Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands 2017
Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Veðurstofu Íslands sem haldinn var 30. mars 2017.
Ágætu fundarmenn,
Það er ánægjulegt að fá að ávarpa ársfund Veðurstofu Íslands hér. Ég heimsótti Veðurstofuna eins og aðrar stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á fyrstu vikunum í mínu starfi sem ráðherra og fannst fróðlegt og gaman að heyra af ykkar fjölbreytta og kraftmikla starfi. Veðurstofan nýtur mikils trausts meðal almennings samkvæmt könnunum, sem er mikilsvert. Við Íslendingar búum við duttlungafyllra veðurfar og margþættari náttúruvá en flestar þjóðir og við viljum hafa gott fólk á vaktinni. Það er enginn skortur á því hér og líka ánægjulegt að tæknin bætir í sífellu vöktun og spár. Hér var sett upp í fyrra ofurtölva fyrir tilstilli dönsku veðurstofunnar, sem þjónar báðum stofnunum. Aðild að evrópskum stofnunum og rannsóknaverkefnum hefur líka bætt vöktun á veðri og jarðvá og styrkt stöðu og innviði Veðurstofu Íslands.
Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Veðurstofan býr að langri reynslu af alþjóðlegu samstarfi, meðal annars vegna flugveðurþjónustu. Starfsfólk Veðurstofunnar hefur verið duglegt að taka þátt í erlendu samstarfi og sækja um styrki. Þetta ber ávöxt. Veðurstofan hefur líka byggt upp traust á alþjóðavettvangi eins og heima fyrir. Frammistaða Veðurstofunnar við vöktun á eldfjallaösku setti hana í hringiðu heimsfrétta í gosinu í Eyjafjallajökli. Hún stóðst þá þolraun með prýði og býr að reynslu og samböndum frá þeim tíma. Hér er harðsnúið lið fagmanna á ferð og það veit fólk víða.
Góðir gestir,
Yfirskrift þessa ársfundar er: Áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi. Það hefur mikið verið rætt um loftslagsbreytingar á síðustu vikum. Sú umræða hefur einkum verið um nýja spá sem bendir til að við Íslendingar munum ekki að óbreyttu standa við okkar alþjóðlegu skuldbindingar; og síðan um skýrslu sem ég sendi sem umhverfis- og auðlindaráðherra til Alþingis til upplýsingar og umræðu. Þar er meðal annars reifuð stefna nýrrar ríkisstjórnar, sem vill leggja aukna áherslu á loftslagsmál og gera aðgerðaáætlun um hvernig við getum staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030.
Í alþjóðlegri umræðu og samningum er oft rætt um tvær megináherslur í viðbrögðum gegn loftslagsvánni: Aðlögun og fyrirbyggjandi aðgerðir. Áherslan hefur gjarnan verið á hið síðarnefnda. Það er forgangsröðun sem við þekkjum úr læknavísindum. Það er auðvitað best að fyrirbyggja slys og sjúkdóma. Ef við veikjumst þá reynum við að draga úr einkennunum. Við viljum helst ekki að líkamshitinn fari mikið yfir tvær gráður umfram eðlilegt ástand og grípum kannski inn í ef svo fer, með lyfjatöku eða öðru.
Sama gildir um Móður Jörð og okkur börnin hennar. Það er rétt að setja áherslu á að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, til að hitti hækki ekki of mikið og of ört. Það er okkar stærsta verkefni í stjórnsýslunni að standa við markmið Parísarsamningsins. Þar er stefnt að því að halda hlýnun innan við tvær gráður, svo við missum ekki stjórn á breytingunum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. En við vitum líka að við þurfum að glíma við afleiðingar loftslagsbreytinga, eins þótt við stöndum við öll markmið. Við þurfum að aðlaga okkur að breyttu loftslagi, náttúrufari og lífsskilyrðum.
Þetta er umfjöllun dagsins í dag. Það er gott að Veðurstofan setji þau mál á dagskrá, þótt efnið sé ekki beint gleðilegt. Súrnun sjávar er til dæmis mikið áhyggjuefni fyrir þjóð sem hefur byggt upp sín lífskjör að stórum hluta úr gullkistu hafsins. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur þegar gert Veðurstofu Íslands að lykilstofnun sinni hvað varðar vísindalegt starf um áhrif loftslagsbreytinga og leiðsögn varðandi aðlögun. Veðurstofan er tengiliður við Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC. Hún ritstýrði annarri skýrslu á vegum ráðuneytisins um afleiðingar loftslagsbreytinga, sem kom út árið 2008 og vinnur nú að hinni þriðju, sem von er á síðar á þessu ári.
Veðurstofan hefur líka verið falin umsjón með verkefni sem miðar að ráðgjöf vegna aðlögunar íslensks samfélags að loftslagsbreytingum. Það kann að fá meira vægi í framtíðinni. Parísarsamningurinn hefur að geyma ákvæði um að ríki skulu vinna að aðlögun að loftslagsbreytingum, jafnt sem fyrirbyggjandi aðgerðum. Betri vitneskja og sýnilegri áhrif breytinga munu einnig knýja á um betri viðbúnað. Ég lít á umræðuna á þessum ársfundi sem gott innlegg í umræðu sem mun fara vaxandi á komandi árum.
Góðir gestir,
Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN sýndi nýlega myndskeið frá Íslandi og þeim áhrifum sem loftslagsbreytingar hafa hér. Það er varla tilviljun. Nær hvergi eru þessi áhrif sýnilegri. Hér geta gestir og gangandi heimsótt jökulsporða sem hafa verið rækilega vaktaðir um áratuga skeið. Þeir eru nú nær allir hopandi. Ísland gæti orðið nær íslaust á tveimur öldum eða svo.
Sum áhrif loftslagsbreytinga geta virst jákvæð. Landið grænkar og skógar dafna. Það er gleðilegt líka vegna þess að þar binst kolefni úr andrúmsloftinu. Til lengri tíma erum við þó í miklum vanda eins og önnur ríki heims. Hækkuð sjávarstaða er áhyggjuefni í landi þar sem byggðin er mest með ströndum. Áhyggjurnar eru ekki minni varðandi breytingar sem eru lítt sýnilegar og ná þess vegna kannski ekki athygli okkar. Súrnun sjávar gæti valdið gífurlegum breytingum á lífríki hafsins og fjöldadauða tegunda sem ekki hefur þekkst í tugmilljónir ára. Hún mælist einna mest á heimsvísu í hafinu fyrir norðan Ísland.
Þetta eru ekki góðar fréttir, en þær eiga erindi við ráðamenn og almenning á Íslandi. Þær eiga erindi við heimsbyggðina. Við eigum að vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga, vakta þær og segja frá þeim. Eins þótt þær fréttir kunni að vera óþægilegur sannleikur.
Við eigum samt að reyna að forðast dómsdagsspár og svartsýnisraus. Ég vil ganga til verks varðandi minnkun losunar með bjartsýni að vopni. Lausnirnar kalla á nýsköpun, útsjónarsemi, umbætur og góðan vilja. Þær kosta vissulega sitt, en það gerði hitaveitan líka, sem við gumum af við góð tækifæri. Aðgerðaleysi mun reynast okkur dýrara. Hið sama gildir um vöktun og aðlögun að loftslagsbreytingum. Gerum Ísland að sýnilegri kennslustofu um áhrif loftslagsbreytinga, þar sem fólk getur séð með eigin augum breytingar sem eru duldari víða annars staðar. Veðurstofan er öflug vísindastofnun sem getur og vill koma að því verkefni.
Ég þakka þeim sem komu að skipulagningu þessa áhugaverða fundar og óska ykkur öllum ánægjulegs ársfundar og góðra vordaga framundan.
Takk fyrir.