Hoppa yfir valmynd
11.04.2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á ársfundi Landgræðslunnar

Góðan daginn,

Það er ánægjulegt að fá að vera með ykkur hér í dag.

Ný lög um landgræðslu tóku gildi fyrir síðustu jól. Um er að ræða tímamót sem geta leitt til verulegra breytinga á landgræðslustarfinu. Markmið laganna setja fleiri viðfangsefni á dagskrá í landgræðslustarfinu en gömlu lögin og skerpa á því að hverju beri að stefna við vernd og nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. Annars vegar eru sett markmið um vernd og sjálfbæra nýtingu lands – hvernig við verndum það sem við eigum. Hins vegar eru sett markmið um að við eigum að byggja upp og endurheimta vistkerfi sem hafa raskast.

Hvaða tilgangi þjóna lög? Svona almennt upplifum við þau líklega þannig að þau innleiði boð og bönn. En lög eru samfélagssáttmáli. Þau geta sett almenn viðmið og leikreglur í samfélaginu. Það er því mikilvægt að ákvæði nýrra laga séu kynnt vel. Tækifæri mun m.a. gefast til þess við gerð landgræðsluáætlunar sem ráðherra gefur út ekki sjaldnar en á fimm ára fresti. Landgræðsluáætlun skal stuðla að framförum í mati á jarðvegsvernd, hún skal gera grein fyrir markmiðum stjórnvalda um hvernig nýting lands styður best við atvinnu og byggðir í landinu, hvernig gæði lands eru best varðveitt og hvernig efla megi og endurheimta vistkerfi sem skert hafa verið og koma með tillögur um breytingar á nýtingu lands, t.d. friðun fyrir tiltekinni nýtingu þar sem það á við.

Ég bind miklar vonir við að vinna við landgræðsluáætlun verði vettvangur víðtækrar umræðu um ástand landsins og hvernig við getum bætt það. Það er mikilvægt að auka þekkingu og skilning þjóðarinnar á viðfangsefnum gróður- og jarðvegsverndar og tengslum við almenna náttúruvernd í landinu. Landshlutaáætlanir verða síðan tæki til stefnumótunar á svæðisvísu því aðstæður hér á landi eru æði misjafnar m.t.t. ástands lands. Það er gríðarlega mikilvægt að við gerð þeirra verði mikið samráð við sveitarfélög, bændur, félagasamtök og fyrirtæki sem eru samstarfsaðilar í þessum verkefnum.

Landgræðslan hefur kynnt nýtt skipurit sem tekur m.a. mið af nýjum lögum. Það er ástæða til að óska Landgræðslunni til hamingju með það.

Samkvæmt nýjum lögum skal að því stefnt að efla vistkerfi með bindingu kolefnis og endurheimt vistkerfa. Samhengi landnotkunar og loftslagsmála hefur lengi legið fyrir. Hér á landi og um allan heim hefur ósjálfbær landnotkun stuðlað að losun gróðurhúsalofttegunda frá landi, með skógar-, gróður- og jarðvegseyðingu. Með því hins vegar að ná markmiði um sjálfbæra landnýtingu og vinna að endurheimt vistkerfa má vernda kolefni í jarðvegi og stuðla að myndun jarðvegs, og þar með bindingu kolefnis.

Undir yfirskrift loftslagsmála er gert ráð fyrir verulega auknum fjármunum til stöðvunar losunar frá landi og aukinnar kolefnisbindingar. Áherslur mínar eru skýrar hvað ráðstöfun þessara fjármuna varðar: Stöðvun losunar frá landi, þ.m.t. framræstu votlendi og rofnu landi. Við þurfum að búa yfir fullnægjandi þekkingu á grunnástandi og hvernig meta megi árangur aðgerða. Því til viðbótar þarf að byggja ofan á grunnþekkingu á eðli losunar og bindingar í landi. Aðgerðir í þágu loftslagsmála verða að vera í samræmi við aðrar skuldbindingar okkar Íslendinga hvort sem um er að ræða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, markmið um vernd líffræðilegrar fjölbreytni eða jarðvegsvernd. Aðgerðir eiga líka að stuðla að markmiðum sem stjórnvöld setja m.a. varðandi landnotkun. Þar má t.d. nefna endurheimt votlendis og endurheimt birkis og víðikjarrs. Það þarf að tryggja að aðgerðir þær sem ráðist verður í á næstu árum skili varanlegum ávinningi. Síðast en ekki síst verður mikil áhersla á að vinna að aðgerðum í þágu loftslagsmála í samstarfi við sem flesta; bændur, félagasamtök, fyrirtæki, sveitarfélög og hver önnur þau sem vilja leggja hönd á plóg.

Þegar fólk er virkjað til þátttöku í landbótastarfi þarf að fela því ábyrgð. Það þarf ekki eingöngu að vera aðgerðin sjálf, hvort sem hún felst í gróðursetningu eða sáningu, heldur einnig undirbúningur, áætlanir og mat á árangri. Þetta má gera með viðeigandi leiðsögn og fræðslu og réttum tólum og tækjum. Það má segja að verkefni okkar með bændum um loftslagsvænni landbúnað byggi á þessari nálgun, að fræða og leiðbeina um hvernig megi t.d. breyta landnotkun ekki bara í þágu loftslagsmála heldur einnig til að bæta heilbrigði vistkerfa á viðkomandi jörð og jafnvel bæta búrekstur til framtíðar.

Í tengslum við áform ríkisstjórnarinnar um aukna náttúruvernd erum við að skoða tengsl landbúnaðar og náttúruverndar, og hvernig megi samþætta betur sjónarmið og hagsmuni. T.a.m. er vert að gefa gaum hvernig megi vinna að endurheimt vistkerfa innan friðlýstra svæða.

Starf Landgræðslunnar nýtur stuðnings meðal þjóðarinnar og þvert á hið pólitíska litróf. Mínar áherslur ríma einnig vel við það starf sem unnið er hjá stofnuninni, hvort sem það snýr að endurheimt vistkerfa, líffræðilegri fjölbreytni eða eflingu hringrásarhagkerfis. Landgræðslan hefur sýnt frumkvæði í að vinna með sveitarfélögum og fleirum að nýtingu lífræns úrgangs eða auðlindastrauma eins og má líka kalla það. Víðast hvar á landinu eru þessar straumar vannýttir og við verðum að bæta þar úr. Þannig þurfum við að skoða betur fýsileika þess að nýta þessa strauma í stað innfluttra áburðarefna.

Nokkur orð um framtíðina. Ég hef talsvert velt fyrir mér hvort stofnanastrúktúr ráðuneytisins sé skynsamlegur m.t.t. nýtingar fjármuna, mannauðs og heildstæðrar stefnumótunar. Litlar stofnanir hafa sína kosti en margar slíkar leiða oftast til lakari nýtingar á stoðþjónustu, og háu hlutfalli fasts kostnaðar, húsnæðis, reksturs tölvukerfa og slíkt. Þetta vil ég skoða nánar en ætla ekki að lýsa neinu yfir hér eða fyrr en niðurstaða slíkrar skoðunar liggur fyrir.

Við lifum á spennandi tímum og vitund um umhverfismál eykst stöðugt. Ísland getur verið í fararbroddi ef vel er haldið á spöðum við endurheimt vistkerfa og við að ná markmiðum um sjálfbæra landnýtingu. Ég finn að fyrir því er ákveðinn meðbyr þessi misserin og er lánsamur að fá að taka þátt í þessari vegferð á þeim einstöku tímum sem nú eru uppi í umhverfismálum. Saman erum við að leggja grunninn að gríðarlegri uppbyggingu vistkerfa, greiða skuldina við landið og framtíðina.

Ég lít svo á að Landgræðslan geti gegnt mjög mikilvægu og leiðandi hlutverki á alþjóðlegum vettvangi. Við getum í samstarfi við aðra þróað áfram starf Landgræðsluskólans, gert landgræðslustarfið sýnilegra og talað fyrir því gagnvart þeim alþjóðasamningum sem við erum fullgildir aðilar að. Næsti áratugur verður helgaður endurheimt vistkerfa og Ísland á að vera í fararbroddi í að tala fyrir því, segja söguna og sýna hvað við erum að gera.

Ég er því bjartsýnn og spenntur fyrir komandi tímum. Ég treysti á starfsfólk Landgræðslunnar og annarra samstarfsstofnana til að leiða vinnuna fram undan og virkja sem flesta við aðgerðir í þágu loftslags og heilbrigðari vistkerfa.

Lifið heil!


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta