Hoppa yfir valmynd
20.09.2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á Skipulagsdaginn 2018

Sæl verið þið og til hamingju með daginn,

Það er ánægjulegt að fá að ávarpa ykkur á Skipulagsdeginum, enda eru skipulagsmál stór og mikilvægur málaflokkur – málaflokkur sem sjálfkrafa er og verður fyrirferðarmikill hjá ráðherra skipulagsmála. Sjálfur hef ég frá unga aldri verið yfir meðallagi skipulagður og fundið þörf hjá mér til að búa til margvíslega lista og endalaus Excel-skjöl. Því finnst mér sérlega gaman að bera nú þennan virðulega titil, að vera ráðherra skipulagsmála!

Ég ætla að fara nokkuð vítt og breitt yfir sviðið og koma inn á nokkrar alþjóðlegar og innlendar áherslur í skipulagsmálum sem ég tel að við þurfum sérstaklega að líta til.

Skipulagsmál kalla á góða samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Skipulag snertir líf okkar með margvíslegum hætti og er mikilvægt stjórntæki til að takast á við sameiginlegar áskoranir: Loftslagsmál, ferðamennsku, húsnæðismál, óbyggð víðerni og svona mætti lengi telja. Sveitarfélögin gegna hér mikilvægu hlutverki.

Fyrir þremur árum komu ríki heims sér saman um afar mikilvæg og merkileg markmið: Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Eitt þeirra – markmið númer ellefu – fjallar um sjálfbærar borgir og samfélög: Að gera borgir og íbúðarsvæði örugg, sjálfbær og öllum aðgengileg. Meðal þess sem nefnt er sem undirmarkmið er að íbúar alls staðar í heiminum taki meiri þátt í skipulagsmálum og samkomulagi um sjálfbærni. Talað er um græn svæði og almenningssamgöngur og að dregið verði úr skaðlegum umhverfisáhrifum í þéttbýli, meðal annars með því að bæta loftgæði og meðhöndlun úrgangs. Stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða. Sem sé: Farsæl skipulagsgerð er hér grundvallaratriði og sveitarfélögin gegna lykilhlutverki. Þetta heimsmarkmið hef ég haft í huga við þá vinnu sem ég hef komið að í ráðuneytinu síðastliðið ár.

Hér skal fyrst nefna að ég hef falið Skipulagsstofnun að ráðast í að fjalla um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í landskipulagsstefnu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála. Gert er ráð fyrir að Landsskipulagsstefna 2015-2026 gildi áfram en að þessir þættir verði mótaðir nánar í henni. Hvernig má til dæmis beita skipulagsgerð til að draga úr losun eða stuðla að bindingu gróðurhúsalofttegunda? Eða til að bregðast við og aðlagast þeim loftslagsbreytingum sem eru óumflýjanlegar?

Loftslagsmálin eru stærsta sameiginlega viðfangsefni okkar jarðarbúa – verkefni sem við þurfum að taka afar alvarlega. Og það er brýnt að landsskipulagsstefnan okkar endurspegli áherslur í loftslagsmálum. Í fyrstu útgáfu af nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem kynnt var í síðustu viku er auk annars lögð áhersla á orkuskipti í samgöngum, eflingu almenningssamgangna og hjólreiða og göngu sem ferðamáta. Þar gegnir skipulagsgerð sveitarfélaga lykilhlutverki með því að byggð og samgöngumannvirki séu skipulögð út frá hjólreiðum, gangandi fólki og almenningssamgöngum. Sveitarfélög þurfa síðan að vinna náið saman, bæði innbyrðis og með ríkinu, líkt og Borgarlínan er gott dæmi um.

Annað sem mig langar að nefna sérstaklega í tengslum við áðurnefnda Landsskipulagsstefnu kemur inn á svið umhverfisfræðinnar sem við Íslendingar eru núna nýlega að kynnast betur. Við þekkjum öll hvernig útivera, ekki síst í villtri náttúru og á grænum svæðum getur hjálpað okkur að hlaða batteríin. Vaxandi meðvitund er um áhrif hins byggða umhverfis á andlega og líkamlega heilsu og vellíðan, t.d. vönduð almenningsrými, aðgengi að villtri náttúru og grænum svæðum, aðstaða til göngu og hjólreiða og þar fram eftir götunum. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að í Landsskipulagsstefnunni verði sett fram stefna og leiðbeiningar um skipulagsgerð sem taki mið af þessum sálfélagslegu þáttum.

Gott skipulag verður betra ef aðkoma almennings og hagsmunaaðila verður snemma í ferli ákvarðanatöku. Mörg dæmi eru til þar sem slíkt er til fyrirmyndar. Mér dettur til dæmis í hug Vatnajökulsþjóðgarður og hvernig aðkoma félagasamtaka, ferðaþjónustu og sveitarfélaga á sér þar stað strax í upphafi vinnu við stjórnunar- og verndaráætlun. Svæðisskipulag Snæfellsnes er einnig gott dæmi um virka og breiða samráðsnálgun við skipulagsgerð. Svæðisskipulagið fékk skipulagsverðlaunin árið 2014 og í umsögn dómnefndar var einmitt m.a. vísað til þess að mótun svæðisskipulagsins hefði verið í nánu samstarfi við samtök í atvinnulífinu og íbúa á Snæfellsnesi.

Þess má geta að við vinnu að nýju frumvarpi um stofnun verndaðra svæða, oft nefnd þjóðgarðastofnun, og ég kynnti á einum átta fundum víðsvegar um land í ágúst og september, er verið að nota stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs og heimfæra upp á stjórnun annarra friðlýstra svæða á landinu – þetta mun, verði frumvarpið að lögum, auka til muna lýðræðislega þátttöku sveitarfélaga, umhverfissamtaka, útivistarsamtaka og ferðaþjónustuaðila í stjórnun friðlýstra svæða.

Og þá komum við að umræðu um Árósasamninginn. Samningurinn var fullgiltur á Íslandi árið 2011 en hann leggur þær skyldur á aðildarríki hans að tryggja almenningi aðgengi að upplýsingum um umhverfismál, að geta haft áhrif á ákvarðanatöku sem snertir umhverfið og geta borið ákvarðanir er snerta umhverfið undir óháða úrskurðaraðila. Ísland hefur í tvígang, árin 2014 og 2017, skilað skrifstofu samningsins skýrslu þar sem farið er yfir stöðu innleiðingar á ákvæðum samningsins. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að endurskoða skuli á fyrri hluta kjörtímabilsins ákvæði um aðgang samtaka almennings að ákvörðunum á sviði umhverfismála. Jafnframt segir að þjóðréttarskuldbindingum Íslands samkvæmt Árósasamningnum skuli komið til framkvæmda.

Af þessu tilefni hefur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu verið unnin drög að aðgerðaráætlun um eftirfylgni landsskýrslna Íslands um innleiðingu Árósasamningsins og ákvæðum stjórnarsáttmálans um þetta málefni. Drögin innihalda áherslur á fjórum sviðum og alls þrettán tillögur að aðgerðum. Tvær aðgerðir eru á ábyrgð Skipulagsstofnunar og vil ég nefna þær hér sérstaklega.

Í fyrsta lagi úttekt á áhrifum þátttöku almennings á ákvarðanatöku í skipulags- og framkvæmdaverkefnum og tillaga að verklagi sem tryggir þátttöku almennings og umhverfisverndarsamtaka snemma í ferli ákvarðanatöku. Drögin voru til umsagnar á samráðsvef Stjórnarráðsins sl. sumar ásamt því að samráðsfundur var haldinn í ráðuneytinu með þeim aðilum er skiluðu inn umsögnum. Verið er að fara yfir þær umsagnir sem bárust og mun aðgerðaráætlunin verða kynnt síðar í haust.

En að lokum að annars konar skipulagi. Síðastliðið vor var frumvarp um skipulag haf- og strandsvæða samþykkt á Alþingi. Lögin tóku gildi þann 29. júní. Aukin starfsemi á þessum svæðum og skortur á yfirsýn og stefnumótun um hana sýndi fram á ríka þörf fyrir haf- og strandsvæðaskipulag. Með slíku skipulagi má draga úr hagsmunaárekstrum og stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda og vernd umhverfisins. Samkvæmt lögunum skal í september 2018 hafin vinna við gerð strandsvæðisskipulags bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Setja skal á fót svæðisráð sem hefur það hlutverk að vinna að tillögu að strandsvæðisskipulagi fyrir viðkomandi svæði eða endurskoðun þess. Bréf þar sem óskað var tilnefninga í svæðisráð voru send út í sumar og er vinna við skipun ráðsins á lokametrunum. Einnig er vinna við gerð reglugerðar um skipulag haf- og strandsvæða á lokametrunum. Ég ber miklar vonir við þessa mikilvægu vinnu alla.

Að lokum vil ég minna okkur á að skipulagsmál eru langtíma mál og við þurfum langtíma hugsun. Ég óska ykkur alls hins best og vona að dagurinn í dag verði ykkur gagnlegur, skemmtilegur og áhugaverður. Af dagskrá hans sýnist mér í öllu falli hann vera afar vel skipulagður!

Takk fyrir og góðar stundir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta