Hoppa yfir valmynd
11.03.2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Neysla er loftslagsmál

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 11. mars 2019.

Neysla er loftslagsmál

Eitt er það sem við deilum öll saman, með nærri 8 milljörðum annarra: Jörðin. Við deilum henni sömuleiðis með öllum sem á eftir okkur koma – líka þeim sem fæðast árið 2700 og árið 4500. Á merkilega fáum áratugum hefur einni tegund lífvera hins vegar tekist að koma af stað ferlum sem ógna öllum öðrum tegundum á plánetunni. Við stöndum frammi fyrir geigvænlegum breytingum á loftslaginu og hjarta vandans er neysla af ýmsum toga – stanslaus og ósjálfbær neysla.

Vitanlega þurfum við margvíslega hluti í daglegu lífi okkar og að sjálfsögðu þurfum við mat og fatnað. En til dæmis það að einn þriðji hluti matar í heiminum endi í ruslinu án þess að nokkur hafi neytt hans er galið og hefur gríðarleg loftslagsáhrif. Á einhverjum tímapunkti hætti fólk að gera við og laga hluti og keypti í staðinn nýja. Jafnsjálfsagt varð hjá mörgum að fara með flugvél til útlanda yfir helgi og áður var að kjótast í sumarbústað innanlands. Öll þessi neysla á sér ekki stað í tómi heldur hefur umhverfisáhrif og bein áhrif á loftslagið.

Í gær hófst á RÚV ný íslensk þáttaröð „Hvað höfum við gert?“ sem fjallar um áskoranir mannkyns í loftslagsmálum. Þáttur gærkvöldsins fjallaði m.a. um áhrif neysluhyggjunnar og það er mikilvægt. Um leið og við horfumst í augu við vandann verðum við að gæta þess að einbeita okkur að því að leysa málin og vinna þannig á loftslagskvíðanum sem við finnum svo mörg fyrir. Við getum sannarlega brugðist við og breytt þróuninni til betri vegar. Allt sem við gerum hefur áhrif. Vitanlega er þó ekki hægt að hengja allar lausnir á einstaklinginn. Fyrirtæki um allan heim þurfa að taka til í sínum ranni, ríkisstjórnir, sveitarstjórnir, alþjóðleg stórfyrirtæki. Við erum öll saman í liði í þessu stóra verkefni.

Umhverfisþing Sameinuðu þjóðanna hefst í Kenía í dag og þar verður kastljósinu m.a. beint að neyslu og áhrifum hennar á Jörðina. Áskoranirnar eru fjölmargar en lausnirnar eru það sem betur fer líka. 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta