Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á hátíðardagskrá í tilefni Dags umhverfisins 25. apríl 2018
Góðir gestir
Í dag höldum við Dag umhverfisins hátíðlegan í 20. sinn. Dagurinn er jafnframt fæðingardagur fyrsta íslenska náttúrufræðingsins, Sveins Pálssonar læknis, en hann var frumkvöðull í rannsóknum á náttúru landsins. Sveinn lauk náttúrufræðiprófi frá Kaupmannahöfn árið 1791 og var ekki bara fyrsti Íslendingurinn til að ljúka slíku prófi heldur var hann fyrsti maðurinn í Danmörku sem bar þá prófgráðu. Frægar eru lýsingar og athuganir Sveins á náttúrunni og þá sérstaklega jöklunum og eldfjöllunum og bera þær ástríðu hans fyrir umhverfinu og undrum náttúrunnar gott vitni.
Frá örófi alda hefur fólk þannig sótt sér innblástur, orku og efnivið í náttúruna og snemma gerði manneskjan sér grein fyrir því að án náttúrunnar væri hún ekkert. Það var þó ekki fyrr en rúmum hundrað árum eftir fæðingu Sveins að menn stigu það skref að grípa til sérstakra aðgerða til að vernda einstaka náttúru og lífríki á stóru landsvæði fyrir ágangi og nýtingu manneskjunnar. Þetta var árið 1872 þegar bandaríska þingið samþykkti stofnun Yellowstone þjóðgarðsins, þeim fyrsta í heiminum öllum. Þarna hafði fólk áttað sig á því að athafnir og nýting mannskepnunnar gæti hæglega leitt til skertra náttúrugæða og því væri rétt að verja hana með einverjum hætti fyrir ágangi mannfólksins. Þá jók aukin ásókn í svæðið af ferðamönnum einnig áhuga á því að gera svæðið að þjóðgarði.
Með auknum rannsóknum og athugunum fólks jókst áhugi á umhverfismálum og upp úr seinna stríði varð nokkur vakning með kenningum Aldo Leopolds, sem kallaður hefur verið faðir náttúrusiðfræðinnar en hann opnaði augu fólks fyrir mikilvægi þess að maðurinn lifði í sátt og samlyndi við náttúru og umhverfi. Árið 1962 gaf Rachel Carson út bók sína Raddir vorsins þagna, en hún olli straumhvörfum í umræðunni um umhverfismál. Með skrifum sínum sýndi Carson fram á að stórfelld notkun skordýraeiturs á borð við DDT, sem þá var orðin almenn, þaggaði iðulega niður í fleiri lífverum en skordýrunum og gæti þannig haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífríkið allt.
Á næstu áratugum var þróunin hröð. Segja má að umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi 1972, um verndun umhverfis mannsins, hafi markað upphaf alþjóðlegrar samvinnu um umhverfismál og árið 1987 náði hugtakið Sjálfbær þróun alþjóðlegri útbreiðslu með útgáfu Brundtlands-skýrslunnar svokölluðu. Skýrslan var undanfari Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992 þar sem hæst bar undirritun fyrsta loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, samningsins um líffræðilega fjölbreytni Dagskrár 21, undanfara Staðardagskrár 21 þar sem sveitarstjórnir settu sér eigin sjálfbærniáætlanir. Í framhaldinu hafa verið gerðir fjöldi alþjóðlegra samninga um tiltekin umhverfismál; þjóðir heims komu sér saman um þúsaldarmarkmið og nú síðast sjálfbærnimarkmið fyrir árið 2030 og almenningi hefur verið tryggð aukin aðkoma að umhverfismálum með Árósasamningnum. Í dag eru loftslagsmálin mál málanna sem speglast hvað sterkast í Parísarsamningnum þar sem þjóðir heims hafa einsett sér að halda meðalhlýnun jarðar innan við 2°C og helst innan við 1,5°C.
Það hefur því margt áunnist og mikil vitundarvakning er í umhverfismálum. Fögur fyrirheit duga þó skammt ef þeim er ekki fylgt eftir með skýrum aðgerðum. Eins og stjórnarsáttmálinn ber með sér stendur fullur vilji ríkisstjórnarinnar til þess að láta efndir fylgja orðum.
Í loftslagsmálum er markið sett hátt og hyggst ríkisstjórnin ná fram 40% samdrætti í útlosun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 og svokölluðu kolefnishlutleysi árið 2040. Í júní tekur nýtt Loftslagsráð til starfa undir forystu þungavigtarmanns í loftslagsmálum á heimsvísu, Halldórs Þorgeirssonar. Halldór hefur síðan 2004 starfað sem einn af æðstu yfirmönnum Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og hafði þar m.a. yfirumsjón með samningaferlinu fyrir Parísarsamninginn 2015.
Stjórnarráðið sjálft hyggst ekki láta sitt eftir liggja í loftslagsmálunum því ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja 12 milljónir til gerðar loftslagsstefnu og aðgerðaáætlunar fyrir Stjórnarráðið. Hluti fjármagnsins verður notaður í vinnu sérfræðings og hluti til beinna aðgerða til að draga úr og hefja kolefnisjöfnun á starfsemi Stjórnarráðsins.
Á árinu verður Loftslagssjóður settur á laggirnar í því skyni að styrkja nýsköpun og rannsóknir og unnið er að heildstæðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að draga úr útlosun og binda kolefni í gróðri og jarðvegi.
Með nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður í fyrsta sinn tryggt stóraukið fjármagn til þessa málaflokks, en á næstu fimm árum verður tæpum sjö milljörðum króna varið til loftslagsmála.
Náttúruverndin mun sömuleiðis skipa stóran sess á þessu kjörtímabili. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að ráðast í átak í friðlýsingum og stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands og á dögunum skipaði ég þverpólitíska nefnd um miðhálendisþjóðgarð. Slíkur þjóðgarður felur í sér mörg tækifæri fyrir byggðaþróun því erlendar og innlendar rannsóknir sýna að þjóðgarðar skila ekki bara miklum tekjum í þjóðarbúið heldur einnig til hinna dreifðu byggða.
Á sama tíma er nauðsynlegt að hlúa að ferðamannastöðum sem eru undir sífellt meira álagi ferðamanna. Um það vitna tíðar lokanir svæða nú þegar frost er að fara úr jörðu. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að auka fjárframlög til náttúruverndar um rúma sjö milljarða króna á næstu fimm árum og fer stór hluti þeirra fjármuna í að byggja upp innviði til verndar náttúru á ferðamannastöðum, í landvörslu, þ.m.t. heilsárslandvörslu og til uppbyggingar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands svo eitthvað sé nefnt.
Góðir gestir
Þegar umhverfismál ber á góma verður ekki hjá því komist að skoða hina hlið peningsins – hvað veldur því að náttúra og umhverfi á undir högg að sækja á svo mörgum sviðum. Þegar vel er að gáð hverfast vandamálin sem við stöndum frammi fyrir á sviði umhverfismála um neyslu okkar mannfólksins og allar þær þarfir – raunverulegar og tilbúnar – sem við leitumst við að uppfylla. Sóunin, sem okkur verður jafnan tíðrætt um, er fyrst og fremst afleiðing ofneyslu og þeirrar tilhneygingar okkar allra að við öflum okkur meira en við komumst yfir að nota. Hvort sem um er að ræða lífrænan úrgang, almennt heimilissorp, plastnotkun eða matarsóun þá á hún upphaf sitt í þörfum og neysluvenjum mannskepnunnar.
Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að um leið og maðurinn er orsakavaldur að þessum vanda þá hefur hann alla þræði í hendi sér til að bæta ástandið. Maðurinn getur þannig og verður raunar að endurskoða neyslu sína, vera gagnrýnni á þarfir sínar og ef til vill tileinka sér meiri nægjusemi þegar kemur að veraldlegum gæðum. Samhliða er mikilvægt að slá í klárinn hvað varðar endurnýtingu og endurvinnslu – að horfa til þeirra verðmæta sem fara forgörðum með urðun sorps og horfa á úrgang sem hráefni, hvort heldur hann er í formi plasts, matar, lífræns úrgangs eða annars sem nýta má aftur og aftur. Það græða allir á slíku hringrásarhagkerfi – framleiðendur, neytendur, náttúran og framtíðin.
Og talandi um framtíðina. Ég hóf orð mín hér á upprifjun úr fortíðinni og ræddi um nokkrar helstu vörður á leið okkar í umhverfismálunum. Það skiptir hins vegar öllu máli hversu vel okkur tekst til að láta þessar vörður vísa okkur réttu leiðina í framtíðinni. Á þeirri vegferð er ánægjulegt að verða þess áskynja að æ fleiri – ekki bara stjórnvöld heldur einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki – hafa hlaðið sínar eigin vörður í því skyni að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfi og náttúru. Hér á eftir hlýtur eitt slíkt fyrirtæki viðurkenninguna Kuðunginn fyrir framúrskarandi umhverfisstarf á liðnu ári.
Og svo eru það þeir sem koma til með að byggja framtíðina, unga fólkið. Þeirra leiðsögn er að sjálfsögðu mikilvæg og ómetanlegt veganesti á okkar leið. Ungt fólk hefur enda ekki bara skoðanir á því hvernig við ættum að haga málum heldur oft á tíðum frábærar hugmyndir og lausnir á ýmsum umhverfisvandamálum sem nútíminn glímir við. Það er því ánægjulegt að fá tækifæri til þess hér á eftir að afhenda grunnskólanemendum hér á eftir viðurkenninguna Varðliða umhverfisins, sem í ár er veitt í ellefta sinn fyrir frábær umhverfisverkefni.
Góðir gestir.
Það er þekkt og viðurkennd staðreynd að sú jörð sem við byggjum höfum við ekki erft frá forfeðrum okkar heldur erum við með hana að láni frá börnum okkar, framtíðarfólkinu. Á stundum sem þessum er því gott að staldra við og velta því fyrir okkur hvert við stefnum. Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Þegar við lítum til þeirra áskorana sem framundan eru í umhverfismálunum, þá er mikilvægt að líta til langrar framtíðar. Með skýrri sýn á hvar við viljum vera árið 2030, 2040 og 2050, fáum við það leiðarljós sem við þurfum. Sýn mín er sú að árið 2030 standist Ísland skuldbindingar sínar gagnvart loftslagsmálum alþjóðasamfélagsins, hafi tryggt verndun miðhálendis Íslands og fleiri verðmætra svæða, snúið við landeyðingu og spornað við plastmengun í hafi með eftirtektarverðum hætti. Á sama tíma munum við nýta betur auðlindir og hafa eflt til muna hringrásarhugsun í auðlindanýtingu. Gleymum því heldur ekki að við erum hluti af mun stærri heimi, hvaðan við getum dregið mikinn lærdóm en að við búum einnig yfir ótal tækifærum til að gera vel, og þannig að eftir sé tekið.
Ég er þess fullviss að með samstilltu átaki og skýrum markmiðum séu okkur allir vegir færir.
Innilega til hamingju með daginn.