Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á morgunverðarfundi Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstra svæða
Góðir gestir,
Við Íslendingar erum rík af náttúrufegurð. Náttúran er stórbrotin og oft og tíðum ægileg. Hún hefur sterkan karakter, og breytir um skap með litlum fyrirvara sem birtist okkur sem mismunandi myndir og upplifanir, oft af sömu stöðunum. Okkur ber siðferðisleg skylda til að halda utan um þennan náttúruarf okkar.
Á náttúrunni byggir ferðaþjónustan, stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar, stóran hluta afkomu sinnar. Það er því mikið undir að vernda og varðveita þessi gæði. Til þess þarf skýra sýn, markmið og aðgerðir – í senn í þágu náttúrunnar sjálfrar og atvinnulífsins.
Á undanförnum árum hefur verið unnið að þessu. Árið 2016 voru lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, einnig kallað Landsáætlun, samþykkt á Alþingi. Í fyrra lagði ég síðan fram á þingi í fyrsta sinn stefnumótun til 12 ára með stoð í þessum lögum. Í stefnumótuninni eru sýnin og markmiðin lögð fram og getið margvíslegra aðgerða til verndar íslenskri náttúru í samhengi við ferðaþjónustu. Á meðal áhersluatriða minna í 12 ára stefnumótuninni er:
• Að sérstök áhersla sé á að sinna stöðum og svæðum sem eru friðlýst og vernd þeirra minja sem þar eru.
• Að áhersla sé jafnframt á þá staði og svæði sem eru undir miklu álagi vegna ferðamanna og náttúra og minjar hafa látið á sjá.
• Að áhersla sé lögð á eflingu landvörslu sem aðgerðar til verndar náttúru og minja auk eftirlits og þjónustu.
• Að áhersla sé á að útfæra leiðir til stýringar á umferð ferðamanna í þágu verndar náttúru og minja og verði það gert með tilliti til almannaréttar.
• Að áhersla sé á að áætlunin stuðli að aukinni fagmennsku, vandaðri hönnun sem fellur vel að landslagi, bættu skipulagi og góðum vinnubrögðum við uppbyggingu innviða.
• Að unnið sé að langtímasýn, samræmingu vinnu og samhæfingu þeirra aðila sem að vernd náttúru og minja koma.
Unnið er að því að koma þessum stefnumálum í framkvæmd, hvort sem er með lagabreytingum, aukinni þekkingu á verklegum framkvæmdum, auknu fjármagni eða áherslubreytingum.
Á grundvelli stefnumótunarinnar var einnig í fyrra lögð fram í fyrsta skipti fjármögnuð verkefnaáætlun til næstu þriggja ára, þar sem úthlutað var rúmum 2 ma.kr. til uppbyggingar innviða, aðallega á friðlýstum svæðum, og náði til verndar náttúruminja og menningarminja. Náði úthlutunin til áranna 2018-2020. Hluti fjármagnsins fór til landvörslu.
Í marsmánuði mun ég leggja fram endurskoðaða verkefnaáætlun, þar sem auknu fjármagni hefur verið veitt til þessara mála með samþykkt fjármálaáætlunar 2019-2023, og stefnum við að því að til viðbótar við áætlunina frá í fyrra verði úthlutað rúmum 1,7 ma. kr. á næstu þremur árum, 2019-2021.
Vil ég meina að hér sé um mjög tímabærar og nauðsynlegar fjárheimildir að ræða, enda er núverandi ríkisstjórn full alvara með því að takast á við þau vandamál sem hrannast hafa upp á undanförnum árum vegna ágangs ferðamanna og gera ferðaþjónustu á Íslandi sjálfbærari en hún hefur verið.
Samhliða þessu eru fyrirhugaðar auknar fjárveitingar til landvörslu á næstu árum sem bæði munu nýtast til að anna stóraukinni þörf á friðlýstum svæðum, en einnig til að mæta landvörslu á nýjum svæðum þar sem unnið er að friðlýsingum.
Ég vil gjarnan nefna tvö stór verkefni á sviði náttúruverndar sem ég tel að muni skipta miklu máli á næstu árum: Annað er stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands sem yrði langstærsta framlag okkar Íslendinga til náttúruverndar í heiminum til þessa. Hitt er sameining verkefna hins opinbera í náttúruvernd undir eina sterka stofnun. Mun ég leggja fram frumvarp þess efnis á Alþingi í marsmánuði.
Að þessu sögðu vil ég einnig nefna að á síðasta ári stofnaði ég vinnuteymi milli Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins sem hefur það verkefni með höndum að vinna að átaki í friðlýsingum. Átakið nær til svæða í verndarflokki rammaáætlunar sem samþykkt var á Alþingi árið 2013, svæða á náttúruverndaráætlunum sem samþykktar voru árin 2004 og 2009, svæða undir miklu álagi ferðamanna, auk annarra svæða sem t.d. landeigendur óska eftir að verði friðlýst. Nýlegt dæmi um hið síðast nefnda er ósk fólksins á Dröngum á Ströndum að jörð þeirra verði friðlýst.
Vinna við átakið er komin ágætlega af stað en aukinn kraftur verður settur í hana á þessu ári til að vinna hraðar að þeim verkefnum sem hafa safnast upp á undanförnum árum.
Hér í dag kynnir Umhverfisstofnun afrakstur mikilvægrar vinnu um mat á ástandi friðlýstra svæða – og birtir samhliða því lista yfir svæði sem þarfnast sérstakrar áherslu, líkt og válistar eru unnir fyrir ástand tegunda og stofna. Þessi vinna er mjög mikilvæg til þess að þekkja ástand helstu náttúruperlna okkar, ekki síst í tengslum við ferðaþjónustu og álag ferðamanna. Vinna sem þessi auðveldar forgangsröðun við umsjón svæða og framkvæmdir til verndar náttúrunni. Þá segir þessi vinna til um hvernig og hvaða breytingar verða á milli ára og verður þannig mikilvægt vöktunartæki á árangri okkar við vernd og varðveislu þessara svæða. Ég vil þakka Umhverfisstofnun fyrir umfangsmikla og góða vinnu sem upplýsir og auðveldar ákvarðanatöku.
Að lokum vil ég segja þetta: Við erum með ómetanlegt fjöregg í höndunum, þar sem náttúruarfur okkar er annars vegar. Svæði sem þegar eru friðlýst, svæði sem framkvæmdavaldinu hefur verið falið að friðlýsa og önnur svæði sem óskir eru um vernda er ábyrgðarmikið verkefni sem stjórnvöld hafa nú tekið föstum tökum. Áfram við – áfram náttúra Íslands.