Hoppa yfir valmynd
24.05.2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi NÍ 2017

Forstjóri og starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands og góðir gestir,

Það er sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag í tilefni af ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Ég vil byrja á að nefna það hér, í ljósi þess að við erum á ársfundi þessarar mikilvægu stofnunar sem sér m.a. um skipulega heimildasöfnun um náttúru Íslands og stundar undirstöðurannsóknir á náttúru landsins, að ég hef lagt mikla áherslu á það og nálgast embættið með það efst í huga að þetta er embætti umhverfis- OG auðlindamála.

Það sem ég á við er, að náttúran okkar er auðlind og þekking á henni er grunnurinn að okkar auðlindanýtingu, hvort sem hún á sér stað í landbúnaði, sjávarútvegi, orkuvinnslu eða ferðaþjónustu. Þekking okkar á náttúrunni er stærsta forsendan til að átta sig á mikilvægi þess að varðveita náttúruna. Varðveita þessa auðlind með sjálfbærni í huga.

Ég veit að þið eruð vel meðvituð um þetta, en mér finnst mikilvægt að það komi fram hér að ég er það líka, og að ég met ykkar starf við að viðhalda og bæta í þekkingarbrunn okkar um náttúruauðlindir landsins mikils.

Hér framundan er áhugaverður fundur,

í dag er kynnt skýrsla um ástand fuglastofna og dreifingu fugla og helstu fuglasvæða landsins.

Þessi skýrsla er annað "þrekvirkið", ef svo má að orði komast, sem stofnunin lýkur við á þessum fyrstu fimm mánuðum ársins.

Hún er hluti af verkefninu Natura Ísland, og er kærkomin viðbót við nýlega útgefna skýrslu um greiningu vistgerða á Íslandi og skýrsluna um vistgerðir á hálendi Íslands.

Ég óska ykkur innilega til hamingju með þennan góða árangur.

Það má vissulega segja að við séum á ákveðnum tímamótum hvað varðar vitneskju um náttúru landsins, vinnu við verndun hennar og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni. Nú höfum við í fyrsta skipti í sögunni aðgang að skipulagðri framsetningu á gögnum um náttúru landsins til þess að meta ástand náttúrunnar á heildstæðan hátt.

Og í þeirri vitundarvakningu sem ég held að við öll finnum fyrir varðandi umgengni um náttúru landsins, og almennt í umhverfismálum, er ómetanlegt að búa yfir þessum gögnum.

Því tengt, þá hafa nýju náttúruverndarlögin verið töluvert til umræðu. Þau setja Náttúrufræðistofnun Íslands fjölmörg ný verkefni á herðar, einkum með nýjum áherslum sem felast í 2. og 3. grein laganna. Umræddar áherslur snúast um verndarmarkmið fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir til verndar líffræðilegri fjölbreytni. Einnig um verndarmarkmið fyrir jarðminjar, vatnasvæði, landslag og víðerni.

Vinna við gerð fimm ára framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár er nýlega hafin en í samræmi við lögin á umhverfis- og auðlindaráðherra að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdahluta skrárinnar á þessu ári.

Til þess að það megi takast þurfum við að halda vel á spöðunum, meðal annars vegna þess að þegar tillögurnar liggja fyrir tekur við a.m.k. átta vikna kynningar og umsagnarferli sem Umhverfisstofnun annast áður en hægt verður að leggja málið fram á Alþingi. Það er því ljóst að tillögurnar þurfa að liggja fyrir í ágúst til þess að þetta gangi upp.

Við undirbúning og vinnslu fyrstu framkvæmdaáætlunarinnar legg ég áherslu á að reynt verði eftir fremsta megni að ná inn svæðum og tegundum í samræmi við áherslur náttúruverndarlaganna sbr. 2. og 3. grein laganna sem ég nefndi hér áðan.

Að mínu mati er mikilvægt í þessu tilliti að það komi skýrt fram í þessari vinnu framundan að náttúruverndarlögin taka til allrar efnahagslögsögu Íslands og, að auk vistgerða á landi og fuglasvæða, verði litið til vistgerða í fjöru og ferskvatni svo og mikilvægra strand- og hafsvæða.

Góðir gestir,

Nýju náttúruverndarlögin mörkuðu tímamót fyrir náttúruvernd hérlendis. Sem betur fer er athygli okkar og fjölmargra annarra þjóða farin að beinast í æ ríkari mæli að mikilvægi umhverfis- og náttúruverndar. Enda veitir ekki af; það er ekki eins og við höfum gengið um náttúruna í gegnum árin af þeirri virðingu sem þarf. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru eitt skýrasta dæmið um það.

Við, eins og aðrar þjóðir heimsins munum sýna ábyrgð í verki og stefnum á að draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 í samræmi við skuldbindingar okkar í Parísarsamningnum. Svo það sé einnig sagt þá munum við líka leggja mikla áherslu á að binda kolefni í jarðvegi og gróðri, burtséð frá því hvort við fáum að telja þær bindieiningar með í kolefnisbókhaldi okkar. Þær aðgerðir munu alltaf koma andrúmsloftinu og vistkerfinu öllu til góða.

Vinna við gerð aðgerðaáætlunar til 2030 er komin af stað. Áætlunin verður unnin í víðtæku samráði og ég vona að sem flestir leggi þeirri vinnu lið. Í lok þessa árs stefnum við svo á að hafa í höndunum áætlun með tímasettum og mælanlegum markmiðum fyrir þær loftsaðgerðir sem við ætlum að ráðast í. Þetta er bratt, ég veit það, en ég veit líka að þetta er allt hægt – með góðu skipulagi og samstöðu.

Í stjórnkerfinu er einnig verið að vinna sérstaklega með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í þeirri vinnu er meðal annars fjallað um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Þar er stefnt á að setja mælikvarða á öll undirmarkmið heimsmarkmiðanna sem eiga við hérlendis og nýta þau til að meta hvort við séum að ná settum áföngum.

Í því samhengi má benda á að umfjöllun um tillögur rammaáætlunar er í gangi og undirbúningur að hefjast fyrir fjórða áfanga rammaáætlunar. Ég hef sagt að það liggi á að vernda meira og þar komum við aftur að mikilvægi þess fyrir vinnu rammaáætlunar, að til séu góð gögn sem draga fram mikilvægi þess að varðveita þessa auðlind okkar, náttúru landsins.

Loks má nefna að unnið er að því að finna leiðir til þess að afmarka mikilvæg svæði í hafinu umhverfis landið sem ástæða væri til þess að friða vegna lífríkisins og líffræðilegrar fjölbreytni.

Í allri vinnu sem tengist vernd og nýtingu náttúruauðlinda þarf að gæta þess að markmið stangist ekki á við hvort annað. Um leið og ein ákvörðun er tekin verður að taka tillit til annarra skuldbindinga og haga vinnu, stefnumótun og aðgerðum þannig að við njótum samlegðaráhrifa og uppfyllum þannig skuldbindingar þeirra alþjóðasamninga tengdri umhverfis- og náttúruvernd sem við höfum skrifað upp á.

Ég legg þannig mikla áherslu á að öll landnýting og landbætur taki mið af náttúruvernd og vernd líffræðilegs fjölbreytileika. Það er alveg skýrt í mínum huga að þessi viðmið eiga líka að vera höfð í forgrunni við allar loftlagsaðgerðir sem tengjast kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri. Fyrst horfum við til heildarmyndarinnar, svo metum við kolefnisbindinguna sérstaklega – ekki á hinn veginn.

Talandi um náttúruvernd. Það þarf engum að dyljast að ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að miðhálendið verði verndað og þar hef ég talað fyrir miðhálendisþjóðgarði. Í ráðuneytinu hefur verið settur aukinn kraftur í þá vinnu svo hægt séð að kanna og fara yfir þá kosti sem í því felast. Hérna má aftur benda á mikilvægi þeirrar vinnu sem Náttúrufræðistofnun sér um og þá er ég að vísa í vinnu við gerð náttúruminjaskrár. En þar er meðal annars unnið að framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára, að þær náttúruminjar sem Alþingi hefur ályktað að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum og einnig er unnið að skrá yfir aðrar náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa eða friða. Þessi vinna mun nýtast vel í því verkefni að auka vernd miðhálendisins.

Kæru gestir,

Að lokum vil ég minnast á og beina orðum mínum til forstöðumanna og starfsmanna stofnana ráðuneytisins. Það hefur borið á því að stofnanir eru ekki sammála um stöðu umhverfismála og hvernig heppilegast sé að bæta úr þeim málum sem afvega hafa farið. Í þeirri umræðu kemur oft fram að samstarf eða samtal milli stofnana er ábótavant og jafnvel að fólk kjósi frekar að tjá sig í fjölmiðlum en að tala saman og reyna að finna samstarfsgrundvöll eða sameiginlega lausn á þessum málum.

Ég er ekki að segja að málefnalegur ágreiningur geti ekki verið milli stofnana en ég vil hvetja starfsmenn stofnana ráðuneytisins til þess að vinna saman að þeim málefnum sem okkur hafa verið falin og leita allra ráða til þess að vinna saman að lausn þeirra. Í fjármálaáætluninni til næstu fimm ára er sett fram heildstæð og skýr sýn fyrir málefnasviðið umhverfismál og alla málaflokka þess. Svona heildstæð stefnumörkun fyrir alla málaflokka umhverfis- og auðlindaráðuneytisins boðar ný og markvissari vinnubrögð af hálfu ráðuneytisins og á að auðvelda okkur öllum, þ.e. ráðherra, ráðuneytinu og stofnunum þess að stilla saman strengi út frá langtímasýn málaflokkanna og megináherslum sem settar eru fram í áætluninni.

Ég treysti því á að stofnanir UAR sem hafa með náttúruverndarmál að gera seti sér samþætta stefnu til næstu ára, í takt við aðferðafræði og megináherslur ráðuneytisins og í góðri samvinnu við hlutaðeigandi starfsmenn þess. Þannig hefur það líklega verið hingað til en ég vil engu að síður nefna þetta sérstaklega því mér finnst þetta eitt af lykilatriðum til hámarksárangurs, við erum jú öll í sama teyminu.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta