Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á fagráðstefnu skógræktar 2017
Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á fagráðstefnu skógræktar sem haldin var 23. mars 2017.
Ágætu ráðstefnugestir,
Það er mér ánægja að vera hér með ykkur í dag og fagna 50 ára afmæli rannsóknarstöðvar skógræktarinnar að Mógilsá með fagráðstefnu geirans. Innilega til hamingju með daginn!
Það hefur mikið gerst í málefnum skógræktar á Íslandi á þessum 50 árum síðan aðstaðan á Mógilsá var byggð upp fyrir þjóðargjöf frá Norðmönnum. Sem dæmi má nefna að árið 1970 setti ríkið fjármagn í fyrstu áætlunina um nytjaskógrækt á bújörðum. Það var svokölluð Fljótsdalsáætlun. Hún náði aðeins til jarða þar sem skógræktarskilyrði voru talin best á landinu.
Síðan þá höfum við áttað okkur á að skógrækt getur gengið vel í öllum landshlutum og síðustu 30 árin eða svo hefur orðið gríðarlegur vöxtur í nytjaskógrækt á lögbýlum í gegnum landshlutaverkefnin, sem nú eru orðin hluti af Skógræktinni. Í dag styrkir ríkið ríflega 600 áætlanir um nytjaskógrækt á lögbýlum og ná þær yfir um 50.000 ha lands.
Skógrækt snýst ekki bara um að gróðursetja tré til viðarframleiðslu. Í grunninn snýst hún um að auka eigið virði landsins með öllum þeim aðferðum sem eru tiltækar og uppfylla samhliða markmið um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Þannig tel ég birkiskóga og aðra náttúruskóga síst minna virði en nytjaskóga sem ræktaðir eru til timburframleiðslu, og okkar að gæta vel að góðu jafnvægi þar á milli og tryggja fjölbreytileika. Hekluskógar eru gott dæmi um verkefni þar sem fjölbreyttum aðferðum er beitt til að klæða landið skógi á ný, bæði hvað varðar útplöntun eða fræsáningu sem og samstarf við landeigendur og fjölmarga sjálfboðaliða sem leggja verkefninu árlega lið.
Þetta er stef sem ég mun leggja mikla áherslu á við gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum til 2030. Eins og kom skýrt fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Íslands þá geta skógrækt og landgræðsla leikið mun stærra hlutverk hérlendis í að binda kolefni úr andrúmslofti. Við erum nefnilega svo rík af illa förnu landi! Kolefnisbinding í jarðvegi og gróðri er að sjálfsögðu leið sem við munum nýta okkur til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og helst stórefla bindinguna frá því sem er í dag.
Við verðum engu að síður að tryggja að vistkerfisnálgun hafi vægi í öllu skipulagi og framkvæmdum tengdu því átaki. Við verðum líka að láta aðgerðirnar ríma við aðrar áætlanir stjórnvalda og tryggja að aukið fjármagn til þeirra tali inn í heildarsýn hvað varðar til dæmis landsskipulagsstefnu, byggðastefnu og sóknaráætlanir einstakra landshluta sem og aðra samninga ríkisins við eigendur lands, svo sem búvörusamninginn.
Skógrækt til timburframleiðslu gæti þannig verið hluti af heildstæðri nýtingaráætlun hverrar bújarðar og í sumum tilfellum gætu skógarreitirnir nýst til húsdýrabeitar og skjóls, að minnsta kosti hluta úr ári. Eins og ég veit að sumir bændur gera nú þegar. Aukin útbreiðsla náttúruskóga á stærri og minni svæðum mun hafa fjölþætt áhrif á, til að mynda verndun líffræðilegrar fjölbreytni og jarðvegsvernd. Allar munu aðgerðirnar svo hafa jákvæð áhrif á til dæmis uppsöfnun kolefnis í jarðvegi og gróðri, bætta vatnsmiðlun, aukið skjól og betra staðbundið veðurfar að minnsta kosti. Aukin útbreiðsla skóga af öllu tagi sem myndu draga úr vindálagi og skafrenningi á vegum landsins væri líka þjóðráð!
Einnig er má nefna að skógrækt í og við þéttbýli hefur mjög jákvæð áhrif á til að mynda loftgæði. Reykjavíkurborg hefur einmitt aukna skógrækt innan borgarmarkanna sem eitt af markmiðum sinnar loftslagsstefnu og Græni Trefillinn sem umlykur höfuðborgarsvæðið hefur fyrir löngu sannað fjölþætt notagildi sitt.
Akureyri, Egilsstaðir, Hafnarfjörður og fleiri og fleiri – það myndi vanta mikið upp á bæjarmyndina ef trjágróðurinn væri ekki til staðar.
Kæru gestir,
Ég nefndi hér áðan að margt hefði breyst á þessum 50 árum síðan rannsóknarstöðin á Mógilsá varð til. Eitt hefur þó ekki breyst mikið – það eru lögin um skógrækt. Þau eru orðin yfir 60 ára gömul og löngu tímabært að endurskrifa þau í takt við áherslur dagsins í dag. Mér er það því sérstakt ánægjuefni að geta sagt frá því hér að drög að frumvarpi um ný skógræktarlög verða lögð fram á Alþingi fljótlega og verða vonandi samþykkt í kjölfarið.
Í drögunum er til að mynda lagt upp með að gerð verði stefnumótandi landsáætlun fyrir skógrækt svo hægt sé að skilgreina heildstætt hvaða svæði landsins henta best til frekari uppbyggingu nytjaskóga og hvar skuli stefnt að aukinni útbreiðslu náttúruskóga. Jafnframt skuli vinna framkvæmdaáætlanir til fimm ára í senn fyrir hvern landshluta í samráði við sveitarstjórnir og aðra hagaðila, meðal annars til að samræma áherslur í skógrækt og skipulagsáætlanir sveitarfélaga.
Ég fagna þessum ákvæðum mjög og vona að landsáætlun verði til sem fyrst svo hægt verði að styðjast við hana í ákvarðanatöku um aukna skógrækt sem loftslagsaðgerð.
Margt annað nýtt er að finna í frumvarpsdrögunum. Svo sem um sjálfbærni nýtingar skóga og að árleg felling í skógum skuli að jafnaði ekki vera meiri en árlegur vöxtur þeirra. Einnig að felling skóga eða hluta þeirra verði háð leyfi Skógræktarinnar og stofnuninni verði heimilt að innheimta gjald fyrir afgreiðslu leyfisumsókna fyrir fellingu. Einhverjum kann að þykja þetta meira framtíðarmúsík – en – ég minni á orð mín í upphafi. Árið 1970 töldu menn aðeins vænlegt að reyna að rækta skóg á Fljótsdal og settu sér sýn út frá því. Síðar kom í ljós að það var of þröngur fókus. Við viljum leiða þróunina í átt að framtíðarsýn – aukinni fjölbreyttri skógrækt um allt land og þessi lög munu reynast notadrjúg til að ná settum markmiðum.
Kæru gestir,
Ég óska ykkur ánægjulegrar fagráðstefnu og þakka fyrir mig.