Hoppa yfir valmynd
25.04.2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Degi umhverfisins 2016

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði gesti á hátíðarsamkomu á Degi umhverfisins 25. apríl 2016 með eftirfarandi orðum.


Góðir gestir – gleðilega hátíð.  

Vorið er góður tími. Við njótum þess hvernig náttúran vaknar smám saman og líf færist yfir borg og byggðir. Farfuglarnir tínast til landsins, dagurinn lengist og börn og fullorðnir nýta góðviðrisdaga til leikja, útivistar og garðverka. Þá er ekki síðra að bregða sér niður að strönd, anda að sér sjávarilminum og ef til vill fylgjast með sólarlaginu þegar himininn skartar sínu fegursta.

Slíkar minningar á ég margar héðan af Laugarnestanganum en ég bjó hér bæði í æsku og síðar á ævinni í Skipasundinu. Fastur liður hjá mér og dætrum mínum var að fara hingað á tangann til að njóta logandi litadýrðarinnar á heiðskýrum sólseturskvöldum. Það var sannkallaður unaður og skemmtun að anda að okkur fegurðinni um stund. Á eftir slíkum stundum fengum við okkur ís. Þannig má segja að þetta svæði hafi verið okkar land elds og ísa, þótt það hafi verið á annan veg en við þekkjum hjá erlendu ferðamönnunum, og þó var aðdráttaraflið sennilega engu síðra!

Vorið er líka uppskerutími, þótt okkur sé jafnan tamt að hugsa fremur um haustið á þeim nótum. Út um allt land nýtur fólk afraksturs vetrarins í vinnu, námsfólk útskrifast og uppsker einkunnir, tónlistarnemar bjóða til vortónleika og á vinnustöðum er lögð lokahönd á ýmis verkefni áður en haldið er út í sumarið.

Þegar ég horfi á liðinn vetur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu get ég ekki annað en verið þakklát fyrir góða uppskeru:

Efst á blaði er sú góða sátt og niðurstaða sem náðist við samþykkt náttúruverndarlaga á Alþingi í nóvember síðastliðinn eftir mikla vinnu. Það mál hafði verið lengi í vinnslu og var það virkilega stór áfangi.

Jafnframt var afar mikils virði að það tækist að skapa sátt milli ólíkra sjónarmiða og ná þverpólítískri samstöðu eftir áralangar deilur.

Einnig var mjög stórt skref stigið fyrr í vor þegar Alþingi samþykkti þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2015-2026. Samþykkt hennar markar tímamót í skipulagsmálum hér á landi enda er þar í fyrsta sinn sett fram heildstæð stefna um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra landnýtingu. 

Ég nefndi hér áðan erlendu ferðamennina og það mikla aðdráttarafl sem landið okkar og náttúran hefur. Við höfum síðast liðin misseri verið að glíma við fordæmalausar áskoranir tengdar mikilli fjölgun ferðamanna sem veldur álagi á náttúru og innviði landsins. Það er því ánægjulegt að rétt fyrir páska skyldi Alþingi samþykkja ný lög um innviði varðandi uppbyggingu til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Við erum að ráða verkefnisstjóra til að fylgja eftir ný samþykktum lögum sem snýr að forgangsröðun og hrinda í framkvæmd verkefnum. Einnig er brýnt að skilgreina ný ferðamannasvæði enda er náttúran frá fjöru til fjalla auðlind sem ber að vernda.

Í Hörpu kynnti verkefnisstjórn rammaáætlunar í mars, drög að lokaskýrslu þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar þar sem gerð er tillaga um flokkun 25 virkjunarkosta og svæða. Unnið er í fyrsta skipti eftir lagarammanum og hef ég lagt mikla áherslu á að þessi vinna gangi fram í þeim anda. Ég bíð spennt eftir 1.september þegar ég fæ tillögurnar í hendur.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur jafnframt haft verkaskiptingu stofnana sinna til skoðunar í vetur. Á undanförnum árum hefur ráðuneytið eflst og fengið aukin málasvið í hendur, því er rökrétt að endurskoða samsetningu stofnana þess.

Nýlega var mér skilað tillögum um aukið samstarf og samþættingu verkefna Umhverfisstofnunar og Landgræðslunnar. Tilgangurinn er meðal annars að samþætta framkvæmdir um innviði og úrbætur á ferðamannstöðum.

Starfsfólk beggja stofnana búa að dýrmætri þekkingu sem mikilvægt er að nýta í þeirri áskorun sem framundan er.

Góðir gestir.

Ég hef hér nefnt nokkur atriði sem standa upp úr í starfi ráðuneytisins innanlands í vetur. Umhverfismálin eru mál málanna á erlendri grundu. Ég var að koma frá New York í gær og voru magnaðir dagarnir um Heimsmarkmiðin og Parísarsamkomulagið.

Aldrei hafa fleiri skrifað undir alþjóðlegan samning og var það sannkölluð hátíðarstund – stund vonar og loforða um breytta hegðun. Fyrir mig var það mikill heiður að fá að að undirrita samninginn fyrir hönd Íslands ásamt þjóðarleiðtogum og ráðherrum frá flestum ríkjum heims. Eftirminnilegast var þó sennilegast sendiherrar ungu kynslóðarinnar þegar eitt barn frá hverju landi kom inn í fundarsal Sameinuðu þjóðanna.

Við Íslendingar áttum glaðlegan og fallegan fulltrúa, hann Tómas Jónsson.

Óhætt er að segja að Parísarsamningurinn, sem náðist þann 12.12., eigi eftir að marka upphaf nýrrar heimsmyndar þar sem sjálfbærni náttúruauðlinda verður leiðarljós mannkyns. Til að fylgja eftir áformum Íslands kynnti ríkisstjórnin sóknaráætlun til þriggja ára, sem er ætlað að skerpa á áherslum Íslands í loftslagsmálum. Sóknaráætlunin samanstendur af 16 verkefnum sem miða að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum. En mikilvægast er að örva og virkja samfélagið, fyrirtæki sem og einstaklinga til þátttöku og aukinnar vitundar. 

Í síðustu viku undirritaði ég ásamt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formanni Bændasamtakanna samkomulag um gerð vegvísis um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði.

Það er ánægjulegt að skynja hvað fólk er farið að hugsa meira um hegðun sína með tilliti til umhverfismála, enda snúast þau um betri nýtni og góða umgengni allra. Hegðun okkar dagsdaglega skiptir máli hvort sem hún lýtur að vali á fatnaði, matarsóun, orkunotkun eða samgöngum sem allt hefur áhrif á vistsporið.

Í þeim efnum er mikilvægt að hafa góðar fyrirmyndir og hér á eftir munum við einmitt heyra af einni slíkri um fyrirtæki, sem hefur verið til fyrirmyndar í umhverfismálum, fær afhenta umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn fyrir árið 2015.

Þá má aldrei gleyma því hvers vegna við þurfum að vernda umhverfið og náttúruna – það er svo að jörðin haldi áfram að vera lífvænleg fyrir börnin okkar og þær kynslóðir sem á eftir okkur koma, um aldur og ævi. Það er því ánægjulegt að fá tækifæri til að heyra rödd framtíðarfólksins og hampa sýn þess á umhverfismál en á eftir hljóta grunnskólanemendur einmitt viðurkenningu og útnefninguna Varðliðar umhverfisins fyrir verkefni á sviði umhverfismála.

Góðir gestir.

Þótt verkefnin á sviði umhverfismála virðist á stundum vera ærin má ekki gleymast að víða vinnur gott fólk hörðum höndum að því að finna nýjar lausnir og úrræði til að skapa okkur öllum betri heim til framtíðar. Ég hef hér tæpt á nokkrum þeirra góðu verkefna sem mitt ráðuneyti og samstarfsfólk hefur unnið að á undanförum mánuðum og misserum og við erum hvergi nærri hætt. Ég er sannfærð um að framundan séu bjartir tímar, ekki bara vegna hækkandi sólar, heldur einnig í umhverfismálunum og landsmálunum öllum. Ég geng því léttstíg út í vorið, sólina og sumarið.

Takk fyrir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta