Hoppa yfir valmynd
16.05.2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á málþingi loftslagsráðs um aðlögun að loftslagsbreytingum

Góðan dag,

Ég vil byrja á að þakka Loftslagsráði hjartanlega fyrir afar mikilvægt framtak. Það er brýnt að ræða aðlögun að loftslagsbreytingum og nauðsynlegt að leiða saman krafta fólks til að takast á við þau verkefni sem fyrir liggja.

Það er óhjákvæmilegt að við jarðarbúar búum okkur undir þá röskun sem er að verða á veðrakerfunum á sama tíma og við leggjum okkur öll fram til hægja á, og síðan stöðva, þá röskun. Stóra verkefnið er skýrt: Við verðum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til þess þurfum við róttækar aðgerðir. En á sama tíma verðum við að búa okkur undir afleiðingar loftslagsbreytinga.

Það er mikilvægt að við gerum greinarmun á mótvægisaðgerðum og aðlögunaraðgerðum. Mótvægisaðgerðir eru aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en aðlögunaraðgerðir felast í viðbúnaði eða viðbrögðum við afleiðingum loftslagsbreytinga. Þrátt fyrir mótvægisaðgerðir munu Íslendingar þurfa að aðlagast frekar loftslagsbreytingum á næstu áratugum og að minnsta kosti næsta árhundraði. Áhrifin verða meiri víða um heim, en hér á landi þurfum við engu að síður að undirbúa okkur.

Aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga kallar á nýjan hugsunarhátt. Þetta eru forvarnir. Við drögum úr tjóni með því að horfast í augu við áhættu og grípa til aðgerða sem auka viðnámsþrótt.

Aðlögunaraðgerðir snúast að mestu um annars vegar auknar rannsóknir og vöktun á tjónnæmi samfélagsins gagnvart loftslagsbreytingum og hins vegar framkvæmdir sem auka viðnámsþrótt samfélagsins og efnahagslífsins gagnvart þeim. Aðlögun að loftslagsbreytingum krefst nýs hugsunarháttar. Við þurfum til dæmis að temja okkur nýjan hugsunarhátt þegar kemur að uppbyggingu samfélagsins og skipulagi. Aðlögun er ný vídd í skipulagi samfélagsins sem er kominn til að vera í langan tíma.

Ég hef frá því ég tók við embætti ráðherra haft nauðsyn þess að vinna aðlögunaráætlun, þá fyrstu sinnar gerðar, fyrir Ísland. Til að gefa aðlögunarstefnu og áætlun meira vægi, er því sérstaklega til tekið í frumvarpi mínu að breytingum á loftslagslögum að vinna eigi áætlun um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum, á grundvelli bestu vísindalegrar þekkingar. Hef ég þegar beðið Loftslagsráð um að veita ráðgjöf um umrædda aðlögun. Málþingið hér í dag er hluti af þeirri vinnu sem Loftslagsráð hyggst ráðast í varðandi þá ráðgjöf og fagna ég þessari vinnu þeirra. Ég vonast til að málþingið hér í dag muni varpa frekara ljósi á hvernig við gætum unnið skynsamlega og þróttmikla aðlögunarstefnu fyrir Ísland.

Mikilvægt er að hafa í huga að við erum ekki á byrjunarreit. Við þurfum að hraða aðgerðum á þeim sviðum þar sem nægjanleg þekking liggur þegar fyrir. Mikil fjárfesting er nú þegar í rannsóknum og vöktun en mikilvægt að greina vel hvar þörf er á að auka við þann þátt eða breyta áherslum. Þetta leggur grunn að frekari forvörnum.

Í allri umræðu um loftslagsbreytingar og aðlögun er brýnt að við gerum okkur grein fyrir því að aðlögun að loftslagsvá eru takmörk sett. Sumar þeirra breytingar sem þegar eru farnar af stað eru þess eðlis að við þeim verður ekki brugðist nema með því að stöðva uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Súrnun sjávar er skýrt dæmi um slíka ógn.

Góðir gestir.

Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar er vel gerð grein fyrir helstu afleiðingum loftslagsbreytinga á Íslandi, enda metnaðarfull og afar vönduð vinna sem liggur að baki skýrslunni. Og verði áðurnefnt frumvarp um loftslagslög að veruleika verður slík skýrslugerð, um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi, lögfest.

Í loftslagsumræðunni hefur mér orðið tíðrætt um samlegðaráhrif (e. synergies). Þau eiga einnig við hér. Í þeirri vegferð sem er fram undan er brýnt að við komum auga á það hvar eru samlegðaráhrif milli mótvægisaðgerða og aðlögunaraðgerða. Sumar mótvægisaðgerðir geta aukið viðnámsþrótt samfélagsins gagnvart loftslagsbreytingum samhliða því að sporna gegn þeim. Dæmi um slíkt er endurheimt votlendis sem getur aukið viðnámsþrótt svæða gagnvart flóðum á sama tíma og hún kemur í veg fyrir losun kolefnis úr jörðu og upp í andrúmsloftið.

Ég óska okkur öllum velfarnaðar í því þýðingarmikla starfi sem fram undan er og er þess fullviss að málþingið hér í dag og vinnustofurnar eftir hádegi verði mikilvægt innlegg í þá vinnu.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta