Hoppa yfir valmynd
05.04.2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi um Árósasamninginn

Kæru málþingsgestir.

I would like to begin by welcoming our distinguished guest, Mr. Jonas Ebbesson, the chair of the Aarhus Convention Compliance Committee and a professor at the Department of Law at Stockholm University. It is great privilege for us to have him visiting and I´m sure we can learn a great deal from his talk, for example, how the rights that follow from the Aarhus Convention have been interpreted in the work of the Compliance Committee.

Samningur um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sem gerður var í Árósum í júní 1998 og er í daglegu tali nefndur Árósasamningurinn, var fullgiltur af Íslands hálfu árið 2011. Samningurinn hefur meðal annars verið tekin upp í regluverk Evrópusambandsins og þaðan innleiddur í löggjöf EES-ríkjanna. Hér á landi hefur samningurinn aðallega verið innleiddur með lögum um úrskurðarnefnd umhverfismála, lögum um upplýsingarétt um umhverfismál, lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um umhverfismat áætlana.

Í fyrstu grein samningsins kemur skýrt fram tenging hans við mannréttindi, þau mannréttindi að vita hvaða áhrif framkvæmdir og áætlanir í umhverfi og náttúru okkar geti haft fyrir heilsu og velferð okkar og komandi kynslóða. Þar segir:

„Í þeim tilgangi að stuðla að verndun réttinda hvers einstaklings af núverandi og komandi kynslóð til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hans skal sérhver aðili ábyrgjast rétt til aðgangs að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgangs að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum í samræmi við ákvæði þessa samning.“

Árósasamningurinn hefur þannig reynst mikilvægt verkfæri til að virkja lýðræði þegar kemur að umhverfismálum í aðildarríkjum samningsins og veitt stjórnvöldum aðhald við að tryggja almenningi aðgengi að upplýsingum um umhverfismál, möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanatöku sem snertir umhverfið og tækifæri til að bera þær ákvarðanir undir óháðan úrskurðaraðila.

 

Aðildarríkjum Árósasamningsins ber að skila aðildarríkjaskýrslu til skrifstofu samningsins með reglubundnu millibili þar sem farið er yfir stöðu innleiðingar á ákvæðum samningsins. Ísland hefur nú í tvígang skilað slíkri skýrslu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að endurskoða skuli á fyrri hluta kjörtímabilsins ákvæði um aðgang samtaka almennings að ákvörðunum á sviði umhverfismála með það að markmiði að sá réttur sé tryggður á fyrri stigum leyfisveitingarferlis og málsmeðferð geti þannig orðið skilvirkari án þess að gengið sé á þennan rétt. Jafnframt segir að þjóðréttarskuldbindingum Íslands samkvæmt Árósasamningnum skuli komið til framkvæmda. Í ljósi framangreinds og þess að nú eru sjö ár liðin frá því að samningurinn tók gildi hér á landi er tímabært að fara yfir hvernig til hefur tekist.

 

Af þessu tilefni hafa í ráðuneytinu verið unnin drög að aðgerðaráætlun um eftirfylgni landsskýrslna Íslands um innleiðingu Árósasamningsins og ákvæðum stjórnarsáttmálans um þetta málefni. Drögin innihalda fjögur áhersluatriði.

 

Í fyrsta lagi er í áætluninni að finna aðgerð er að varða fyrstu stoð samningsins, aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Hér er nauðsynlegt að líta til endurskoðunar laga frá 2006 um upplýsingarétt um umhverfismál þar sem sá lagabálkur samræmist ekki að öllu leyti hinum almennu upplýsingalögum frá 2012. Mér finnst koma til greina að skoða hvort sameina eigi þessa tvo lagabálka til að tryggja gagnsæi og einfalda stjórnsýslu.

 

Í öðru lagi eru í aðgerðaráætluninni verkefni er tengjast annarri stoð Árósasamningsins um þátttöku almennings í ákvarðanatöku í málum er varða umhverfið. Þarna er að finna aðgerðir eins og setningu lágmarkstímafresta vegna umsagna frumvarpa og reglugerða, þátttöku umhverfisverndarsamtaka í starfshópum á vegum ráðuneytisins og umbætur á vefsíðum stofnana til að auðvelda aðgengi að upplýsingum um umhverfismál. Enn fremur legg ég ríka áherslu á að finna leiðir til að veita almenningi og umhverfisverndarsamtökum kost á að koma fyrr að ákvarðanatöku og áætlunum er snerta umhverfismál, þannig að líklegra sé að frekari sátt geti náðst um leyfisveitingar til framkvæmda. Auðvitað verða alltaf framkvæmdir sem samstaða næst ekki um, en í mörgum tilvikum má finna lausnir sem flestir geta sætt sig við. Ef slíkar lausnir koma snemma fram í ferlinu er líklegra að þær geti orðið ofan á, meiri sátt næst og kærumálum ætti að fækka.

 

Í þriðja lagi er í aðgerðaráætluninni verkefni er varða þriðju stoð Árósasamningsins og lúta að aðgengi almennings að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Hér ber fyrst að nefna styrkingu úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála og úrskurðarnefndar um upplýsingamál svo að hægt verði að standa við málshraðareglur. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nú þegar fengið viðbótarfjárveitingu en endurmeta þarf fyrir fjárlagagerð ársins 2020 hvort sú aukning nægir til að tryggja viðunandi málshraða í þessum málum. Einnig hef ég óskað eftir greiningu á því hvort framkvæmd Árósasamningsins hér á landi sé í samræmi við ákvæði hans eins og þau hafa verið skýrð af eftirlitsnefnd samningsins og Evrópudómstólnum og hef ég þá í huga að kanna hvort opni eigi fyrir hvoru tveggja stjórnsýsluleið og dómstólaleið fyrir þá sem vilja láta reyna á ákvarðanatöku í umhverfismálum. Ráðuneytið mun enn fremur óska eftir sérfræðiáliti um 3. mgr. 9. gr. Árósasamningsins og hvort það ákvæði kalli á breytingar á íslenskri löggjöf. Er þar kveðið á um rétt almennings til að krefjast þess að aðgerðir af hálfu einstaklinga og stjórnvalda sem ganga gegn umhverfislöggjöf verði tekin fyrir hjá stjórnvöldum eða dómstólum. Ákvæðið hefur oft verið nefnt 4. stoð samningsins og hefur ekki reynst ríkjum Evrópu auðvelt í innleiðingu.

 

Í fjórða og síðasta lagi er í áætluninni að finna sérstaka aðgerð um menntun og fræðslu um Árósasamninginn. Þetta málþing er augljóslega einn liður í slíkri aðgerð en einnig viljum við sérstaklega vekja athygli ráðuneyta og stofnana á Árósasamningnum þar sem það er þeirra hlutverk að standa vörð um réttindi almennings samkvæmt samningnum.

 

Ráðuneytið mun leita samráðs við umhverfissamtök og aðra hagsmunaaðila um drög að framangreindri aðgerðaráætlun og vonast ég eftir góðu samstarfi um þessi verkefni.

 

Kæru gestir.

 

Árósasamningurinn er mér mjög hugleikinn enda hefur hann reynst mikilvægt verkfæri til að virkja fólkið í landinu og auka lýðræði í umhverfismálum. En betur má ef duga skal. Að mínu mati þarf aðkoma almennings að aukast á skipulagsstigi og snemma ferli framkvæmda. Til þess þurfum við að hjálpast að við að finna góðar leiðir.

 

Ég vona að málþingið í dag verði gott leiðarljós fyrir áframhaldandi umræðu um Árósasamninginn og framkvæmd hans hér á landi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta