Ávarp á málþingi ÖBÍ um algilda hönnun
Þórunn Pétursdóttir aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp f.h. ráðherra á málþingi Öryrkjabandalags Íslands og fleiri aðila um algilda hönnun í almenningsrými – í borgum, bæjum og á ferðamannastöðum sem haldið var 10. mars 2017 og bar yfirskriftina Er leiðin greið?
Góðir gestir,
Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa þetta málþing um algilda hönnun í almenningsrými – í borgum, bæjum og á ferðamannastöðum.
Hjarta mitt sem einstaklings og sem umhverfis- og auðlindaráðherra slær með að tryggja réttindi fatlaðs fólks og ég og félagar mínir í Bjartri framtíð höfum og munum áfram fylgja málefnum fatlaðra ötullega eftir.
Í 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins. Þó íslensk stjórnvöld séu því miður ekki búin að lögfesta samninginn þá liggur fyrir tillaga að þingsályktun frá félags- og jafnréttismálaráðherra um framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks 2017–2021 sem verður tekin fyrir nú á vorþingi. Þetta horfir því allt til betri vegar trúi ég.
Hugtakið algild hönnun hefur fest sig í sessi sem hluti af byggingar- og skipulagsforsendum okkar, ekki síst hvað varðar aðgengismál. Í markmiðum mannvirkjalaga frá 2010 kemur fram að tryggja skuli aðgengi fyrir alla. Lögin gilda um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofanjarðar eða neðan, og í sjó umhverfis landið. Í byggingarreglugerð frá 2012 eru síðan settar fram nánari útfærslur varðandi lágmarkskröfur til mannvirkjagerðar. Mannvirki eiga að vera gerð þannig að þau henti öllum. Áherslur algildrar hönnunnar eru því ekki aðeins á aðgengi fyrir fatlað fólk sérstaklega, heldur að komið sé til móts við alla þá sem af einhverjum ástæðum þurfa bætt aðgengi.
Mig langar að fjalla hér sérstaklega um algilda hönnun út frá aðgengi á ferðamannastöðum á Íslandi. Það er alveg ljóst að stóraukin fjöldi ferðamanna til landsins setur vaxandi kröfur um bætt aðgengi. Þarfir gesta okkar eiga bara eftir að aukast því hópurinn sem sækir okkur heim verður æ fjölbreyttari. Þetta á að sjálfsögðu ekki bara við um erlenda gesti því við gerum sömu kröfur sem ferðamenn af ýmsum toga í eigin landi – að geta skoðað helstu náttúruperlur okkar án teljandi vandkvæða.
Nýleg lög um náttúruvernd tiltaka sérstaklega mikilvægi algildrar hönnunar innan friðlýstra svæða og í stjórnunar- og verndaráætlun þeirra þarf að koma sérstaklega fram hvernig eigi að byggja innviði svæðanna með það að markmiði að tryggja aðgengi fyrir alla.
Í grein 6.1.3. í byggingarreglugerð kemur þó fram að heimilt sé að víkja frá kröfunni um algilda hönnun þar sem aðstæður eru þannig að krafan á ekki rétt á sér, út frá til að mynda náttúruverndarsjónarmiðum. Undanþágur munu þó aðeins fást ef forsendur þeirra eru ítarlega rökstuddar í hönnunargögnum.
Náttúran verður nefnilega að fá að njóta vafans í sumum tilfellum í þessu rétt eins og hvað varðar aðra innviðauppbyggingu, svo sem nýjar raflínur eða vegagerð. Sum svæði sem ferðamenn vilja heimsækja eru þess eðlis að aðgengi að þeim verður alltaf takmarkað og jafnvel ekki mögulegt nema úr fjarlægð.
Því er mikilvægt að skilgreina þá viðkomustaði á helstu ferðamanna-stöðum landsins sem við viljum að uppfylli allar kröfur um algilda hönnun og byggja þá upp í samræmi við það.
Í starfi verkefnisstjórnar landsáætlunar um uppbyggingu innviða er gengið út frá því að framkvæmdir fjármagnaðar í gegnum áætlunina þurfi að vera í samræmi við viðeigandi lög og reglugerðir sem um þær kunna að gilda, eins og til að mynda hvað varðar aðgengismál. Vert er að nefna að þessar vikurnar er verið að útfæra nánar hvaða kröfur skuli gera varðandi hönnun verndarinnviða í landsáætluninni og hvort gengið verði skrefinu lengra en að uppfylla það sem fram kemur í lögunum um hönnun mannvirkja.
Í því samhengi er gaman að nefna að Snæfellsstofa, gestastofa Austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs er fyrsta vottaða vistvæna bygging landsins. Hún er byggð samkvæmt BREEAM (Brím) umhverfisstaðlinum sem eins og þið eflaust vitið gerir kröfur um notkun á vistvænum byggingarefnum og byggingaraðferðum, minni orkunotkun, meiri endingu og minna viðhaldi, til að stuðla að vistvænum byggingum og umhverfi. Við byggingu Snæfellsstofu voru m.a. notuð byggingarefni úr nánasta umhverfi, lerki, gras á þakið og hleðslur úr heimafengnu grjóti.
Auk þeirrar leiðsagnar sem bundin er í lög hefur Ferðamálastofa, til að mynda, lagt talverða áherslu á gerð upplýsingaefnis um algilda hönnun og aðgengismál. Þar má til dæmis benda á ritið „Ferðaþjónusta fyrir alla - Flokkunarviðmið fyrir aðgengi að áningar- og útivistarsvæðum á Íslandi“ frá árinu 2007 auk leiðbeiningarita um hönnun þjónustuhúsa, fyrirkomulag staða, öryggi á ferðamannastöðum, og hönnunarstaðal fyrir merkingar. Til viðbótar má nefna Menningarstefnu um mannvirkjagerð sem mennta- og menningarmála- ráðuneytið gaf út árið 2014. Í henni kemur meðal annars fram að skilgreining gæðaflokka og góðar forskriftir að verkefnum hins opinbera auki gegnsæi í vinnuferli hönnunar; og aðgengi fyrir alla eigi að vera sjálfsagður og eðlilegur þáttur hins manngerða umhverfis.
Í Vegvísi í ferðaþjónustu frá 2015 er fjallað um fyrirmyndarstaði. Þar er lagt til að fyrirmyndarstaðir í ferðaþjónustu verði skilgreindir og undirbúningur fyrir hönnun og uppbyggingu þeirra verði samkvæmt bestu erlendum og innlendum fyrirmyndum. Hér er tækifæri til að skilgreina ítarlegar þá staði sem uppfylla algilda hönnun. Við hljótum að gera þá kröfu að fyrirmyndarstaðir í ferðaþjónustu bjóði upp á aðgengi fyrir alla.
Kæru gestir,
dagskrá málstofunnar framundan er
mjög áhugaverð og tekur betur á þessum málum sem ég hef aðeins reifað hér í
máli mínu. Það er vel.
Ég óska ykkur góðs dags og þakka fyrir mig.