Hoppa yfir valmynd
18.01.2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á umhverfisþingi Gallup

Fyrir jól fékk ég skemmtilegt símtal. Gísli Marteinn var á línunni. Sagðist vera að vinna áramótaútgáfu af þættinum sínum og að hann hefði rætt við ýmsa álitsgjafa. Spurð um hver hefðu verið straumhvörf ársins hefðu þau mjög mörg nefnt umhverfismálin. Og hvort ég gæti ekki komið í þáttinn þarna milli jóla og nýárs og brugðist við þessu og talað um umhverfismál og þá vitundarvakningu sem hefði orðið um þau. Ég varð náttúrlega voðalega glaður að heyra þessar frábæru fréttir og var ekkert að segja honum að ég væri upptekinn og hefði ætlað að vera í sveitinni hjá mömmu og pabba.

Hér á eftir verður kynntur hluti af viðamikilli könnun Gallup sem staðfestir hvorki meira né minna en það sem álitsgjafarnir sögðu. Það liggur sem sé fyrir: Umhverfismálin hafa meira vægi í hugum fólks en áður.

Þegar fólk var spurt að því hverjar væru helstu áskoranirnar sem Ísland stæði frammi fyrir lentu umhverfismálin í þriðja sæti. Og þetta var áður en fólk vissi að það var að svara umhverfiskönnun. Umhverfismálin eru sem sé orðin eitt af aðalmálunum og helmingi fleiri nefna þau nú en í fyrra.

Það er ánægjulegt að sjá að fleiri en áður segjast hugsa mikið um hvað þau geti gert til að draga úr áhrifum sínum á loftslagið: Nærri 60%! Og meira að segja hjá þeim sem hugsa lítið um áhrif sín á umhverfið sjáum við jákvæða þróun: Ríflega 40% þeirra hugsa meira um þetta en fyrir ári síðan.

En þetta er ekki bara spurning um að hugsa heldur líka gera …

Þannig er gleðilegt að sjá að 63% fólks segist hafa breytt hegðun sinni síðastliðið ár til að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftslagsbreytingar.

En af hverju er þetta? Hvað veldur þessum breytingum á viðhorfum og hegðun fólks? Samkvæmt könnuninni eru það fyrst og fremst þrjú atriði: Aukin umræða, fréttaumfjöllun og aukin fræðsla.

Ég hef alltaf haft þá bjargföstu trú að það að auka sýnileika umhverfismála skipti máli. Ég fagna því að sjá birtast hér í þessari könnun að það að umhverfismálin séu í umræðunni, að fræðsla fari fram um þau og þau séu í fjölmiðlum geti einmitt breytt viðhorfum fólks.

En hafa umhverfismálin þá verið í umræðunni, verið í fréttum?
Já, nefnilega. Samstarfskona mín fletti því upp hjá Fjölmiðlavaktinni hversu margar fréttir hafa birst um umhverfismál seinustu ár og hver þróunin hefur verið.

Sé litið til frétta sem innibera orðið „umhverfismál“ hefur þeim fjölgað um tæp 80% á einungis fimm árum. Plast hefur aldeilis komist á dagskrá og 56% aukning orðið á fréttum um plast bara seinustu þrjú ár. Nær tvöföldun hefur orðið á fréttum um friðlýsingar á sama tímabili. Ég hef sjálfur lagt mikla áherslu á þetta í ráðuneytinu – að við gerum í sameiningu allt sem við getum til að auka sýnileika umhverfismálanna.

Þegar við förum enn lengra aftur í tímann verður myndin síðan jafnvel enn dramatískari. Þannig voru sem dæmi sagðar 164 fréttir sem innihéldu orðið „loftlagsbreytingar“ árið 2010 en í fyrra tæplega 1.000. Það slagar hátt í að vera þrjár fréttir á dag um loftslagsbreytingar, allan ársins hring.

Ég dreg síðan hér fram annað áherslumál hjá mér sem er neysla og sóun, hvort sem varðar plast, matarsóun eða annað. Við getum ekki gengið endalaust á gæði Jarðar og verðum að vera meðvituð um að þessi neysla hefur auðvitað líka loftslagsvinkil. Sóun er sannarlega eitthvað sem komið er inn í almenna umræðu og vitund og hvað einn anga hennar varðar sem er sóun á mat langar mig að benda á að árið 2010 var ekki flutt ein einasta frétt á Íslandi sem innihélt orðið „matarsóun“ en í fyrra voru þær vel yfir 200 talsins.

En er þetta þá allt eintóm hamingja? Ekki alveg. Um 75% fólks gefur viðleitni stjórnvalda og sveitarfélaga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda meðaleinkunn eða lægra. Þetta sýnir hins vegar að fólk er kröfuhart í þessum málaflokki og það er gott. Reyndar er rétt að halda því til haga að þeim fækkar jafnframt á milli ára sem segja að íslenskir stjórnmálamenn geri of lítið til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Samt eru það rúmlega 60% – þannig að það er vissulega verk að vinna – og það veit ég.

Eins og þið þekkið kom síðastliðið haust út fyrsta útgáfa af aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og fram undan eru viðamiklar aðgerðir við að binda bæði kolefni úr andrúmslofti og draga úr brennslu innflutts og mengandi jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Fram undan eru margvísleg verkefni tengd bæði aðgerðaáætluninni en líka áherslu á plast, neyslu og sóun. Til að mynda er unnið að því að koma Loftslagssjóði á fót, sem er nýsköpunarsjóður, og fljótlega mæli ég fyrir frumvarpi um banni við afhendingu burðarplastpoka í verslunum. Allt helst þetta í hendur.

Kæru gestir,

Könnun Gallup sýnir að umhverfismálin eru komin á dagskrá og að upplýsingar til fólks skipta mestu við að breyta viðhorfum þess. Þótt áhyggjur fólks vegna loftslagsbreytinga hafi aukist þá sýnir könnunin jafnframt að við þurfum við ekki að vera buguð af þeim til að vilja bregðast við.

Ég vil þakka Gallup fyrir mikilvægt frumkvæði sitt. Umhverfiskönnunin mun án efa nýtast á fjölmarga vegu, við að móta aðgerðir, huga að fræðslu og forgangsraða verkefnum, hvort sem er hjá hinu opinbera, hjá sveitastjórnarfólki, umhverfisverndarsamtökum, fyrirtækjum eða öðrum. Spennandi tímar eru svo sannarlega fram undan.

Bestu þakkir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta