Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á Prestastefnu 2018
Ég vil byrja á því að fá að þakka fyrir það góða boð að koma og ávarpa ykkur hér í dag og það á sjálfum Degi umhverfisins. Mig langar að óska okkur öllum til hamingju með daginn sem er nú haldinn hátíðlega í 20. sinn. Dagurinn er jafnframt fæðingardagur fyrsta íslenska náttúrufræðingsins, Sveins Pálssonar læknis, en hann var frumkvöðull í rannsóknum á náttúru landsins. Sveinn lauk náttúrufræðiprófi frá Kaupmannahöfn árið 1791 og var ekki bara fyrsti Íslendingurinn til að ljúka slíku prófi heldur var hann fyrsti maðurinn í Danmörku sem bar þá prófgráðu. Frægar eru lýsingar og athuganir Sveins á náttúrunni og þá sérstaklega jöklunum og eldfjöllunum og bera þær ástríðu hans fyrir umhverfinu og undrum náttúrunnar gott vitni.
Sama ár og Sveinn lauk prófi í Kaupmannahöfn lést eldklerkurinn Jón Steingrímsson en samtímalýsingar hans á Skaftáreldum 1783-1785, öðru stærsta hraungosi Íslandssögunnar, eru okkur ómetanleg heimild um náttúruöflin og sögu þjóðarinnar. Athuganir og lýsingar manna eins og þeirra hjálpa okkur að skilja hlutina betur og setja þá í samhengi.
Frá örófi alda hefur fólk sótt sér innblástur, orku og efnivið í náttúruna og snemma gerði manneskjan sér grein fyrir því að án náttúrunnar væri hún ekkert. Það var þó ekki fyrr en rúmum hundrað árum eftir fæðingu Sveins að menn stigu það skref að grípa til sérstakra aðgerða til að vernda einstaka náttúru og lífríki á stóru landsvæði fyrir ágangi og nýtingu manneskjunnar. Þetta var árið 1872 þegar bandaríska þingið samþykkti stofnun Yellowstone þjóðgarðsins, þeim fyrsta í heiminum öllum. Þarna hafði fólk áttað sig á því að athafnir og nýting mannskepnunnar gæti hæglega leitt til skertra náttúrugæða og því væri rétt að verja hana með einverjum hætti fyrir ágangi mannfólksins. Þá jók aukin ásókn í svæðið af ferðamönnum einnig áhuga á því að gera svæðið að þjóðgarði. Hér á Íslandi voru lög um sandgræðslu sett árið 1907, þau fyrstu eða a.m.k. með þeim fyrstu í heiminum á sínu fagsviði. Lögin báru framsækinni framtíðarsýn gott vitni, enda sett í kjölfar landeyðingar áratuga og árhundruðanna á undan sem náði kannski hámarki undir lok 19. aldarinnar, ekki síst á Suðurlandi. Fyrsti þjóðgarðurinn var hins vegar ekki stofnaður fyrr en 1928 á Þingvöllum.
Með auknum rannsóknum og athugunum fólks jókst áhugi á umhverfismálum og upp úr seinna stríði varð nokkur vakning með kenningum Aldo Leopolds, sem kallaður hefur verið faðir náttúrusiðfræðinnar en hann opnaði augu fólks fyrir mikilvægi þess að maðurinn lifði í sátt og samlyndi við náttúru og umhverfi. Árið 1962 gaf Rachel Carson út bók sína Raddir vorsins þagna, en hún olli straumhvörfum í umræðunni um umhverfismál. Með skrifum sínum sýndi Carson fram á að stórfelld notkun skordýraeiturs á borð við DDT, sem þá var orðin almenn, þaggaði iðulega niður í fleiri lífverum en skordýrunum og gæti þannig haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífríkið allt.
Á næstu áratugum var þróunin hröð. Segja má að umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi 1972, um verndun umhverfis mannsins, hafi markað upphaf alþjóðlegrar samvinnu um umhverfismál og árið 1987 náði hugtakið sjálfbær þróun alþjóðlegri útbreiðslu með útgáfu Brundtlands-skýrslunnar svokölluðu. Skýrslan var undanfari Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992 þar sem hæst bar undirritun fyrsta loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, samningsins um líffræðilega fjölbreytni, Dagskrár 21, undanfara Staðardagskrár 21 þar sem sveitarstjórnir settu sér eigin sjálfbærniáætlanir. Í framhaldinu hafa verið gerðir fjöldi alþjóðlegra samninga um tiltekin umhverfismál; þjóðir heims komu sér saman um þúsaldarmarkmið og nú síðast sjálfbærnimarkmið fyrir árið 2030 og almenningi hefur verið tryggð aukin aðkoma að umhverfismálum með Árósasamningnum. Það hefur því margt áunnist og mikil vitundarvakning er í umhverfismálum.
Í dag eru loftslagsmálin mál málanna sem speglast hvað sterkast í Parísarsamningnum þar sem þjóðir heims hafa einsett sér að halda meðalhlýnun jarðar innan við 2°C og helst innan við 1,5°C. Sýn okkar verður að vera sú að tryggja þessi markmið svo komast megi hjá óafturkræfum breytingum á loftslagi og lífkerfum Jarðarinnar. Það er mikið undir og alvarleiki málsins er mikill. Tækifærin eru samt það sem við verðum að einblína á og hvað er göfugra en að taka þátt í þessu stóra verkefni? Í loftslagsmálunum verða allir að leggjast á eitt og ég fagna því að Kirkjan ætli sér nú að setja sér framkvæmdaáætlun á grunni umhverfisstefnu sinnar. Ný ríkisstjórn tók til starfa í lok síðasta árs og sáttmáli flokkanna sem að henni standa er metnaðarfullur hvað umhverfismál varðar. Það á ekki síst við um loftslagsbreytingar af mannavöldum og baráttuna við að halda þeim í skefjum. Ríkisstjórnin hyggst ná fram 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2013 og hefur jafnframt sett sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2040. Það er rétt áhersla – það er betra að koma í veg fyrir vandann en að bregðast við afleiðingunum. Það er þó alveg ljóst að við munum ekki ná að koma í veg fyrir umtalsverða röskun á vistkerfum og samfélögum, eins þótt við náum að standa við markmið Parísarsamningsins. Við þurfum því að laga okkur að breyttum aðstæðum. Í þessu stóra verkefni reynir á samtakamáttinn.
Fræðsla um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra er nauðsynleg – við þurfum öll að skilja þessa stærstu áskorun mannkyns á þessari öld og hvernig við getum brugðist við. Fyrir marga eru loftslagsbreytingar óáþreifanleg ógn – við sjáum ekki hæga þróun á meðalhita lofthjúpsins og enn síður súrnun sjávar. Hvert leitar fólk ef það vill sjá loftslagsbreytingar með eigin augum? Til dæmis til Íslands, en jöklar landsins eru lifandi kennslustofa í loftslagsbreytingum. Nýr Miðhálendisþjóðgarður, annað stórt viðfangsefni ríkisstjórnarinnar, sem næði til stærstu jökla landsins gæti orðið einstakur vettvangur ekki aðeins til að njóta víðerna og villtrar náttúru – sem eru hverfandi á heimsvísu – heldur líka til að fræðast um helstu áskorun samtímans.
Gott fólk.
Ég fagna að kirkjan setji sér markmið í umhverfismálum. Það þurfa allar stofnanir og fyrirtæki að gera. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum fyrir rúmum áratug, kynntist ég öflugu umhverfisstarfi kristinna samfélaga, en þau litu mörg hver á loftslagsbreytingar sem eitthvað sem ekki gæti samræmst sköpunarverkinu. Áhrif kirkjunnar á söfnuði sína geta verið mikil bæði í orði og verki.
Ég minntist á náttúrusiðfræðinginn Aldo Leopold hér áðan sem fyrir rúmum 70 árum opnaði augu fólks með kenningum sínum og athugunum. Ég hef látið eftir mér hafa að mér finnist það vera siðferðisleg skylda okkar að taka til aðgerða í loftslagsmálum og vera ekki eftirbátar annarra þjóða. Áhrif loftslagsbreytinga hafa komið - og munu koma - misharkalega niður á okkur Jarðarbúum og bitna einna helst á okkar minnstu bræðrum og systrum. Með samhygð og samvinnu munum við ná árangri í því að stemma stigu við þessari óheillaþróun. Þetta hvorutveggja boðar Kirkjan og kann vel. Hún gegnir því mikilvægu hlutverki í að fá fólk með á árarnar. Þetta verðum við að gera öll saman.