á svæðinu bæst í hópinn.  Ástæða er til að þakka þessum aðilum fyrir, en í niðurstöðum vöktunarinnar er að finna góðar og gagnlegar upplýsingar um ástand mála. Ég tel sérstaka ástæðu til að þakka Dr. Pétri M. Jónassyni, sem hefur unnið ómetanlegt starf við rannsóknir á Þingvallavatni. Vatnið hefur hlýnað á undanförnum árum, magn þörungasvifs aukist og styrkur næringarefna breyst.

Okkur vantar þó kannski fyllri mynd af orsökum allra breytinga og áhrifum þeirra á lífríki vatnsins. Við vitum að veðurfar fer hægt hlýnandi, þegar horft er til lengri tíma, en hvaðan koma til dæmis næringarefni í Þingvallavatn? Hve mikið frá fráveitum og hve mikið eftir öðrum leiðum? Við þekkjum helstu uppsprettur, en vitum ekki nógu vel hve mikið kemur frá hverri þeirra. Ég hef óskað eftir því að teknar verði saman fyrirliggjandi upplýsingar um innstreymi næringarefna í Þingvallavatn – og reyndar Mývatn líka – svo hægt sé að gera líkan af helstu uppsprettum og meta vægi þeirra. Mikið af upplýsingum liggja fyrir, en það þarf að draga þær betur saman og setja fram á skýran og einfaldan hátt, þannig að þær gagnist stjórnvöldum og öðrum sem þurfa að sýsla með málefni þessara tveggja merku stöðuvatna. Ég vonast til að þetta gagnist ekki síst í þeirri vinnu sem nú fer fram við endurskoðun fráveitureglugerðar.

Góðir gestir,

Það þurfa fleiri en stjórnvöld að koma að verndun vatnsgæða og lausnirnar eru ekki eingöngu fengnar með reglugerðum, þótt þær móti rammann um vernd og ábyrga nýtingu gæða. Þetta málþing er afar gott framtak og ég ítreka þakkir mínar fyrir það. Hér verður gefin mynd af stöðu mála og álagi á Þingvallavatn og fjallað um hlutverk sveitarfélaga, sem eru það stjórnvald sem mesta ábyrgð ber í fráveitumálum. Síðast en ekki síst verða skoðaðar lausnir í fráveitumálum og nýjar hugmyndir í þeim efnum. Við vanmetum líklega þann mikla auð sem liggur í gnótt ferskvatns hér á landi og í fjölbreyttu og verðmætu lífríki vatnsins, en það er kominn tími til að breyta því. Ég óska öllum hér ánægjulegrar og fróðlegrar stundar og tel víst að þetta málþing verði til að efla starf okkar að vatnsvernd og að finna góðar og skynsamlegar lausnir í þeim efnum.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta