Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþinginu „Þjóðgarður á leið til framtíðar“
Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á málþingi um þjóðgarðinn Snæfellsjökul sem haldið var á Hellissandi 12. ágúst 2016.
Ágætu Snæfellingar, góðir gestir;
Það er mér sönn ánægja og heiður að fá að ávarpa ykkur hér á þessu málþingi.
Það var jafnframt afar ánægjulegt að taka fyrstu skóflustunguna að nýrri þjóðgarðsmiðstöð hér áðan, sem sannarlega á eftir að verða mikil lyftistöng, ekki bara fyrir þjóðgarðinn heldur fyrir allt svæðið hér undir Jökli.
Ég var hér á hátíðinni um árið þegar þjóðgarðurinn var stofnaður – kem nú hér til að taka skóflustunguna að þjóðgarðsmiðstöðinni - og hlakka því til að koma hér þegar þjóðgarðsmiðstöðin verður opnuð!
Stofnun þjóðgarðs hér á Snæfellsnesi átti sér langan aðdraganda og leiddi Eysteinn Jónsson fyrstur manna umræðuna fyrir meira en 40 árum síðan þegar ályktað var um stofnun þjóðgarðs sem bæri heitið „Þjóðgarður undir Jökli“.
Það var svo þann 28. júní árið 2001 sem þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var formlega stofnaður á grundvelli náttúruverndarlaga þann 28. júní árið 2001 eftir baráttu margar öflugra aðila. Í því samhengi kemur kannski Skúli heitinn Alexandersson fyrstur uppí hugann.
Stofnun þjóðgarðsins var í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og mjög merkar sögulegar minjar, auk þess að stuðla að og auðvelda fólki að ferðast um svæðið og kynnast því.
Á undanförnum árum hefur auðvitað orðið mikil breyting á starfsemi hér vegna mikillar og sívaxandi aukningar ferðamanna. Það er mikilvægt að halda áfram að bæta aðstöðuna í þjóðgarðinum Snæfellsjökli, líkt og á öðrum svæðum í landinu.
Bæði til að treysta umsjón og aðstöðu í þjóðgarðinum, en líka til að geta betur tekið á móti og þjónustað hinn sívaxandi fjölda gesta sem heimsækir svæðið allt árið. Það var því ánægjulegt að í vor var landvarsla aukin í landinu til að tryggja betur vernd náttúru, sjálfbæra nýtingu og öryggi ferðamanna.
Einnig vil ég nefna það hér, að vinna við innleiðingu nýrra laga um uppbyggingu á ferðaþjónustusvæðum vegna álags til að vernda náttúru- og menningarsögulegar minjar, er komin vel af stað.
Það er vel við hæfi að fjalla um það hér þar sem þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er sannarlega ríkur af bæði náttúru- og menningarminjum. Hyggst ég leggja fram bráðabirgðaáætlun um slíka uppbyggingu á næsta ári nú í haust, eins og lögin kveða á um.
Snæfellsnes er allt mikil náttúruperla og auðvitað er alveg einstök fegurð og saga hér yst á nesinu „þar sem jökulinn ber við loft“ eins og Nóbelsskáldið okkar lýsti svo vel.
Þetta stórkostlega svæði býður upp á fjölbreytta möguleika til útivistar og ferðaþjónustu. Það er brýnt að huga tímanlega vel að skipulagi til að dreifa ferðamannastraumnum með spennandi ferðamannaleiðum og byggja upp nauðsynlega innviði til verndar náttúrunni.
Mikið og gott starf hefur verið unnið hér á Snæfellsnesi, ferðamannastöðum hefur fjölgað sem stuðlar að bættri þjónustu og dreifir álagi. Hér á Snæfellsnesi er mikil saga sem við þurfum að varðveita og miðla. Ferðamenn sem hingað koma vilja sjá, nema og heyra um okkar sérstöðu.
Hér er jafnframt áhugavert að halda áfram að þróa nýjar gönguleiðir um svæðið til kynna náttúru og menningu svæðisins allt í kringum Jökulinn. Ég tel að við höfum mýmörg tækifæri til að koma á framfæri sögunni um leið og fólk upplifir náttúruna. Það er einnig áhugavert að velta fyrir sér hvernig við getum sem best miðlað upplýsingum um alla þá sögu sem hér liggur undir hverjum steini.
Ég vil leggja það inní umræðuna hér á málþinginu um þjóðgarðinn til framtíðar – hvernig hægt sé efla miðlun og fræðslu til fólks um hina löngu og miklu sögu sem tengist þessu svæði.
Fyrir nokkrum vikum var ég hér við opnun gestastofu þjóðgarðsins á Malarrifi. Þar er góð kynning á náttúru og sögu, búsetu á bæjum og í verbúðum, dulmögnun jökulsins og krafti. Það er afar áhugaverð sýning og hvet ég ykkur til að skoða og njóta sýningarinnar.
Það fer vel á því að geta á sama sumrinu opnað sýninguna á Malarrifi og tekið skóflustungu að þjóðgarðsmiðstöðinni hér á Hellissandi.
Ágætu gestir;
Það er ánægjulegt að finna gott samstarf Umhverfisstofnunar og Snæfellsbæjar um starfsemi þjóðgarðisins og vil ég þakka fyrir það. Það skiptir miklu máli að gott samstarf sé við stjórnvöld heima í héraði um rekstur og umsjón þjóðgarða og friðlýstra svæða.
Ég vona að hér eigi eftir að verða líflegar og gagnlegar umræður um þjóðgarðinn og þau miklu tækifæri sem hér eru til framtíðar. Ég óska ykkur alls velfarnaðar og segi þessa málstofu setta.