Hoppa yfir valmynd
27.12.2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Tækifæri í samþættingu landbúnaðar og náttúruverndar

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Morgunblaðinu 27. desember 2018.

 

Tækifæri í samþættingu landbúnaðar og náttúruverndar

Fjölmörg tækifæri geta falist í að samþætta landbúnað og náttúruvernd. Í byrjun jólamánaðarins skrifuðum ég og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, undir samstarfsyfirlýsingu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Bændasamtakanna. Yfirlýsingin lýsir vilja til að vinna saman að málefnum náttúruverndar og landbúnaðar og var undirrituð í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Það var vel við hæfi að skrifa undir á þeim góða stað því árið 2002 var svæðið friðlýst og árið 2011 var friðlýsta svæðið stækkað og fékk þá nafnið Andakíll. Markmið friðlýsinganna er að stuðla að varðveislu og viðhaldi votlendis og búsvæða fjölmargra fuglategunda, tryggja aðgengi almennings að svæðinu til náttúruskoðunar og tryggja möguleika á rannsóknum á svæðinu. Ljóst er að friðlýsingarnar 2002 og 2011 og sú landbúnaðarstarfsemi sem fer fram á Hvanneyri fara einkar vel saman því þar hefur tekist að samþætta blómlegan landbúnað við mikilvægar aðgerðir til verndar náttúrunni.

Markmið samstarfsyfirlýsingarinnar er einmitt að kanna hvernig þessi tvö mikilvægu viðfangsefni, náttúruvernd og íslenskur landbúnaður, geta samtvinnast frekar. Umhverfisyfirvöld hafa það í sínum reynslubanka að vinna með bændum í ýmiss konar skógræktar– og landgræðsluverkefnum, til að mynda Bændur græða landið. Sum þeirra verkefna fela í sér endurheimt vistkerfa og stuðla þannig að náttúruvernd. Nú er hugsunin sú að taka skrefið lengra og vinna að frekari nýsköpun í náttúruvernd í samstarfi við bændur. Þeir eru vörslumenn lands og stór hluti landsins er í þeirra umsjón.

Staðbundin þekking heimafólks mikilvæg

Fjölmörg tækifæri geta falist í því að samrýma landbúnað og náttúruvernd. Þar er hægt að nefna aukin umhverfisgæði lands sem nýtur formlegrar verndar sem getur aftur skilað sér í meiri gæðum vara sem þar eru framleiddar. Svæði sem eru friðlýst komast á ákveðinn stall og njóta af þeim sökum aukinna vinsælda hjá íslenskum og erlendum ferðamönnum. Ferðamenn þarf að þjónusta með ýmsum hætti og má sjá fyrir sér sölu á vörum beint frá býli og leiðsögn staðkunnugs heimafólks um vernduð eða friðlýst svæði. Leiðsögn heimamanna getur veitt ferðamanninum meiri innsýn í samlegðaráhrif náttúruverndarinnar og þess landbúnaðar sem þar er stundaður.

Við greiningu tækifæra eins og þeirra sem hér eru tekin dæmi af er mikilvægt að vanmeta ekki þau verðmæti sem felast í hinni staðbundnu þekkingu bænda og heimafólks. Um það mun samstarfið snúast; að greina í samvinnu við bændur hvernig nýting lands til landbúnaðar og náttúruverndin geta spilað saman og stutt hvort annað.

Ég er spenntur að hefja þetta samstarf við Bændasamtök Íslands og bjartsýnn á að uppskeran verði góð.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta