Hoppa yfir valmynd
05.04.2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á ársfundi ÍSOR 2019

Góðu gestir,
Það er mér mikil ánægja að ávarpa þennan ársfund Íslenskra orkurannsókna.

ÍSOR er ein af lykilstofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og gegnir veigamiklu hlutverki í íslensku samfélagi. Stofnunin sinnir hagnýtum rannsóknum jafnt sem grunnrannsóknum á einni helstu auðlind landsins, jarðhitanum, og er leiðandi í slíkum rannsóknum á heimsvísu.

Starf ÍSOR, og forvera hennar, Rannsóknasviðs Orkustofnunar, er mikilvægur grunnur undir eitt merkasta framlag Íslendinga til sjálfbærni – nýtingu jarðhita til húshitunar, rafmagnsframleiðslu og ýmissar iðnaðarstarfsemi. Nú á tímum loftslagsvár og hnattrænna breytinga er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að hlúa að þessari þekkingu og stuðla að vexti hennar og viðgangi.

Því er það sérstakt fagnaðarefni að á liðnu ári hafi verið undirrituð viljayfirlýsing milli ÍSOR og Jarðfræðistofnunar Kína um samstarf á sviði jarðhita. ÍSOR hefur tekið þátt í nokkrum verkefnum í Kína til þessa og menntað tæplega 90 kínverska sérfræðinga í gegnum Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna en ekki átt í formlegu samstarfi við kínversku Jarðfræðistofnunina til þessa. Það er til mikils að vinna að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í Kína og óskandi er að samstarf stofnananna leiði til jákvæðra áhrifa á loftslagsmál í þessu fjölmennasta ríki heims.

Gott fólk.

Nýting jarðhita hefur vissulega ekki nærri því jafnstórt kolefnisspor og nýting jarðefnaeldsneytis til orkuframleiðslu. Hún er samt ekki alveg laus við slíkt og ýmis önnur mengandi efni fylgja gjarnan jarðhitavinnslu. Íbúar í Hveragerði og á höfuðborgarsvæðinu þekkja t.d. nokkuð vel brennisteinsskýið sem leggur stundum frá Hellisheiðarvirkjun á köldum, stilltum dögum.

Á liðnu ári fékk ÍSOR, ásamt innlendum og erlendum samstarfsaðilum, tveggja milljarða króna styrk úr rannsóknar- og nýsköpunaráætlun ESB, Horizon 2020, til verkefnis sem miðar að því að þróa aðferðir til sporlausrar nýtingar jarðhita. Þar verður mengandi efnum, t.d. koltvísýringi og brennisteinstvívetni, dælt aftur niður í jarðhitageyminn.

Verkefni af þessu tagi eru gríðarlega mikilvæg til að finna lausnir á tæknilegum og umhverfislegum vandamálum við jarðhitanýtingu og til að stuðla að samfélagslegri sátt um nýtinguna. Ég vil óska ÍSOR til hamingju með hlutdeild sína í þessum styrk og óska bæði stofnuninni og samstarfsaðilum góðs gengis í vinnunni fram undan.

Í raun hefur ÍSOR náð eftirtektarverðum árangri í styrkjaumsóknum á erlendri grundu á undanförnum árum. Ýmislegt má nefna sem skýrir þennan góða árangur og er þar eflaust fremst í flokki mikil reynsla íslensks vísindafólks af rannsóknum á sviði jarðhita. Innan veggja ÍSOR er að finna einstaka þekkingu og reynslu á þessu sviði og er mannauðurinn eflaust langdýrmætasta eign stofnunarinnar.

Framlag starfsfólks ÍSOR til jarðvísinda er viðurkennt og mikils metið langt út fyrir landsteinana, eins og má t.d. sjá af viðurkenningunni sem Jarðfræðifélag Bandaríkjanna veitti Kristjáni Sæmundssyni jarðfræðingi í fyrra fyrir ötult starf hans að jarðfræðikortlagningu og rannsóknum. Þær hafa valdið straumhvörfum annars vegar í skilningi á jarðfræði Norður-Atlantshafsins og hins vegar varðandi nýtingu jarðhita, með miklum og jákvæðum þjóðfélagslegum áhrifum á Íslandi.

Í framhaldi af þessari viðurkenningu til Kristjáns er ánægjulegt að segja frá því að umhverfis- og auðlindaráðuneytið gerði seint á síðasta ári samning við ÍSOR og Náttúrufræðistofnun Íslands upp á um 100 milljónir króna. Fjármagninu er ætlað að gefa í svo um munar við jarðfræðikortagerð og skráningu jarðminja hérlendis. Í gegnum tíðina hafa stofnanirnar báðar sinnt kortagerðinni en hafa nú einsett sér að sameina krafta sína næstu tvö árin, og vonandi lengur, til að koma jarðfræðikortagerð hér á landi á gott skrið. Stefnt er að útgáfu þriggja korta á þessu ári og því næsta, sem er mikil aukning frá því sem verið hefur. Einnig hyggjast stofnanirnar eiga í samstarfi um skráningu jarðminja, sem er mikilvæg forsenda fyrir vernd og sjálfbærri nýtingu á þeirri auðlind okkar.

Ég óska ykkur góðs ársfundar og góðs gengis fram undan á árinu.
Takk fyrir og njótið dagsins.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta