Hoppa yfir valmynd
04.05.2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Umhverfisstofnunar 2018

Forstjóri, starfsmenn Umhverfisstofnunar og aðrir ársfundargestir.

Það er mér bæði heiður og ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi Umhverfisstofnunar. Ég vil enn fremur nota tækifærið og þakka ykkur fyrir hlýjar móttökur þegar ég kom í heimsókn til ykkar í vetur, bæði hér í Reykjavík og á þrjár starfsstöðvar úti á landi. Ég er sérstaklega þakklátur fyrir hraðstefnumótin við hin mismunandi teymi stofnunarinnar sem mér var boðið á. Þau voru mjög upplýsandi um fjölbreytta starfsemi og ábyrgðarsvið stofnunarinnar. Sjaldan hef ég þó verið jafn uppgefinn eftir stefnumót!
Starfsemi Umhverfisstofnunar er umfangsmikil og mikilvæg og of langt mál að telja það allt upp hér.

Það skiptir mig sem ráðherra og ráðuneytið miklu máli að eiga stofnun eins og Umhverfisstofnun að þegar kemur að ýmsum flóknum umhverfismálum. Hafið þið jafnan brugðist afar vel og snöggt við beiðnum úr ráðuneytinu, oft á tíðum með stuttum fyrirvara. Það er mér og ráðuneytinu mikilsvert. Vil ég hér nefna sérstaklega aðstoð við vinnslu skýrslu til Alþingis um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til Sameinaðs sílíkons og úttektar Ríkisendurskoðunar á því máli.

Mín skilaboð til allra er að mikilvægt er að læra af þeirri reynslu sem skapast varðandi þessa tilteknu framkvæmd. Almennt þurfum við að stíga varlega til jarðar í þessum málum, vanda allar ákvarðanir, eftirlit og eftirfylgni. Ég vona að tími frekari mengandi stóriðju á Íslandi tilheyri hér með sagnfræði fortíðar.

Ágætu ársfundargestir.

Stefnumótun til langs tíma er mjög mikilvæg þannig að til sé vegvísir sem skili sem bestum árangri fyrir umhverfið. Í ljósi þessa ætla ég að gera nokkur viðfangsefni Umhverfisstofnunar að umræðuefni hér.

Í loftslagsmálum horfum við til langs tíma í anda langtímastefnumörkunar. Loftslagsmál er málaflokkur sem gerð eru ítarleg skil í stjórnarsáttmála. Ríkisstjórnin stefnir að því að ná fram 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040. Í næsta mánuði tekur svo til starfa Loftslagsráð sem verður stjórnvöldum öflugur liðsauki í þessari vinnu. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja 12 milljónir kr. til að vinna loftslagsstefnu og aðgerðaáætlun fyrir Stjórnarráðið. Hluti fjármagnsins verður notaður í vinnu sérfræðings og hluti til beinna aðgerða til að draga úr og hefja kolefnisjöfnun á starfsemi Stjórnarráðsins. Hér hef ég lagt áherslu á að teknar verði inn áherslur um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur sem hafa beina tengingu við grænt hagkerfi og markmið í loftslagsmálum – vinna Umhverfisstofnunar spilar þar stóra rullu. Síðar á árinu verður Loftslagssjóður settur á laggirnar í því skyni að styrkja nýsköpun og rannsóknir og unnið er að heildstæðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda kolefni í gróðri og jarðvegi. Þá er á teikniborðinu landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum. Ný fjármálaáætlun 2019-2023 sem nú liggur fyrir þinginu, endurspeglar áherslur stjórnarsáttmálans, en ég hef beitt mér ötullega fyrir því að ná inn auknum fjármunum í loftslagsmálin. Á næstu fimm árum verður tæpum sjö milljörðum króna varið til loftslagsmála. Við vinnu að öllum þessum verkefnum skiptir gott starf og fagþekking starfsfólks Umhverfisstofnunar miklu máli.
Langtímastefnumótun í loftslagsmálum snýst þó í grunninn um að breyta hugarfari og neyslumynstri okkar allra.

Úrgangur er fylgifiskur neyslu og mikilvægt er að við séum með puttann á púlsinum í þessum málaflokki. Þar skiptir mestu máli að draga úr neyslu svo sem minnstur úrgangur myndist.

Ég hef fullan hug á að nota langtímastefnumörkun til að vinna að úrgangsmálunum eða réttara sagt til að stefna í átt að hringrásarhagkerfi þannig að við drögum úr ofneyslu og sóun og nýtum þau hráefni sem eru til staðar betur og lítum á úrgang sem auðlind. Hér tel ég miklu skipta að hlúa að nýsköpun og vera vakandi fyrir nýjum leiðum og áherslum. Þar má nefna notkun á seyru í landgræðslu, en gera þarf mun betur til að endurnýta fosfór og áburðarefni.

Unnið er að stefnu um meðhöndlun úrgangs 2019 til 2030 og hef ég hug á að í nýrri stefnu komi saman landsáætlun um meðhöndlun úrgangs og stefna um úrgangsforvarnir. Umhverfisstofnun heldur utan um þessa vinnu og hlakka ég til að kynna mér betur stöðu þeirrar vinnu á næstunni.

Plast. Um miðja síðustu öld var plast komið til sögunnar en ekki í almenna notkun. Hér þurfum við langtímasýn sem snýst um að óþarfa notkun plasts heyri brátt sögunni til og að okkur takist að sporna við plastmengun í hafi sem allra fyrst. Plastmengun er svo sannarlega ein af þeim áskorunum sem framundan eru í umhverfismálum. Fyrr í vetur átti ég frjóan hugarflugsfund með litlum hópi fólks um plastmál. Á þeim fundi tóku m.a. þátt starfsmenn Umhverfisstofnunar sem lögðu fram góðar hugmyndir og málefnalegar tillögur sem unnið verður áfram með í ráðuneytinu.

Ég vil tilkynna um það hér að ég mun fljótlega skipa samráðsvettvang um aðgerðaráætlun um plastmengun sem hefur það hlutverk að koma með tillögur um hvernig dregið verði úr notkun og bæta megi endurvinnslu plasts sem og takast á við plastmengun í hafi. Samráðsvettvangurinn mun hafa hliðsjón af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun. Samráðsvettvangurinn mun m.a. taka til skoðunar hvaða rannsóknir og vöktun á plastmálum þurfi að ráðast í, þær stjórnvaldsaðgerðir sem æskilegt væri að koma í framkvæmd, hvernig fræðslu og kynningu um plastnotkun og plastmengun verður best fyrir komið, hreinsun plasts úr umhverfi okkar og hvernig best sé að stuðla að nýsköpun í vörum í stað plastnotkunar. Tekið verður mið að tillögum sem þegar hafa komið fram. Í þessum hópi munu m.a. eiga sæti fulltrúar stjórnarandstöðu- og stjórnarflokka til að skapa víðtæka samstöðu um stjórnvaldsaðgerðir. Hópnum er ætlað að klára vinnu sína á yfirstandandi ári.

Náttúruverndin mun sömuleiðis skipa stóran sess á þessu kjörtímabili. Hér legg ég áherslu á nána samvinnu Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að ráðist verði í átak í friðlýsingum og þjóðgarður stofnaður á miðhálendi Íslands. Á dögunum skipaði ég þverpólitíska nefnd um miðhálendisþjóðgarð. Slíkur þjóðgarður felur í sér mörg tækifæri fyrir byggðaþróun því erlendar og innlendar rannsóknir sýna að þjóðgarðar skila ekki bara miklum tekjum í þjóðarbúið heldur einnig til hinna dreifðu byggða. Þá hef ég samið við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um að vinna athugun á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða. Sú vinna hefst á næstu vikum og niðurstaðna að vænta í haust. Um er að ræða ein tíu svæði víðsvegar um landið.

Fáir þekkja það betur en starfsfólk Umhverfisstofnunar hve mikilvægt er að hlúa að friðlýstum svæðum og ferðamannastöðum sem eru undir sífellt meira álagi ferðamanna. Um það vitna tíðar lokanir svæða nú þegar frost er að fara úr jörðu. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að auka fjárframlög til náttúruverndar um rúma sjö milljarða króna á næstu fimm árum og fer stór hluti þeirra fjármuna í að byggja upp innviði til verndar náttúru á ferðamannastöðum, í landvörslu, þ.m.t. heilsárslandvörslu og til uppbyggingar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands svo eitthvað sé nefnt. Þá er brýnt að sameina í eina stofnun allt er lýtur að friðlýsingum, náttúruvernd og rekstri og umsjón friðlýstra svæða.

Ágæta starfsfólk Umhverfisstofnunar og aðrir ársfundargestir.

Ég hef kynnst því af eigin raun að hjá Umhverfisstofnun starfar öflugt fólk sem hefur metnað í störfum sínum, býr yfir sköpunarkrafti og gleði. Ég óska ykkur alls velfarnaðar í störfum ykkar við að vinna að umhverfisvernd og efla þannig samfélag okkar. Ég vil þakka ykkur öllum aftur fyrir að taka vel á móti mér á nýjum vettvangi og hlakka til frekara samstarfs.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta