Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á ársfundi Umhverfisstofnunar 2019
• Þjóðgarður hefur verið stofnaður á miðhálendi Íslands.
• Friðlýsingum í verndarflokki rammaáætlunar er lokið.
• Nokkur svæði á gömlu náttúruverndaráætlununum og svæði sem voru undir miklu álagi ferðamanna hafa einnig verið friðlýst.
• Landvarsla hefur verið aukin til muna á náttúruverndarsvæðum og heilsárstörfum fjölgað.
• Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og áætlun um kolefnishlutleysi Íslands hafa verið lagðar fram og unnið er eftir þeim. Vinna stendur yfir við áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi.
• Unnið er eftir áætlun um hringrásarhagkerfið, áætlun um aðgerðir vegna plastmengunar og eftirfylgni við Árósasamninginn.
• Hinn almenni borgari er mun meðvitaðri um loftslagsbreytingar, neyslu og sóun en fyrir nokkrum árum.
Það er árið 2025.
• Fyrsti þjóðgarður Íslendinga í hafi hefur verið stofnaður.
• Uppbyggingu innviða á fjölsóttum ferðamannastöðum er að mestu lokið, og álagi er stýrt á öðrum stöðum með takmörkunum á fjölda gesta.
• Búið er að stöðva útlosun gróðurhúsalofttegunda frá stórum svæðum af illa förnu landi og stór votlendissvæði hafa verið endurheimt.
• Það er ekki kúl að sóa mat en mjög töff að endurnýta fatnað og endurvinna.
• Stórlega hefur dregið úr notkun á plasti.
• Lífrænn úrgangur er ekki lengur urðaður, heldur er hann nýttur til moltugerðar og notaður sem áburður á tún og til landgræðslu.
Það er árið 2030.
• Með samstilltu átaki ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga hefur Ísland staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu.
• Aðferðir við laxeldi eru breyttar frá því sem er í dag og erfðamengun nær úr sögunni. Úrgangur frá eldinu er að mestu nýttur sem áburður.
• Styrkir í landbúnaði stuðla að sjálfbærri nýtingu lands og bændur eru virkir þátttakendur í náttúruvernd.
• Við nýtum og notum vörur og tæki lengur en áður. Við gerum við frekar en að kaupa nýtt.
• Við lítum ekki lengur á úrgang sem sorp, heldur sem verðmætt hráefni til framleiðslu á vörum.
• Við erum stolt af því að búa í landi þar sem okkur hefur auðnast að umgangast auðlindir Jarðar af virðingu og skynsemi og það er litið upp til okkar á alþjóðlegum vettvangi af þessu tilefni.
• Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa náð kolefnishlutleysi.
Það er árið 2040.
• Ísland sjálft hefur náð þeim áfanga að vera kolefnishlutlaust.
• Það sem meira er, við bindum meira kolefni heldur en við losum og hjálpum þannig til við að ná umframmagni þess úr andrúmslofti.
Eins og við öll vitum er árið 2019 núna! Þetta er því framtíðarsýn. Það er mikilvægt að við horfum til framtíðar og hugsum um það hvert við viljum og þurfum að stefna – og sýnin verður að vera skýr.
Mannkynið stendur frammi fyrir miklum áskorunum í umhverfismálum og það er verkefni okkar allra – stjórnvalda, fyrirtækja, félagasamtaka, fullorðinna, ungmenna og barna að takast í sameiningu á við þær áskoranir af ákveðni og festu. Heimsbyggðin er að vakna til meðvitundar um umhverfismál og ótrúlegur kraftur einkennir baráttuna.
Það er einstaklega ánægjulegt að sjá öll þau fjölmörgu verkefni sem komin eru í gang í umhverfismálunum hér á landi og farin að skila árangri. Umhverfisstofnun gegnir hér veigamiklu hlutverki og það er mér heiður og ánægja að fá að vinna að þessum verkefnum með ykkur.
Framtíðarsýn má ekki bara vera fögur orð á blaði, í orði en ekki á borði. Þess vegna er lykilatriði að vinna markvisst að skammtíma- og langtímamarkmiðum okkar. Viðfangsefnin eru mismunandi og verkfærin því að sama skapi. Lagasetning, reglugerðir, stefnumörkun, nýsköpun, frumkvæði, aukið fjármagn, samningagerð, eftirlit o.s.frv. eru allt verkfæri. Ég ætla að impra á nokkrum dæmum sem unnið er að núna í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eða á stofnunum þess – og flest tengjast dæmin með einum eða öðrum hætti starfsemi Umhverfisstofnunar.
Stórauknar fjárheimildir til loftslagsmála, náttúruverndarmála og nú síðast hringrásarhagkerfis hafa verið tryggðar í fjármálaáætlunum núverandi ríkisstjórnar. Nú þegar sjáum við þess merki með aukinni uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum og aukinni landvörslu, þar sem m.a. hefur nú þegar verið bætt við heilsársstöðugildum á nokkrum stöðum á landinu. Þessa gætir hjá öllum stofnunum okkar sem sinna náttúruvernd.
Í ráðherratíð minni hafa þegar verið samþykkt mikilvæg og stór þingmál, þ.m.t. ný heildarlög um haf- og strandsvæðaskipulag, ný heildarlög um landgræðslu og í gær ný heildarlög um skógrækt. Ný stefnumótun til 12 ára um ferðaþjónustu og náttúruvernd (Landsáætlun) var einnig samþykkt á þingi í fyrra. Þá liggur núna fyrir þinginu frumvarp að nýjum heildarlögum um þjóðgarða og þjóðgarðastofnun sem ég bind miklar vonir við að geti styrkt verulega náttúruverndarstarf í landinu og þar með byggð um allt land. Að ógleymdu frumvarpi um loftslagsmál þar sem Umhverfisstofnun er ætlað aukið hlutverk m.a. við að aðstoða stofnanir ríkisins við að setja sér stefnu, markmið og grípa til aðgerða í loftslagsmálum. Bætist það við umfangsmikið starf stofnunarinnar á sviði loftslagsmála.
Umhverfisstofnun sinnir mikilvægu starfi þegar kemur að neytendamálum, bæði á sviði efnamála og varðandi neyslu, sóun og úrgangsmál. Nýlega ýtti Umhverfisstofnun úr vör nýju átaki gegn notkun einnota plasts sem er einmitt ein af aðgerðum í tillögum starfshóps vegna plastmengunar sem skilaði af sér í lok síðasta árs. Mér finnst þetta átak einkar vel heppnað og flott. Stofnunin vinnur einnig að stefnu í úrgangsmálum sem ég stefni á að gefa út í haust. Þar er tekið mið af hringrásarhagkerfinu. Á grundvelli þessarar stefnu vonast ég til að hægt verði að hrinda mörgum þarflegum verkefnum í gang sem marka muni veginn að þeirri framtíðarsýn sem ég teiknaði upp hér í upphafi.
Þá vil ég nefna að eitt af verkefnum tengdum formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni í ár er ráðstefna um Svaninn og fyrstu þúsund daga í lífi barnsins, sem haldin verður í maí. Þar verður fjallað um efni í umhverfi ungra barna og auðvitað sjálfbæra neyslu. Umhverfisstofnun hefur haft veg og vanda af skipulagningu ráðstefnunnar. Að lokum má nefna að fyrir Alþingi liggir frumvarp til laga um breytingar á efnalögum og ætla ég að vitna hér í nokkra vel valda kafla.
Eins og þið þekkið lét ég vinna rannsókn á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða sem bendir til að fyrir hverja eina krónu sem hið opinbera leggur til náttúruverndarsvæða skili 23 krónur sér til baka í þjóðarbúið. Nú er í gegnum Byggðaáætlun unnið að greiningu tækifæra og sviðsmynda fyrir ný friðlýst svæði í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga. Þetta er í fyrsta skipti sem fjármagni er veitt úr Byggðaáætlun í verkefni á sviði náttúruverndar og undirstrikar aukna áherslu stjórnvalda á náttúruvernd.
Í fyrra hófst átak í friðlýsingum þar sem sjónum er sérstaklega beint að svæðum í verndarflokki rammaáætlunar, svæðum á náttúruverndaráætlunum og svæðum undir miklu álagi ferðamanna, auk annarra friðlýsinga. Sérstakt teymi Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins starfar að þessu átaki með stórauknu fjármagni miðað við fyrri ár. Það er sérstaklega ánægjulegt að nefna að ég undirritaði friðlýsingu fyrsta svæðisins í átakinu nú í morgun.
Akurey á Kollafirði og nærliggjandi svæði hefur verið friðlýst og beinist friðlýsingin ekki síst að verndun búsvæða lundans, en hann er á válista fyrir tegundir í bráðri útrýmingarhættu. Ábyrgð okkar Íslendinga er rík þegar kemur að lundanum og öðrum sjófuglum sem nú eiga undir högg að sækja. Unnið er að friðlýsingu fjölmargra fleiri svæða og vonast ég til að þeim fjölgi jafnt og þétt á þessu ári og þeim næstu.
Það væri hægt að koma inn á fjölmörg fleiri mál hér í dag, en ég læt staðar numið hér.
Ég vil meina að nú þegar hafi mikilvægur grunnur verið lagður að því að framkalla þá framtíðarsýn sem ég lýsti í upphafi. En fjölmargt er auðvitað eftir.
Til að ná þessari metnaðarfullu framtíðarsýn þarf öflugt og samhent lið ráðuneytis og stofnana eins og Umhverfisstofnunar, sem gegnir þar lykilhlutverki. Það þarf líka gott samtal og samráð stjórnvalda við hagaðila, almannasamtök, atvinnulíf og svo framvegis – enda mikilvægt að ná góðri sátt um svo stór mál. Ég hef lagt mikla áherslu á þetta samtal og þýðingu þess.
Ágæta starfsfólk og aðrir ársfundargestir.
Hjá Umhverfisstofnun starfar öflugur og kraftmikill hópur fólks. Ég óska ykkur alls velfarnaðar og þakka ykkur hjartanlega fyrir gott og ötult starf að umhverfis- og náttúruverndarmálum og þátt ykkar við að vinna að framtíðarsýninni.
Takk fyrir.