Hoppa yfir valmynd
24.03.2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á aðalfundi Landssambands kúabænda 2017

 

Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á aðalfundi Landssambands kúabænda sem haldið var á Akureyri 24. mars 2017.

 

 

Ágætu fundargestir,

Ég fagna því mjög að fá þetta tækifæri til að ávarpa aðalfund landssambands kúabænda og vona að þetta verði upphafið að farsælu samstarfi okkar varðandi umhverfis- og náttúruvernd.

Það er einkum tvennt sem mig langar að fjalla um hér í dag. Annars vegar eru það loftslagsmálin og leiðir til að draga úr losun gróðurhúsa lofttegunda og hins vegar vernd miðhálendisins. Þessi mál eru mér verulega hugleikin og þar sem þau bæði tengjast landbúnaði sterkum böndum fannst mér tilvalið að ræða þau við ykkur.

Það er ljóst að til þess að Ísland geti staðist alþjóðlegar skuldbindingar varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda verðum við öll að leggja eitthvað af mörkum; fyrst og fremst með því að breyta hegðun og aðlaga neyslumynstur okkar að grænum og loftslagsvænum lausnum. Stjórnvöld bera að sönnu formlega ábyrgð á skuldbindingunum en stjórnvöld eru jú fulltrúar fjöldans – og ábyrgðin þar með okkar allra að axla.

Að því sögðu vind ég mér beint í kjarnann og spyr ykkur beint út – hver gætu hugsanlega verið loftslagsmarkmið kúabús af meðalstærð? Getur búið auðveldlega náð að kolefnisjafna rekstur sinn og í kjölfarið fengið vottun sem kolefnishlutlaust fyrirtæki? Er slíkt ferli til staðar?

Á heimasíðu Landssamtaka kúabænda kemur fram að LK, í samstarfi við Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, hefur sett á laggirnar gæðakerfið Fyrirmyndarbú. Til að standast úttekt og ná viðmiðum kerfisins verða mjólkurframleiðendur að undirgangast ákveðnar kröfur varðandi mjólkurgæði, matvælaöryggi, velferð dýra og umhverfismál.

Ég velti fyrir mér hvort hægt væri að nýta það ferli og setja inn viðbótarmælikvarða fyrir þá sem vildu setja sér loftslagsstefnu og í framhaldinu geta sýnt tölulega fram á mælanlegan árangur í samdrætti losunar eða jafnvel kolefnishlutleysi rekstursins?

Ég veit að kúabændur eru framsýnir og drífandi í öllu því sem þeir taka sér fyrir hendur. Því varpa ég fram hér þeirri hugmynd hvort LK sé til í að taka beinan þátt í gerð aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum með því að móta greininni heildstæða loftslagsstefnu með mælanlegum og tímasettum markmiðum um heildarsamdrátt í losun til 2030?

Undir forystu míns ráðuneytis stendur nú yfir vinna við gerð sk. vegvísis um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði í samstarfi við Bændasamtök Íslands og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þar er vettvangur til að safna saman góðum hugmyndum um hvernig þetta verður best gert í góðu samstarfi stjórnvalda og atvinnugreinarinnar.

Fyrir liggur greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands frá síðasta hausti „Greining á losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði“ sem unnin var í tengslum við gerð vegvísisins. Samkvæmt þeirri greiningu m.a. eru tækifæri kúabænda til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá búrekstrinum og nýta betur allt hráefni sem fellur til á búunum margvísleg og of langt að telja þau öll upp hér. Mig langar þó samt að nefna sérstaklega atriði eins og bætta meðferð á tilbúnum áburði og húsdýraáburði því samkvæmt skýrslu HHÍ liggja talsverðir möguleikar þar.

Endurheimt framræsts votlendis sem ekki er nýtt til ræktunar er sömuleiðis aðgerð sem dregur verulega úr losun. Niðurstöður greiningar LBHÍ gefa einnig sterklega til kynna að losun frá mólendi sé líka mikil og ljóst að það þarf að skoða betur og bregðast við af krafti.

Kolefnisbinding í jarðvegi og gróðri eru aðgerðir sem þið þekkið vel, enda bændur sá hópur í þjóðfélaginu sem hefur hvað mesta þekkingu og reynslu af því starfi.

Ég bíð líka spennt eftir að sjá vélaflota sveitanna ganga fyrir eldsneyti sem framleitt er heima á bæjunum, svo sem úr hauggasi eða lífmassa. Hvað teljið þið að þurfi að gerast svo sú sýn verði sem fyrst að veruleika? Eða er hún kannski ekki raunhæf? Ef ekki, hver væri valkostur tvö að ykkar mati?

Tækifæri til umbóta eru sannarlega mörg og ég hlakka til að heyra ykkar viðbrögð við hugmyndinni um mælanleg loftslagsmarkmið LK til 2030. Ég nefnilega þekki vel þá getu til nýsköpunar sem býr meðal bænda og ef unnt er að virkja hana þá verða til lausnir á flóknustu viðfangsefnum.

Ég ætla að lokum að víkja stuttlega að miðhálendinu og verndun þess. Af hverju ber ég það á borð á þessum vettvangi? Jú, m.a. af því að þið búið í þeim sveitarfélögum sem fara með stjórnsýslu og bera ábyrgð á skipulagi hálendisins. Ég býst líka við að flestir ef ekki allir hér inni eigi einhverjar minningar tengdar þessu ótrúlega víðáttumikla og dulmagnaða svæði – hjarta landsins eins og ég vel að kalla það.

Ég vona að við deilum þeirri sýn að miðhálendið þurfi að vernda sérstaklega til að tryggja að víðerni þess fái að halda sér sem minnst umbreytt af mannavöldum um ókomin ár. Ég legg áherslu á að það þýðir alls ekki að núverandi nýting innan svæðisins verði útilokuð.

En, við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum, auknu álagi og ásókn, sem við þurfum að takast á við og við þurfum betra stjórntæki til að halda utan um og stýra nýtingu innan miðhálendisins, í takt við sjónarmið og áherslur umhverfis- og náttúruverndar dagsins í dag. Þess vegna vona ég að við getum unnið saman að því markmiði að varðveita þá auðlind sem miðhálendið vissulega er.

Kæru kúabændur og aðrir aðalfundargestir,

Ég óska ykkur velfarnaðar í störfum á þessum aðalfundi og ítreka að ég vonast til að eiga gott og farsælt samstarf við ykkur hvað varðar umhverfis- og náttúruvernd, þá ekki síst hvað varðar loftslagsmálin og vernd miðhálendisins.  

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta