Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra við afhendingu umhverfisverðlauna Ölfuss
Mig langar að byrja á að óska nemendum og starfsfólki Garðyrkjuskóla LBHÍ hér á Reykjum til hamingju með daginn. Hér hefur Sumardeginum fyrsta verið fagnað árlega í áratugi og fyrir marga er heimsókn hingað þennan dag hluti af vorkomunni. Enda liggur vorið í loftinu hér.
Sveitarfélagið Ölfus veitir á hverju ári verðlaun þeim sem sýnt hefur einstakt framtak á sviði umhverfismála. Við valið er horft til þeirra fyrirtækja, stofnana eða einstaklinga sem láta sig umhverfismál varða, hafa mótað sér umhverfisstefnu eða á annan hátt verið til fyrirmyndar hvað varðar umhverfismál. Verðlaunin verða nú afhent í sjötta sinn.
Það er mér sönn ánægja að að veita Magneu Magnúsdóttur umhverfis- og landgræðslustjóra Orku náttúrunnar, umhverfisverðlaun Ölfuss 2017 fyrir hönd sveitarfélagsins. Magnea er með meistaragráðu í landgræðsluvistfræði frá LBHÍ og hefur síðustu árin unnið að umhverfismálum hjá Orku náttúrunnar.
Í sínu starfi hefur hún lagt mikla áherslu á að vinna með náttúrunni og gæta þess að allt rask vegna framkvæmda valdi sem minnstum varanlegum skemmdum á jarðvegi og gróðri. Meginmarkmið landgræðslustarfsins hjá Orku náttúrunnar er að endurheimta náttúrulegan staðargróður á virkjanasvæðum fyrirtækisins – með mjög góðum árangri.
Við allar framkvæmdir á vegum Orku náttúrunnar er gróðurþekju svæða sem er raskað haldið til haga og hún síðan nýtt til að endurheimta náttúrulegan gróður að loknum framkvæmdum. Magnea Magnúsdóttir innleiddi þessi vinnubrögð þegar hún hóf störf hjá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir fimm árum og lét setja þau sem skilyrði í öllum útboðsgögnum.
Síðan þá hefur verið unnið eftir þessari aðferðafræði. Staðargróður er tekinn upp með gröfum og geymdur á nálægu svæði þar til framkvæmdum lýkur. Þá er hann lagður aftur yfir raskaða svæðið sem á að endurheimta. Gróður sem ekki nýtist í framkvæmdunum er nýttur til að ganga frá eldri svæðum.
Á Hellisheiði eru jafnframt notaðar ýmsar aðrar uppgræðsluaðferðir sem sumar hverjar eru fremur nýstárlegar.
Á framkvæmdasvæðum þar sem mosi er ríkjandi er verið að prófa mismunandi aðferðir til að endurheimta hann. Til dæmis var mosa safnað af framkvæmdasvæðum við Hellisheiðarvirkjun og geymdur í frystigámi í tvö ár á meðan á framkvæmdum við Hverahlíðarlögn stóð.
Hann hefur svo meðal annars verið notaður til að blanda svokallaðan mosahræring úr mosa, vatni og súrmjólk. Blöndunni hefur verið dreift á viðkvæm, áður mosagróin svæði og viti menn, mosinn fer að vaxa á ný!
Í öðrum tilfellum hefur mosanum verið dreift beint yfir röskuð svæði þar sem hann festir sig og grær saman í samfellda mosaþembu. Þetta eru allt vistheimtaraðferðir sem Magnea hefur þróað útfrá tilraunum sem hún gerði í meistaranámi sínu.
Dæmi um fleiri vistheimtaraðferðir sem notaðar eru á Hellisheiði eru; söfnun og dreifing fræslægju, söfnun og gróðursetning víðigræðlinga og dreifing íslenskra grasfræja sem ræktuð eru hjá Landgræðslu ríkisins.
Árangurinn á Hellisheiði sýnir hvað aðferðafræðin við að endurheimta náttúrulegan staðargróður virkar vel. Fréttir af þessum góða árangri hafa breiðst út og fleiri fyrirtæki eru farin að nýta sér sumar af þessum aðferðum. Það er umhverfinu í hag að þeim sé beitt sem víðast og þannig stuðlað að því að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika íslensku flórunnar.
Kæra Magnea, innilega til hamingju með umhverfisverðlaunin og þann árangur sem náðst hefur við endurheimt náttúrulegs staðargróðurs á virkjanasvæðum á Hellisheiði. Það er mín von að sem flestir sem vinna að endurheimt raskaðra vistkerfa nái að tileinka sér þessa aðferðafræði – það er jú alltaf betra að vinna með náttúrunni.
Að lokum vil ég nefna að þessi fallegi verðlaunagripur sem Magneu áskotnast er unninn af handverkskonunni Dagnýju Magnúsdóttur í Þorlákshöfn.