Hoppa yfir valmynd
27.06.2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra - friðlýsing Glerárdals

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp við undirritun friðlýsingar Glerárdals á Akureyri sem fólkvangs 6. júní 2016.


Ágætu Akureyringar, góðir gestir,

Það er mér sönn ánægja og heiður að taka þátt í þessum viðburði hér í dag og staðfesta friðlýsingu Glerárdals hér við Akureyri sem fólkvangs.

Í tilefni 150 ára afmælis Akureyrarbæjar árið 2012 var ákveðið að hefja vinnu við friðlýsingu Glerárdals sem fólkvangs, en á hátíðarfundinum í Hofi samþykkti bæjarstjórn það með 11 samhljóða atkvæðum að stefnt skuli að því að hluti Glerárdals verði skilgreindur sem fólkvangur í samræmi við lög um náttúruvernd. Síðan þá hefur undirbúningur þessa staðið og er afar ánægjulegt að vera komin hingað í dag til þessa viðburðar. Til hamingju með þann metnað ágætu Akureyringar.

Náttúruverndarmál eru í mikilli deiglu um þessar mundir. Skammt er síðan farsæl niðurstaða náðist í endurskoðun náttúruverndarlaga á Alþingi, en þau tóku gildi í nóvember síðastliðinn. Þessi friðlýsing hér á Akureyri í dag er því fyrsta friðlýsingin eftir gildistöku laganna.

Það er jafnframt ánægjulegt að sveitarfélög láti til sín taka í náttúruverndarmálaum, líkt og þið Akureyringar gerið hér í dag. Markmið með stofnun fólkvangsins er að vernda Glerárdal og aðliggjandi fjalllendi til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess land fyrir raski sem er lítt snortið með fjölbreyttum jarðmyndunum og gróðurfari, og er þannig stuðlað að varðveislu hverskonar fjölbreytileika lífs og lands sem þar finnst til framtíðar.

Talandi um frumkvæði og áhuga sveitarstjórnarmanna á friðlýsingum þá er gaman að segja frá því að friðlýsing í Kerlingarfjöllum er fyrirhuguð nú í júní, en þar skynjaði ég mikinn samhljóm hjá sveitarstjórnarmönnum að slík vinna yrði sett af stað.

Markmið friðlýsingarinnar er að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi í allri nýtingu, stjórnun, framtíðarskipulagningu og rekstri innan svæðisins og efla sem útivistarsvæði.
Innan Kerlingarfjallasvæðisins eru fjögur svæði í verndarflokki rammaáætlunar og verður þetta í fyrsta skipti sem friðlýst er samkvæmt verndaráætlun rammaáætlunar.

En aftur hingað til Akureyrar..

Akureyri er sannarlega bæjarfélag sem er vel í sveit sett hvað varðar möguleika fólks til hverskonar útivistar. Þar má nefna Kjarnaskóg og Hlíðarfjall sem dæmi um landsþekkt útivistiarsvæði sem leggja mikið til lífsgæða íbúa hér, en eru jafnframt fjölsótt svæði af landsmönnum öllum. Glerárdalssvæðið, sem er verið að friðlýsa sem fólkvang í dag, er jafnframt magnað útivistarsvæði og náttúrundur með sínu fjölbreytta náttúrufari og háu fjöllum – skilst þar sé að finna sjálfa „Kerlingu“ – sem er hæsta fjall eða tindur Tröllaskagans rúmlega 1500 m hátt og ótal fjöll önnur.

Með þessum gjörningi hér í dag er verið að treysta það í sessi að þessi mikilfenglega náttúra hér í bakgarði ykkar Akureyringa verði gerð að aðgengilegu útivistarsvæði fyrir bæjarbúa og landsmenn alla. 

Ég óska Akureyringum til hamingju með þennan áfanga og öllum landmönnum til hamingju með stofnun fólkvangs í Glerárdal. Þetta er framfaraskref sem mun verða okkur öllum og komandi kynslóðum til ánægju og framdráttar. 

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta