Hoppa yfir valmynd
12.05.2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Umhverfisstofnunar 2017

Góðir gestir,

Það er ánægjulegt að fá að ávarpa fund hjá Umhverfisstofnun, og sérstök ánægja að ávarpa fund sem helgaður er loftslagsbreytingum og aðgerðum gegn þeim. Fyrir réttri viku síðan undirritaði ég ásamt fimm öðrum ráðherrum í ríkisstjórn Íslands samstarfsyfirlýsingu um gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Ég hef lagt á það mikla áherslu og verið í forystu varðandi það að við ráðherrar í ríkisstjórninni gæfum því vigt og sýndum samstöðu. Enda er þetta í fyrsta sinn hér á landi sem að forsætisráðherra og helmingur ríkisstjórnar skrifar undir slíka yfirlýsingu varðandi umhverfismál. Það sýnir að loftslagsmálin eru stórt viðfangsefni hjá ríkisstjórninni og mér sýnist líka að þau séu kyrfilega komin á dagskrá í fjölmiðlum, stjórnmálum og samfélagsumræðunni, sem var ekki raunin fyrir bara örfáum misserum.

Svarið við spurningunni sem er kastað fram í yfirskrift fundarins er einfalt.

Er runnin upp ögurstund í loftslagsmálum? Já!

Glæný skýrsla á vegum Norðurskautsráðsins hefur vakið mikla athygli á alþjóðavísu. Þar segir í stuttu máli að Norðurslóðir eins og við þekkjum þær muni brátt heyra sögunni til. Þar er hlýnun tvöföld á við meðaltal á heimsvísu. Jafnvel þótt við stöndum við tveggja-gráðu markmið Parísarsamningsins er næsta víst að Norður-Íshafið verður að mestu íslaust á sumrum innan þriggja áratuga. Ásýnd og lífríki Norðurslóða mun gjörbreytast.

Erum við þá þegar of sein að bregðast við? Nei við erum það ekki.

Við munum ekki afstýra öllum breytingum, en við þurfum að tryggja að verstu sviðsmyndir verði ekki að möguleika. Þá gæti hafist óstöðvandi bráðnun Grænlandsjökuls, sem ein og sér gætti hækkað sjávarborð um sjö metra. Eyðimerkur munu breiðast út þar sem nú eru landbúnaðarlönd. Súrnun sjávar getur valdið mesta fjöldadauða tegunda í höfunum í yfir 50 milljón ár.

Það er vá fyrir dyrum, þótt hún komi kannski ekki fram af fullum þunga fyrr en í tíð barna okkar og barnabarna. Aðgerðirnar til að stöðva þá vá þurfa hins vegar að koma núna.

Þar þurfa allir að leggjast á árar. Ekki bara umhverfis- og auðlindaráðherra. Ekki bara þeir sex ráðherrar sem skrifuðu upp á samstarfsyfirlýsingu fyrir viku síðan. Stjórnvöld þurfa að stilla saman strengi og taka höndum saman við atvinnulíf, félagasamtök, vísindasamfélagið og almenning.

Það verður ánægjulegt að heyra raddir margra hér á þessum fundi sem þurfa að leggja málinu lið og eru að leggja málinu lið. Landnotkun og landbúnaður skiptir meira máli hér en víðast annars staðar og þar þarf að fá bændur og aðra vörslumenn landsins með. Við þurfum að endurheimta jarðveg og rækta skóg og tryggja að nýting lands sé sjálfbær og haldist í hendur við loftslagsmarkmið. Við þurfum að endurheimta votlendi og horfa þar fyrst til framræsts lands sem ekki er nýtt. Nóg er af því.

Kæru gestir,

Hér bíða ykkar fjölmörg áhugaverð erindi um loftlagsmál

Þá verður áhugavert að heyra rödd áliðnaðarins á þessum fundi. Ég get því miður ekki setið og hlustað á það þar sem ég þarf að fara á ríkisstjórnarfund. En ég vil þó taka skýrt fram að ég skrifa ekki upp á að það sé sérstakt framlag Íslands í loftslagsmálum að laða frekari mengandi stóriðju hingað til lands. Það hefur lengi verið lagt ofurkapp á slíkt, en kannski stundum vantað aðeins upp á forsjána. Ísland er 11. mesti álframleiðandi heims og á auðvitað heimsmet miðað við höfðatölu. Samt hafa menn ekki talið það nóg, eins og hálfbyggð grind álvers í Helguvík og samningar um enn fleiri ver og stækkanir bera vitni um. Í viðbót við það höfum við viljað kísilver – ekki eitt, heldur fjögur. Það munar um minna – og einhver gæti spurt hvort við höldum að orkulindir Íslands séu komnar á síðasta söludag.

Íslenskur áliðnaður hefur stært sig af því að vera einn sá umhverfisvænsti í heimi og ef dæmið er sett upp á þennan hátt, og allar aðrar breytur teknar út en vatnsafl á Íslandi eða kol í Kína, þá væri þetta einfalt mál. En þetta er mjög einföld og hagsmunagæsluvæn nálgun. Hingað til lands þarf að flytja inn hundruðir þúsundir tonna af súráli m.a. frá Suður-Ameríku á hverju ári til að framleiða svo álið. Leiðin sem flutn­inga­skipin sigla, með­ til­heyr­andi olíu­notk­un, er 6.000–9.000 km eftir fram­leiðslu­landi. Ef menn hafa virkilega umhyggju fyrir umhverfinu þá ætti ef til vill áróðurinn frekar að vera fyrir því að skárri kostur væri að stað­setja áliðnaðinn í Mið- og Suð­ur­-Am­er­ík­u en á Íslandi; fyrr nefndu land­svæðin eru nefnilega einnig rík af vatns­orku.

En það munuð þið ekki heyra mig gera.

Ástæðan er sú að ein helsta undirstaða þess að loftlagsmálin fari til betri vegar er áhersla á hringrásarhagkerfið og úrgangsforvarnir. Þangað eigum við að stefna. Það er ekki fasti að við þurfum alltaf að vera að framleiða meira og meira af hlutunum, endurnýting skiptir öllu máli ef við ætlum ekki að fylla jörðina af drasli og við getum svo sannarlega gert betur hvað það varðar.

En ég vil þó taka fram, að þó ég deili ekki sömu draumum og sumir um frekari stóriðju á Íslandi þá má hrósa þeim áliðnaði sem fyrir er í landinu fyrir að hafa náð góðum árangri við að minnka losun flúorkolefna, sem eru öflugar gróðurhúsalofttegundir. Fyrir það ber að þakka.

En það er staðreynd að stóriðja losar mikið og mörg verin brenna kolum í sínum iðnferlum. Spár segja að losun geti aukist um 50% og jafnvel nær tvöfaldast til 2030. Stóriðjan greiðir fyrir losunarheimildir, en það hlýtur að vekja spurningar þegar við kynnum okkur sem loftslagsvæna þjóð að við stefnum í met í aukningu losunar hvað þróuð ríki varðar.

Og þá má líka spyrja sig Hver vilja menn að stefnan sé? Að fullvirkja Ísland: allar ár og öll háhitasvæði til að bjóða erlendum stórfyrirtækjum upp á ódýrt rafmagn? Nú þegar er búin að virkja til rafmagnsframleiðslu um mjög stóran hluta þeirrar orku hér á landi sem er nýtanlega samkvæmt skýrslu um orkustefnu fyrir Ísland sem lögð var fyrir Alþingi 2011. Rafmagn sem hingað til hefur að langstærstum hluta verið notað í stóriðju. Er það virkilega vilji okkar að Ísland fari frá því að vera hreina landið í norðri yfir í það að vera geymsla fyrir erlend iðnaðarfyrirtæki? Það er alla vega ekki stefna mín og ekki heldur meirihluta landsmanna. En meira en 60% þeirra eru andvíg frekari stóriðju hér á landi skv. Skoðanakönnunum.

Ég held að við heyrum öll raddir íbúa Reykjanesbæjar þegar þeir kvarta undan skertum lífsgæðum vegna starfsemi United Silicon.

Á því máli hef ég haft sterka skoðun og hana hef ég látið í ljós enda var ég kosin til minna starfa vegna skoðana minna. Ég hef hins vegar líka stutt Umhverfisstofnun í því hvernig stofnunin hefur tekið á því máli og hrósað henni fyrir sín viðbrögð.

Í heimsókn minni til stofnunarinnar á fyrstu dögum mínum í embætti hvatti ég starfsmenn til að hafa alltaf heilsu almennings og góð náttúrugæði í huga við úrlausnir allra verkefna og sagði að ég myndi styðja við bakið á stofnuninni í öllum þeim málum þar sem beita þarf ítrustu varúðarráðstöfunum. Við það stend ég.

Og ég vil hrósa Umhverfisstofnun aftur hér í dag, mér finnst þið hafa staðið ykkur vel í þessu máli þar sem álagið hefur verið mikið.

Góðir gestir,

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að ekki verði gerðir ívilnandi samningar við mengandi stóriðju. Ég tel það rétta stefnu og heillaskref. Loftslagsvæna orkan okkar nýtist ekki bara til iðjuvera. Við þurfum hana fyrir orkuskipti í samgöngum og sjávarútvegi. Við getum nýtt hana til gagnavera. Eins ég hef líka nefnt þá er orkan heldur ekki ótakmörkuð – við þurfum að vernda náttúruna og fylgja leiðsögn Rammaáætlunar um skynsamlega nýtingu auðlinda okkar.

Og í þessu samhengi hef ég heyrt því fleygt að náttúruvernd og loftlagsmál fari ekki alveg saman. Að annað þurfi að víkja fyrir hinu. En um hvað snúast loftlagsmál í grunninn? Snúast þau ekki um að fara betur með þá orku sem er nýtt, að sóa minna og draga úr neyslu? Þ.e.a.s. snúast þau ekki um að bera hag náttúrunnar fyrir brjósti og nýta skynsamlega svo að tilvist okkar sé ekki ógnað. Um það snýst náttúruverndin einmitt líka.

Og við Íslendingar getum verið innblástur fyrir önnur ríki þegar kemur að því að verja loftgæði og náttúru landsins, með alla okkar stórkostlegu náttúru og okkar tæra loft. Þetta getum við verndað, grætt upp og hlúð að. Það er ekki síður hvetjandi fyrir önnur ríki í umhverfismálum.

Í því samhengi er einstaklega ánægjulegt að geta notað tækifærið og sagt frá því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að auka fjármagn til landvörslu um 160 milljónir. En þetta þýðir um 70 % aukningu í skammtímaráðningum landvarða.

Og ég fullyrði að ef við hefðum tekið bara brot af þeim upphæðum sem settar hafa verið í ívilnanir til mengandi stóriðju og sett þá afslætti í verkefni til orkuskipta og loftslagsverkefna, þá stæðum við mun betur en raun er. Þar er auðvitað ekki við stóriðjufyrirtækin að sakast, heldur þá stefnu sem hefur verið uppi. Ég vil þakka það sem fyrirtækin hafa gert vel og ég vil vinna með fyrirtækjum í stóriðju eins og öðrum greinum við að ná enn frekari árangri í að draga úr losun. En rauða dreglinum stjórnvalda fyrir nýja stóriðju hefur verið rúllað upp.

En honum verður ýtt út aftur fyrir aðgerðir í loftlagsmálum.

Það er ánægjulegt að sjá fulltrúa neytenda ræða loftslagsmál hér. Eins og ég kom inn á þá stafar loftslagsvandinn eins og mörg önnur umhverfisógn ekki síst af gegndarlausri neyslu og ágangi á auðlindir jarðar. Við þurfum að kunna okkur hóf. Loftslagsvæn tækni, eins og rafbílar og vindmyllur, munu skila okkur miklu. En við þurfum líka að finna til ábyrgðar okkar sem neytendur.

Nýta betur, sóa minna. Neyta minna, njóta meira.

Loftslagsmálin eiga erindi við almenning, ekki síður en stjórnvöld og atvinnulífið. Þau eru ekki bara uppi á borðum á ráðstefnum í París og undirskriftarviðburðum í Ráðherrabústaðnum, heldur í öllu okkar daglega lífi.

Góðir gestir,

Verkefnið framundan er stórt. Það er að leggja sitt af mörkum til að leysa eitt brýnasta úrlausnarefni mannkyns. Við getum ekki lokað kolaorkuverum, eins og mörg önnur ríki. Skógrækt og landgræðsla binda kolefni úr andrúmsloftinu, en það hefur verið takmörkunum háð hversu mikið megi telja fram ávinning af slíku og öðrum loftslagsaðgerðum varðandi landnotkun.

Ég er samt bjartsýn. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sýnir okkur að mörg tækifæri eru til minnkunar losunar sem eru ódýr og geta jafnvel borgað sig. Margt annað skilar ávinningi til samfélagsins í viðbót við loftslagsávinninginn. Ég skynja mikinn áhuga og vilja í samfélaginu. Við eigum að vera í fararbroddi, Íslendingar. Við getum það. Við þurfum rafbíla, metanólskip, landgræðslu og skógrækt, kolefnisgjöld, hjólað í vinnuna og átak gegn matarsóun. Hreinni tækni og grænni lífstíl. Jarðhitavæðingin var góð og er mörgum ríkjum fyrirmynd. Ég tel víst að ný sókn til loftslagsvænni framtíðar muni einnig á endanum skila okkur meiri ávinningi en kostnaði, þótt hún kunni að kosta okkur nokkuð í byrjun.

Ég vil þakka Umhverfisstofnun fyrir dagskrá þessa ársfundar og fyrir sitt góða starf að loftslagsmálum. Hryggjarstykkið í loftslagsmálum er gott bókhald um losun og bindingu. Það er mikið verk. Því verkefni skilar Umhverfisstofnun með sóma, eins og ítarlegar úttektir Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna bera vitni um. Mér þætti ekkert verra að loftslagsmálin yrðu enn sýnilegri í starfi stofnunarinnar og tel víst að þessi ársfundur sýni vilja og áform um slíkt.

Takk fyrir,

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta