Hoppa yfir valmynd
29.04.2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Umhverfisstofnunar 2016

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Umhverfisstofnunar sem haldinn var 29. apríl 2016.

 

Ágætu ársfundargestir.

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur hér í dag, þegar vorið og sumarið er framundan sem vekur birtu og bjartsýni og er hvetjandi til góðra verka.

Á þessum ársfundi er kastljósinu beint að því hvaða áskoranir við þurfum að takast á við til að búa til grænt samfélag til framtíðar og þar með græna ferðamannastaði. Þar er af nógu að taka. Spennandi tækifæri eru framundan til að virkja kraft nýsköpunar og til að skapa græn störf. Við viljum hafa framtíðina græna og þurfa fjárfestar í auknum mæli að koma að borðinu til að taka þátt í þeirri þróun svo einstaklingar, ríkið og atvinnulífið geti lagt meira af mörkum til umhverfismála.

Umhverfismál snúast öðru fremur um betri nýtni og umgengni og er ánægjulegt að skynja hvað fólk er farið að hugsa meira um hegðun sína með tilliti til þeirra. Hegðun okkar dagsdaglega skiptir máli hvort sem hún lýtur að vali á fatnaði, matarsóun, orkunotkun eða samgöngum sem allt hefur áhrif á vistsporið.

Þessu tengt var nýverið sett fyrsta almenna stefnan, sem ber heitið Saman gegn sóun. Hún fjallar um hvernig við getum nýtt auðlindir okkar sem best og tengist jafntframt kjörorðum mínum - betri nýtni og góð umgengni. Með réttu hugarfari getum við tileinkað okkur að endurnýta hluti og sporna við sóun svo að sem minnst fari til spillis. Í stefnunni góðu, sem gildir til 12 ára, er sérstök áhersla lögð á níu flokka, en matvæli, plast og textíll verða í forgangi tvö ár í senn.

Sérstök áhersla er á matarsóun nú í ár og næsta ári. Það er einkar ánægjulegt að Umhverfisstofnun sé að undirbúa fyrstu rannsóknina á matarsóun á Íslandi og opnað nýja vefgátt matarsóun.is.

Brýnt er að kortleggja vandamálið og virkja allt samfélagið með festu svo árangur náist. Til mikils er að vinna.

Áhersla á minni plastnotkun verður síðan frá árinu 2018, textíl frá 2020, raftæki frá 2022, og síðan grænar byggingar og pappír. Grænar byggingar finnst mér afar spennandi og myndi gjarnan vilja fræðast meira um þær. Ég kalla því eftir meiri umræðu um þau mál. Vel að merkja – torfbærinn okkar var sannarlega grænn og umhverfisvænn byggingarstíll. Efnið úr umhverfinu.

Ég hef mikinn áhuga á að minnka plastnotkun almennt og bíð með mikilli eftirvæntingu eftir tillögum 1. júní, frá starfshópi, um hvernig hægt sé að minnka notkun plastpoka. Í beinu framhaldi ætla ég að kalla eftir tillögum um hvernig hægt er að minnka plastnotkun almennt. Af nógu er að taka.

Fræðsla um forvarnir gegn sóun þarf að haldast í hendur við sett markmið stefnunnar og hefur t.d. verið útbúið skemmtilegt námsefni fyrir miðstig grunnskóla til að unga fólkið geti strax farið að skapa grænt samfélag.

Það er ánægjulegt að fá að vinna við umhverfismálin sem eru mál málanna hvort sem er hér á landi eða á erlendri grundu. Ég var í New York í síðustu viku og það voru magnaðir dagarnir þegar fundað var um Heimsmarkmiðin og Parísarsamkomulagið. Aldrei hafa fulltrúar fleiri þjóða skrifað undir alþjóðlegan samning og var það sannkölluð hátíðarstund - stund vonar og loforða um breytta hegðun.

Miklu skiptir að fylgja samningum vel og ákveðið eftir. Ríkisstjórnin hefur kynnt og gengið fram með góðu fordæmi og hrint af stað 16 fjölbreyttum verkefnum til þriggja ára. Til að vel megi takast og standa undir væntingum þeirra kynslóða sem á eftir koma, er þó mikilvægast að örva og virkja allt samfélagið, fyrirtæki sem og einstaklinga til þátttöku og aukinnar vitundar.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru kynnt í New York og munu áherslur Íslands snúa öðru fremur að átaki gegn matarsóun, loftslagsvænni orku (orkuskiptum) landgræðslu og baráttu fyrir jafnrétti kynjanna.

Fyrir mér er það einstaklega ánægjulegt að jafnréttismálin séu sett í forgang, en rétt eins og með umhverfismálin þá varða þau allar ákvarðanatökur. Frá því að ég byrjaði að starfa í pólitík, fyrir tæpri hálfri öld síðan, hef ég þurft að berjast í jafnréttismálunum, innan flokks sem utan. Sú barátta heldur áfram þó margir sigrar séu þegar í höfn.

Góðir gestir,

Ég hef hér nefnt nokkur verkefni sem unnið er að– en mörg fleiri eru í farvatninu.

Við lítum svo á að vorið sé uppskerutími - reyndar á annan hátt en á haustin. Unga fólkið okkar er að útskrifast og uppskera einkunnir frá margvíslegum skólastofnunum og efnt er til skemmtana. 

Ráðuneytið og stofnanir þess eru að leggja lokahönd á ýmis verkefni áður en starfsfólkið heldur á vit við sumarið.

Nýlega setti ég af stað undirbúning að friðlýsingu Kerlingarfjalla og stendur sú vinna yfir í fullum gangi, í Umhverfisstofnun, með það að markmiði að friðlýsa þá stórbrotnu náttúru sem þar er að finna með, sjálfbærni að leiðarljósi. Stefnt er að undirskrift friðlýsingar um miðjan júní. Innan Kerlingarfjallasvæðisins eru fjögur svæði í verndarflokki rammaáætlunar en það nýtur vaxandi vinsælda fyrir hvers konar útivist og ferðamennsku.

Af öðrum áföngum í okkar starfi þá náðist góð sátt og niðurstaða þegar ný náttúruverndarlög voru samþykkt eftir mikla vinnu. Með nýju lögum er ykkur, starfsfólki Umhverfisstofnunar, færð rík ábyrgð á mörgum sviðum.

Samþykkt Alþingis á landskipulagsstefnu til ársins 2026 markar tímamót í skipulagsmálum þar sem horft er til lengri tíma í samgöngum, byggðamálum, náttúruvernd og orkunýtingu.

Þá bind ég miklar vonir við ný lög um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Lögin veita okkur svigrúm til þess að setja meiri kraft í framkvæmdir og til að hafa skýrari yfirsýn. Verið er að ráða verkefnisstjóra til verksins. Fulltrúar þriggja ráðuneyta sem og sveitarfélaga sitja í verkefnisstjórninni og gera tillögur um verkefni og forgangsröðun framkvæmda. Þá er brýnt að skilgreina betur hvað er ferðamannasvæði enda er náttúran frá fjöru til fjalla á Íslandi, einstök auðlind sem ber að vinna með af virðingu og alúð.

Í lok vetrar fékk í hendur ágæta vinnu um hvernig styrkja mætti gott samstarf enn betur á milli Umhverfisstofnunar og Landgræðslunnar . Sameiginlegir snertifletir eru margir og starfsfólk beggja stofnana búa að dýrmætri þekkingu sem mikilvægt er að nýta í þeirri vegferð sem framundan er við að gæta að gæðum landsins. Öllum er ljóst að við sem erum varðliðar umhverfisins stöndum frammi fyrir nánast óþekktum áskorunum, sem er hinn sívaxandi fjöldi ferðamanna. Ég bind því miklar vonir við samþættingu verkefna stofnanna, þannig að við getum gengið hratt og öruggt til verka. Bæði Landgræðslan og Umhverfisstofnun eru með starfsstöðvar víða um land og ef samstarf þeirra getur eflt mátt og getu þeirra vítt og breitt um landið  - er það stórkostlegur ávinningur.

Þessu tengt og að dreifingu ferðamannasvæða víðs vegar um landið þá horfi ég til þjóðgarðsins á Snæfellsnesi sem er í umsjón Umhverfisstofnunar.

Fyrir meira en 40 árum ályktaði Eysteinn Jónsson um stofnun þjóðgarðs sem bar heitið „Þjóðgarður undir Jökli. Á undanförnum árum hefur starfsemin tekið stakkaskiptum en þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður fyrir 15 árum síðan til að vernda bæði sérstæða náttúru og mjög merkar sögulegar minjar.

Góðir gestir!

Ég flyt ykkur gleðitíðindi.

Hin langþráða bygging gestastofu í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi - á Hellissandi - er komin inn í fjárhagsáætlun ríkisstjórnar, alls um 300 m.kr. Við hefjumst handa strax. Þetta verður mikil búbót og bylting fyrir þjóðgarðinn og fyrir Snæfellsnes og eykur án efa aðdráttarafl svæðisins til muna.

Landvarsla verður efld víða um land í takt við mikla þörf og er aukning upp á um 20%, sem verður veitt í landvörslu fyrir árið 2016. Verkefnin eru ærin og til að bæta öryggi þeirra sem sækja okkur heim verður landvarsla styrkt enn frekar við Mývatn, að Fjallabaki og á Hornströndum svo fátt eitt sé nefnt.

Góðir ársfundargestir.

Ég vil þakka starfsfólki Umhverfisstofnunar fyrir vel unnin störf á liðnu ári. Ég hef fengið að kynnast því að hjá Umhverfisstofnun starfar fólk sem hefur metnað í sínum störfum og gleði og það er alltaf ánægjulegt og farsælt þegar við höfum gaman í vinnunni.

Ég óska ykkur alls velfarnaðar í störfum ykkar við að efla grænt samfélag til framtíðar og þá umgjörð sem við búum ferðamönnum um land allt, hvort sem um er að ræða okkur Íslendinga sem ferðumst um landið okkar eða þá erlendu gesti sem við bjóðum velkomna til að njóta umhverfisins með okkur.

Kærar þakkir.


 


 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta